Hallgrímur Helgason með veiruna

Hallgrímur Helgason er kominn í einangrun eftir að hafa greinst …
Hallgrímur Helgason er kominn í einangrun eftir að hafa greinst með veiruna í gær.

Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason var einn af þeim 72 sem greindust með kórónuveiruna í gær. Hallgrímur greinir sjálfur frá þessu á Facebook í dag en mikið hefur verið að gera hjá rithöfundinum vegna útgáfu bókar hans Sextíu kíló af kjaftshöggum. 

Hallgrímur segist vera með flensu og slappur, en enn með bragð- og lyktarskyn. Hann fór á sóttvarnahótelið við Rauðarárstíg í gær þar sem honum finnst yndislegt að vera. Hann segir tímasetninguna ekki vera svo slæma þar sem sýningin hans er komin upp og allar bækur komnar í búðir. 

Hallgrímur var gestur í Vikunni með Gísla Marteini á föstudagskvöldið og er því Gísli Marteinn Baldursson kominn í sóttkví. Auk Hallgríms voru uppistandarinn Sólmundur Hólm Sólmundarson og söngkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir gestir Gísla og eru þau öll í sóttkví en einkennalaus.

Þá var Hallgrímur einnig með útgáfuboð deginum áður, á fimmtudag. Gestir boðsins þurfa þó ekki að fara í sóttkví.

„Aðrir sem ég hitti á föstudaginn eru í smitgát. Allir neikvæðir að ég best veit. En við ykkur sem enn eigið eftir að láta bólusetja ykkur segi ég: Gerið það strax!,“ skrifar Hallgrímur. 

mbl.is