„Með hverjum fórstu til Amsterdam, tíkin þín?“

Baldur Freyr Einarsson.
Baldur Freyr Einarsson.

Baldur Freyr Einarsson var að gefa út ævisögu sína, Úr heljargreipum, en hún fjallar um hvernig ofbeldið í æsku leiddi hann út á glæpabrautin. Eftir að hafa lifað í heimi glæpa, rekið vændishús og fleira sem fylgir þeim lífsstíl að fara á svig við lög og reglur ákvað að hann að snúa blaðinu við. 

Hér fyrir neðan er einn kafli úr bókinni: 

Er mamma mín dáin? 

Mamma leit skelfd á mig um leið og hún færði sig nær mér. Mig langaði svo til að vernda hana. Langaði til að vera stór klettur sem hún gæti falið sig á bak við. Ég var samt bara lítill strákur í stormi ógnandi aðstæðna sem ég hafði enga stjórn á. Rikki gekk ógnandi í áttina að henni og byrjaði að hreyta í hana ónotum:

„Með hverjum fórstu til Amsterdam, tíkin þín?“ spurði hann og blótaði henni um leið og hann greip í öxl hennar. Hún rak upp skerandi vein og ég fann hvernig það stakkst á kaf inn í hjarta mitt. Þar gróf það um sig og varð að svöðusári. Gröftur reiði og haturs vall úr því á komandi tímum og heltók tilveru mína.  

Úr heljargreipum er ævisaga Baldur Freyr Einarsson.
Úr heljargreipum er ævisaga Baldur Freyr Einarsson.

Stingandi sársauki heltók mig en mér til undrunar fann ég hvernig ég fylltist skyndilega hugrekki, já ég þori. Ég tók tilhlaup og hljóp að Rikka og stökk upp á bakið á honum til að frelsa mömmu mína úr klóm hans. Hann hristi mig af sér eins og fis. Ég hentist út á mitt gólfið og lá þar stjarfur og horfði á Rikka berja mömmu mína til óbóta, yfirbugaður og skelfingu lostinn. Óttinn tók öll völd í líkama mínum þar sem ég lá á gólfinu, steinrunninn og þorði ekki fyrir mitt litla líf að hreyfa svo mikið sem litla fingur. Ég veit það núna að ég var í áfalli og það sem gerðist næst stimplaði sig harkalega inn í líkamsminni mitt.

Ég sá höggin dynja á mömmu minni og sá blóðið spýtast undan hnefum hans þar sem það rann niður andlit hennar, það var eins og ég fyndi fyrir sársaukanum undan hverju höggi sem dundi á andliti hennar. Sektarkennd og varnarleysi gagntók mig. Sektarkennd yfir að standa aðgerðarlaus hjá og varnarleysi vegna þess að ég var svo lítill, svo lítill og kraftlaus.

Mamma átti enga möguleika á að koma sér undan höggum þessa vöðvastælta og sterka ofbeldisfulla manns, svo hún brá á það ráð að reyna að róa hann með blíðmælgi í röddinni:

„Elsku Rikki minn, ekki láta svona, elsku vinur,“ sagði hún og vék sér undan einu bylmingshögginu þannig að hann sló í gegnum gluggann. Brothljóðin, sem heyrðust þegar hann smallaði glerið, sungu í höfðinu á mér.

Andúð á undirgefni mömmu og ótti við miskunnarlausa grimmd Rikka toguðust á innra með mér og fæddi þennan fyrsta vísi að vissu um að dag einn yrði ég stór og þá já þá skyldi enginn, nei enginn fá að niðurlægja mig og mömmu.
Rikki hristi hramminn reiðilega og urraði milli samanbitinna vara á meðan blóðið lak og varð að polli á gólfinu:

„Sjáðu hvað þú hefur gert, tíkin þín.“

Mamma fálmaði eftir viskastykki í skúffu í eldhússkápnum og sagði í undirgefnum bljúgum og biðjandi róm um leið og hún rétti honum það:

„Já Rikki minn, það er alveg rétt hjá þér. En viltu ekki vefja þessu stykki um höndina á þér svo það hætti að blæða úr henni?“

Eitt andartak fann ég vonina kvikna í brjóstinu. Vonina um að Rikki væri í raun góður, hann hefði gert þetta óvart og myndi hætta.

Rikki hlyti að átta sig á hvað hann hafði gert mömmu, já hann hlyti að róast. Já hann myndi hætta að vera reiður. Hann tæki okkur í faðminn og segði:
„Fyrirgefðu”.

Ég lét mig dreyma um að þetta væri allt yfirstaðið að allt myndi falla í ljúfa löð núna eins og gerðist eftir svona barsmíðar. Ég sá hvernig hann vafði viskastykkinu rólega utan um höndina.

En vonin varð að engu þegar hann hafði lokið við að gera að sárum sínum. Hann stökk á fætur staðnæmdist fyrir framan mömmu og horfði á hana með áþreifanlegri  fyrirlitningu svo áþreifanlegri að mér fannst að ég gæti snert hana.

Hann tvinnaði saman blótsyrðum og ásökunum sem hann lét dynja á henni. Mamma stóð þarna niðurlút fyrir framan hann. Skyndilega heyrði ég smell og nefið á henni varð flatt og blóðið tók að fossa úr báðum nösum. Hún riðaði til falls, ég heyrði annan enn þyngri smell og sá mömmu falla aftur fyrir sig í gólfið. Hún lá þarna með lokuð augun, alveg hreyfingarlaus. Ég sat þarna í horninu stjarfur af ótta og skelfingu, ófær um hreyfa legg né lið og spurningin ómaði í huga mér: Er mamma mín dáin?

mbl.is