Auðunn hélt hann væri eitthvað heftur

Auðunn Blöndal eða Auddi eins og hann er kallaður.
Auðunn Blöndal eða Auddi eins og hann er kallaður.

Auðunn Blöndal, einnig þekktur sem Auddi Blö, er fjölmiðlamaður, vel athyglissjúkur og skemmtikraftur inni að beini. Hann veit ekkert skemmtilegra en augnablikin stuttu áður en að nýtt verkefni sem hann hefur unnið hörðum höndum er opinberað í fyrsta sinn. Um þetta leyti eru slétt 20 ár frá því hann hóf feril sinn í fjölmiðlum í þáttunum 70 mínútur og segist Auddi hafa dýrkað hverja mínútu. Frá unga aldri langaði Auðunn að vera þjóðþekktur og lifði þann draum langt fyrir efni fram, keypti sér rándýran sportbíl sem unglingur og laug því að hann væri kominn með vinnu í sjónvarpi löngu áður en hann landaði henni. En kannski er það einmitt þessi fífldirfska sem hefur skilað Auðunni þangað sem hann er í dag. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarsson í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. 

Auðunn minnist álagsins sem fylgdi þáttagerð á þáttunum 70 mínútur með hlýju og telur það vera uppáhaldstímabilið á ferlinum sínum. Þá þurftu hann og samstarfsmenn hans að skila 70 mínútna löngum þætt á hverjum degi og að eigin sögn finnst Auðunni hann vinna vel undir pressu. Hann myndi ekki geta gert þetta í dag en segir þetta hafa verið eina skiptið á ferlinum sem hann var einskonar „rokkstjarna“.

 Auðunn keypti sér sportbíl sem unglingur þvert á ráðleggingar allra sem í kringum hann voru til þess eins að geta rúntað á Sauðárkrók. Foreldrar hans skildu og fluttu úr bænum en á endanum gat hann ekki borgað skuldir sínar, bílalánin meðtalin og flutti suður í vinnu sem systir hans hafði reddað honum. Fljótt eftir flutningana ákvað Auðunn að hann vildi vinna í 70 mínútum og sótti um vinnu þangað til þeir loksins leyfðu honum að prófa. Einungis tveimur árum síðar seldist bíllinn sem hann keypti sér á 2,5 milljónir á litlar 200 þúsund krónur.

Áður en Auðunn komst í vinnu hjá PoppTíví samdi hann textann við lagið Án þín sem Sverrir Bergmann söng í Söngvakeppni Framhaldsskólanna, en lagið varð í kjölfarið vinsælasta lagið á Íslandi. Auðunn náði líka öðru sæti í keppninni um Fyndnasta mann Íslands og reyndi hann að nýta þetta tvennt sér til framdráttar í umsóknarferlinu hjá 70 mínútum.

„Fyrsta giggið mitt ever – þá var ég nýbúinn [...] að lenda þarna í öðru sæti [í Fyndnasti maður Íslands] þá er ég veislustjóri hjá Flensborg og var svona pínu stressaður, aldrei skemmt áður eða neitt eða svona veislustýrt, og ég er inná klósetti að pissa og koma tveir gaurar við hliðina á mér að pissa og eru bara „hver er þessi veislustjóri eiginlega?“ „Einhver Auðunn. [...] NÆST fyndnasti maður Íslands.“ Gaurinn við hliðina [segir] „Guð minn góður, höfðum við ekki einu sinni efni á fyndnasta manni Íslands?“ og ég hugsa hmmm gaman, þetta verður skemmtilegt! [hlær] Að deyja úr stressi að pissa þarna við hliðina á þeim! Svo gekk giggið mjög vel og ég opnaði á því að tala um – ég nýtti mér þetta, sagði að ég hefði verið að pissa þarna áðan og væri alveg sammála því, hva eigið þið ekki pening, gátuð þið ekki fengið fyndnasta mann Íslands?“

Auðunn var byrjaður að ljúga um að hann væri að vinna í 70 mínútum áður en hann var kominn með vinnuna. Hann vann þá hjá Wurst við pappírsvinnu sem hann hafði enga ástríðu fyrir og fannst miklu skemmtilegra að segjast vinna í sjónvarpi en á skrifstofu.

Auðunni finnst mjög skemmtilegt að vinna í beinni sjónvarpsútsendingu og Snæbjörn spyr hann hvað það sé sem sé skemmtilegt við það. Hann talar þá um spennuna sem skapast þegar sýnt er í beinni, sem er álíka og bein útsending í útvarpi.

