Spennt fyrir ævintýrinu í Ísrael

Elísa Gróa Steinþórsdóttir er Miss Universe Iceland 2021.
Elísa Gróa Steinþórsdóttir er Miss Universe Iceland 2021. Ljósmynd/Aðsend

Langþráður draumur Elísu Gróu Steinþórsdóttur rættist þegar hún vann keppnina Miss Unverse Iceland í september. Elísa er á fullu að undirbúa sig fyrir aðalkeppnina sem fram fer í Ísrael í desember. Þetta er langt því frá fyrsta keppnin sem Elísa tekur þátt i en hún telur að lífsreynslan og sjálfstraustið sem hún hefur öðlast síðustu ár hafi meðal annars fleytt henni langt í keppninni hér heima. 

„Yndisleg tilfinning og augnablik sem mig langar að upplifa aftur,“ segir Elísa þegar hún lýsir því þegar hún var valin Miss Unverse Iceland. Elísa starfar sem flugfreyja hjá Play, er danskennari og förðunarfræðingur. 

„Sviðsframkoma gæti verið minn helsti styrkleiki. Ég er vön að koma fram á sviði, nokkuð sem ég hef gert frá því ég var pínulítil og verð yfirleitt ekki stressuð þó að það sé fullur salur af áhorfendum. Við skulum samt sjá til því það eru 500 milljónir sem horfa á þessa keppni á hverju ári,“ segir Elísa þegar hún er spurð hver hennar helsti styrkleiki sé í lokakeppninni.

Elísa Gróa upplifði langþráðan draum þegar hún var krýnd Miss …
Elísa Gróa upplifði langþráðan draum þegar hún var krýnd Miss Universe Iceland í september. Ljósmynd/Aðsend

Búið að strika fegurðina út úr enska orðinu

Er bara verið að dæma út frá fegurð?

„Það er ekki verið að dæma út frá fegurð í dag enda er búið að strika yfir „beauty“ í enska orðinu. Núna heita þetta bara „pageants“ eða keppnir. Þess vegna á orðið fegurðarsamkeppni ekki beint við í dag.

Mér finnst ágætt að taka sjálfa mig sem dæmi. Ég keppti fyrst um Miss Universe Iceland-titilinn árið 2016 og lenti í fjórða sæti. Ég get fullyrt það að í dag er ég ekki fallegri en ég var þá, ég er ekki grennri og vissulega ekki hærri. Margir spyrja sig þá: „Nú hvernig í ósköpunum vannstu þá þetta árið?“ Það er örugglega ekki eitthvert eitt svar en ég myndi segja til dæmis aukið sjálfstraust, lífsreynsla, betri í almennum samskiptum og ræðumennsku, meiri vitneskja um það sem er að gerast í heiminum og ákveðin skilaboð sem mig langar til að koma á framfæri.“

Elísa Gróa verður glæsilegur fulltrúi Íslands í Ísreal.
Elísa Gróa verður glæsilegur fulltrúi Íslands í Ísreal. Ljósmynd/Aðsend

Elísa segist alltaf vera dugleg að æfa en sé ekki á sérstöku fegurðardrottningamataræði enda það úrelt eins og svo margt annað í þessum bransa. 

„Ég æfi mikið yfirhöfuð hvort sem ég er að keppa eða ekki. Ég er algjörlega ekki í þessu gamla „fegurðardrottningaformi“ sem var vaninn fyrir mörgum árum enda er enginn að vigta mig eða segja mér að æfa meira eða borða minna. Mig langar aðallega að vera hraust og góð fyrirmynd uppi á sviði og líða vel. Það er það eina sem skiptir máli.“

Nýkomin heim frá Bandaríkjunum

Lokakeppni Miss Universe fer fram sunnudaginn 12. desember. Elísa hefur tekið þátt í mörgum keppnum, hún lýsir hins vegar Miss Universe sem ólympíuleikunum eða Ofurskálinni ef fólk horfir á amerískan fótbolta. 

Elísa er nýkomin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún dvaldi í mánuð. „Ég var að koma heim frá Bandaríkjunum en þar var ég í mánuð í undirbúningi fyrir keppnina. Ég heimsótti sex ríki og fór til dæmis í myndatökur, mætti á viðburði sem tengjast góðgerðarmálum, gekk í tískusýningu og valdi fullt af kjólum og fatnaði sem ég tek með mér til Ísraels. Ég er í fullu starfi sem flugfreyja en sem betur fer vinn ég hjá æðislegu flugfélagi sem gaf mér frí. Starfsfólk Play hefur sýnt mér svo mikinn stuðning í þessu ferli og ég er mjög þakklát.“

Elísa Gróa valdi meðal annars kjóla þegar hún fór til …
Elísa Gróa valdi meðal annars kjóla þegar hún fór til Bandaríkjanna. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerir þú til að hafa gaman? 

„Helstu áhugamálin mín eru að ferðast, förðun og dans. Ég er svo heppin að fá að vinna við allt þetta. Í frítíma mínum finnst mér gaman að heimsækja nýja staði, fara í zumbatíma og eyða tíma með fjölskyldu og vinum.“

Er kominn tími á nýja íslenska alheimsfegurðardrottningu?

„Ísland hefur aldrei unnið Miss Universe-keppnina þannig að það væri auðvitað gaman. Ég veit allavega að ég ætla að njóta augnabliksins og er mjög spennt fyrir þessu ævintýri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál