Áslaug og Ragnar fengu hugljómun á Tenerife

Hjónin Áslaug Torfadóttir og Ragnar Egilsson sigruður hugmyndasamkeppni Storytel 2021.
Hjónin Áslaug Torfadóttir og Ragnar Egilsson sigruður hugmyndasamkeppni Storytel 2021.

Áslaug Torfadóttir og Ragnar Egilsson báru sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni Storytel 2021. Sigurhugmyndin nefnist Skerið og er samstarfsverkefni þeirra hjóna.

„Við vorum á ferðalagi á Tenerife í fyrsta sinn og höfum villst af leið niður þverhníptan fjallaveg ofan í lítinn strandbæ. Við höfðum áhyggjur af því hvernig við ætluðum að koma okkur upp brekkuna á bílaleigudruslunni sem við vorum á og fórum út frá því að pæla hvernig það væri að vera föst þarna. Úr því fæddist þessi ráðgáta um dularfullan bæ sem ráðvilltur íslenskur ferðamaður nær ekki að yfirgefa og ekkert er eins og það sýnist,“ segir Ragnar.  

Skerið er leikin hlaðvarpssería sem vakti forvitni dómnefndar strax við fyrsta lestur. Höfundar flakka með hlustendum í gegnum ógöngur og ævintýri aðalpersónunnar á sólarströndum, þar sem húmor, spenna og dulúð blandast á óvæntan hátt. Hugmyndin er sérstaklega vel útfærð og sterk tilfinning höfunda fyrir miðlinum skín í gegn,“ segir í umsögn dómnefndar um Skerið. 

Dómnefnd Eyrans í ár eru Friðgeir Einarsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Fanney Benjamínsdóttir. 

Þáttaröðin Skerið verður gefin út hjá Storytel á næsta ári og nema verðlaunin 1.000.000 króna í fyrirframgreiðslu höfundalauna vegna verksins. 

„Valið var erfitt í ár enda mikið um bæði frumlegar og spennandi innsendingar frá frábæru hæfileikafólki. Það sem sannfærði okkur um Skerið sem sigurhugmynd var einna helst sú sterka tilfinning sem höfundarnir hafa fyrir hljóðmiðlinum og því sem formið hefur upp á að bjóða“ segir Fanney Benjamínsdóttir framleiðandi hjá Storytel á Íslandi og formaður dómnefndar.  

Á hverju ári stendur Storytel fyrir handritasamkeppninni Eyranu. Í ár var kallað eftir hugmyndum að hlaðvarpsseríum og var ein vinningshugmynd valin úr innsendum tillögum til þess að vinna áfram og gefa út hjá Storytel.

mbl.is