„Það er einhver fílíngur að vera í beinni og fyrir svona spilafíkil eins og mig þá hugsa ég, og ég gleymi því ekki þegar ég var í fyrstu beinu útsendingunni í Talentinu [Iceland Got Talent!] og hugsaði með mér bara „ókei, ég gæti bara rústað öllu núna“, þegar ég labba inn á svið. Ég gæti bara sagt eitthvað, gert eitthvað – ég eyðilegg þáttinn og ferilinn og þetta var alltaf í hausnum á mér einhvern veginn. [...] Þannig að það er, það er mjög gaman og kitlandi að vera í beinni útsendingu.“

Auðunn Blöndal og Rakel Þormarsdóttir með eldri son sinn, Theódór …
Auðunn Blöndal og Rakel Þormarsdóttir með eldri son sinn, Theódór Sverri. Skjáskot/Instagram

Auðunn byrjaði seint að eignast börn og er með tvö börn undir skólaaldri í dag.

„Hefði ég eignast barn 27 [ára] til svona 33-34 [ára] þá hefði mér alltaf þótt ég vera að missa af einhverju. Þú veist, ég var byrjaður að halda á sínum tíma að ég myndi bara aldrei hætta að fara niður í bæ og fara á djammið. Ég var farinn að hugsa bara hvort ég væri eitthvað heftur! Þú veist, ég ætlaði bara aldrei að vaxa upp úr því að verða að fara í einhvern leðurjakka og bol eitthvað og niður í bæ að láta heilsa mér og vera fullur, og sem betur fer þá gerðist það [...] Mér hefði alltaf fundist ég vera að missa af einhverju og ég hefði verið miklu verri bæði pabbi og verri við konuna mína sem ég er í sambandi með. [...] En núna, ég er ekki að missa af neinu. Þannig að það er svona kosturinn við það að vera orðinn eldri þegar maður eignast börn. En þetta er erfitt maður, dísus.“

Einn af föstum liðum í þættinum 70 mínútur var hinn svokallaði Ógeðisdrykkur. Þar blönduðu þáttastjórnendur saman ýmsum hráefnum sem allir virtust sammála um að myndu ekki eiga vel saman og fengu áhorfendur að kjósa með SMS kosningu hver þeirra á skjánum ætti að drekka drykkinn í beinni útsendingu. Auðunn segir að flestir gestir hafi neitað að taka þátt í Ógeðisdrykknum, þangað til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf færi á sér fyrst gesta og drakk drykkinn eftir kosningu. Eftir það voru fleiri gestir tilbúnir í þetta sprell.

Eitt sinn hafði hafði Auddi ekki verið að vinna að neinu verkefni í nokkra mánuði og þá kom Pálmi Guðmunds með þá hugmynd að hann færði sig af skjánum yfir í útvarp. Í fyrstu var Auðunn viss um að hann vildi ekki hugsa þá hugsun til enda, en eftir að hafa sofið – eða legið andvaka – á hugmyndinni ákvað hann að láta slag standa. Hann hristi þó upp í kerfinu og valdi að hafa með sér nýja manneskju á hverjum degi í stað þess að halda í reglubundna dagskrárgerð með sama fólk dag eftir dag. Hann réði sig á FM957 og er mjög feginn því í dag að hafa látið á reyna því úr varð FM95BLÖ. Í dag finnst Auðunni útvarp eiginlega skemmtilegri miðill en sjónvarpið að starfa við.

Þegar Auðunn var unglingur féll vinur hans og samstarfsmaður á Króknum fyrir eigin hendi. Auðunn átti mjög lengi erfitt með að takast á við það áfall, fékk sig ekki til að mæta á jarðarförina og fór ekki að leiði vinar síns fyrr en nokkrum árum eftir fráfallið. Hann þakkar aldrinum fyrir að geta horfst í augu við þessi áföll lífs síns.

Auðunn ferðaðist í um Asíu þvera og endilanga í þáttunum Asíski draumurinn og minnist þess að hann var niðurbrotinn andlega og líkamlega á lokametrunum. Síðasta áskorunin var að fara í hæsta teygjustökk í heimi í Macau sem Auðunn langaði alls ekki í en ákvað þó að láta vaða fyrir þáttinn. Eftir að hafa stokkið af pallinum var hann í mjög löngu frjálsu falli og þá fór Auddi að hágráta og furðaði sig á því hversu langt hann myndi ganga fyrir áhorfið.

Sverrir Þór Sverrisson, Auðunn Blöndal, Guðni Th. Jóhannesson, Steindi Jr. …
Sverrir Þór Sverrisson, Auðunn Blöndal, Guðni Th. Jóhannesson, Steindi Jr. og Egill Einarsson. Myndin var tekin á frumsýningu Leynilöggu þar sem Auðunn leikur aðalhlutverkið. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál