Hlynur býr í skattaparadísinni Kýpur

Hlynur M. Jónsson býr á Kýpur.
Hlynur M. Jónsson býr á Kýpur. Skjáskot/Instagram

Hlynur M. Jónsson er búsettur á Norður-Kýpur og starfar þar sem fasteignamiðlari og áhrifavaldur. Í dag kennir hann sig við H. Elitelifestyle en fyrir nokkrum árum var hann þekktur undir nafninu ICEFIT. Hlynur er gestur í nýjasta þætti bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu. 

Hlynur er staddur á Íslandi um þessar mundir og kynnir Íslendingum þá möguleika sem Norður-Kýpur hefur upp á að bjóða, hvort sem það er fyrir heilsársbúsetu eða hluta úr ári. Í viðtalinu fór Hlynur yfir ferlið og möguleikana sem eru í boði fyrir Íslendinga sem gætu hugsað sér að fjárfesta í fasteign á Kýpur. Hann lýsir stemningunni sem afslappaðri og þægilegri en einnig talar hann um Norður-Kýpur sem einskonar skattaparadís.

Kýpur er deilt upp í tvennt, annars vegar er það gríski hlutinn og hins vegar tyrkneski hlutinn. Hann vill samt meina að íbúar Kýpur hvort sem þeir eru frá norður eða suður hlutanum búi yfir miklu þjóðarstolti og líti á sig sem Kýpverja en ekki Grikki eða Tyrki. Hann ber saman tyrkneska hluta Kýpur og meginland Tyrklands hvað varðar réttindi og möguleika kvenna, áfengisneyslu, trúariðkun og svo framvegis. Hann segir allt miklu afslappaðra í alla staði.

Hlynur birtir daglega myndir og myndskeið af sér í amstri dagsins á Kýpur. Á föstudögum gefur hann út dansmyndskeið þar sem hann dansar eins og hann eigi lífið að leysa við teknótónlist í fallegri náttúru Kýpur. Í þessum myndböndum er hann yfirleitt í lúxusjakkafötum, svo kælir hann sig gjarnan í tærum miðjarðarhafssjónum og þá yfirleitt án þess að fara úr jakkafötunum.

Þessi þrá hans eftir dansi, hreyfingu og sköpun segir hann að sé eflaust blanda af athyglissýki sem og ríkri þörf fyrir að upplifa og dreifa gleði. Í þessu samhengi spurði Gunnar hann út í lagatexta hans er hann gekk undir nafninu ICEFIT fyrir nokkrum árum. Lagatextarnir virðast einkennast af ríkum áhuga á kvenfólki, þörf fyrir tengingu, ástasamböndum, svefnleysi, angist, sársauka og örvæntingu. Hann segir bræðrunum frá þessum tíma þar sem hann var nýkominn úr áfengis- og fíkniefnameðferð og í gegnum tónlistina, dansinn, fitnessinn og Youtube-myndbönd hafi hann náð að vinna úr fortíðinni sem einkenndist af skömm, sekt og ótta.

Hlynur bendir á að ef þessi ICEFIT-tími og myndböndin sem fylgdu eru borin saman við stemninguna og þá sköpun sem geislar af honum í dag þá má greinilega sjá að viss uppljómun, heilun og úrvinnsla hefur átt sér stað. Hann finnur sig heldur ekki knúinn til þess að fela sig á bak við karakter á borð við ICEFIT eða nokkuð annað. Í dag getur hann verið Hlynur. 

Viðtalið má nálagst á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Hlynur er duglegur að deila myndum á Instagram.


mbl.is