„Þegar ég dey þá lifi ég samt á Spotify“

Íris Kristinsdóttir var ein vinsælasta söngkona landsins um síðustu aldamót.
Íris Kristinsdóttir var ein vinsælasta söngkona landsins um síðustu aldamót. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íris Kristinsdóttir ætti að vera landsmönnum kunnug. Að minnsta kosti þeim sem orðnir voru stálpaðir einstaklingar um síðustu aldamót. Íris hefur oft verið kennd við hljómsveitina Buttercup, sem var ein sú allra vinsælasta á þeim tíma, þar sem hún söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar. Íris er titluð sem tónlistarmaður í símaskránni á Já.is en í dag segist hún vera óvirkur tónlistarmaður sem aðallega sinnir hlutverkunum móðir og eiginkona. Þá hefur Íris starfað hjá Icelandair síðastliðin sex ár og líkar henni vel við starf sitt þar.   

„Ég held ég verði samt alltaf tónlistarkona, bara mis virk. Óvirkur tónlistarmaður, ætli það sé ekki besti titillinn núna bara,“ segir Íris. „Ég starfa hjá Icelandair í deild sem heitir „technical data and systems“. Mjög svo skemmtileg vinna og yndislegt fólk sem ég vinn með. Svo er það mikill plús að ég elska flugvélar, þannig ég vona að ég fái að vinna þarna eins lengi og ég má.“

Buttercup ævintýrið

Lítið hefur farið fyrir Írisi undanfarin ár en um síðustu aldamót var hún áberandi í tónlistarlífinu og mikið í sviðsljósinu. Lög á borð við Aldrei og Endalausar nætur með hljómsveit hennar Buttercup hljómuðu á öllum útvarpsstöðvum og skaust Íris upp á stjörnuhimininn á ógnarhraða. Ekki skemmdi ástarsamband hennar við Val Heiðar Sævarsson fyrir en þau tvö voru aðal söngvarar Buttercup á þeim tíma.

Hvers vegna sagðir þú skilið við hljómsveitina Buttercup?

„Það er kannski ekki eitt svar við því, tónlistarfólk getur verið miklar tilfinningaverur. Eins og fullt af fólki reyndar. Svo hættum við Valur saman og ég fór að vera með trommuleikara hljómsveitarinnar en það á endanum gekk ekki upp þannig það var of erfitt fyrir alla að starfa saman. Þá ákvað ég að draga mig í hlé. Í raun var það byrjunin á endanum hjá mér. Ég hafði keyrt mig svo út í tæp fimm ár og hætt að njóta þess eins vel að koma fram og ég gerði í upphafi. Ég var korter í kulnun. Ekki bætti úr skák að mér fannst ég hafa brugðist með þessu skoti í myrkri, en ég er ekki týpan til að velta mér uppúr fortíðinni, svona var þetta bara,“ segir Íris og vill koma því á framfæri að öll séu þau vinir í dag.

Ekki sjálfgefið að fá að upplifa drauminn

Íris segist hafa róast töluvert með árunum, hún sé ekki jafnmikið fiðrildi og á árum áður. Hefur hún fest rætur sínar í Grindavík ásamt eiginmanni sínum og börnum og fyrir það er hún afar þakklát. Þegar Íris var lítil stelpa átti hún sér alltaf þann draum um að verða söng- og leikkona. Af því lét hún verða og fékk smjörþefinn af því hvernig það er að vera þekkt á Íslandi. Þegar Íris er spurð hvort hún finni fyrir söknuði til gullnu áranna sem söngkona segir hún svo ekki vera.

„Ég finn ekki fyrir söknuði en ég finn fyrir miklu þakklæti. Það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri til að upplifa drauma sína og kynnast svona mörgu góðu fólki. Og það er heldur ekki sjálfgefið að geta haft áhrif á fólk, sem ég vonandi gerði,“ segir Íris. 

Íris segist vera hætt að syngja, í bili að minnsta …
Íris segist vera hætt að syngja, í bili að minnsta kosti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færðu nostalgíu kast þegar þú heyrir lög með Buttercup spiluð í dag?

„Mér þykir ofur vænt um að heyra lögin okkar spiluð. Eða, alla vega þegar ég er ein,“ segir Íris og hlær. „Mér hefur alltaf liðið hálf kjánalega að hlusta á sjálfa mig í kringum aðra. Ætli það sé ekki svona mitt „guilty pleasure“ eins og maður segir, að ég hafi hlustað ein á sjálfa mig. Það var alltaf svo mikil spenna að heyra lögin spiluð eftir að við tókum þau upp og heyra hvernig þau hljómuðu í útvarpinu. Það er eitthvað svo fallegt að fá að vera hluti að menningarsögu þjóðarinnar og vita til þess að þegar ég dey að þá lifi ég samt ennþá á Spotify,“ segir Íris og brosir. 

Íris segist vera alveg hætt að koma fram á tónleikum og syngja. Það sé þó ein undantekning og það eru Aldamótatónleikarnir sem hlotið hafa ómældra vinsælda. 

„Ég er hætt að syngja - í bili alla vega. En ég tek alltaf þátt í Aldamótatónleikunum, það er það eina sem ég tek þátt í núna. Það er náttúrulega bara sturlað að taka þátt í þeim. Ég þurfti bara aðeins að taka til hjá sjálfri mér og minnka álagið. Ég tók út allt það sem hefur valdið mér kvíða en ég hef alla tíð verið haldin sviðskrekk og kvíða tengdum því, svo ég tók þessa ákvörðun til að lenda ekki í algjöru hruni með sjálfa mig. Vonandi verð ég einhvern tímann nógu sterk til að gera meira en ég geri akkúrat núna. Núna dugir mér að syngja í bílnum og ég er aðeins farin að æfa mig meira á píanóið en ég geri það aðeins fyrir sjálfa mig.“

Írisi þykir vænt um að hafa fengið tækifæri til að …
Írisi þykir vænt um að hafa fengið tækifæri til að vera hluti af menningarsögu Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil sorg síðustu ár

Síðastliðin ár hefur mikið gengið á í lífi Írisar. Alvarleg veikindi og andlát foreldra hennar hafa litað lífið dökkum litum en hún lagði allt sitt kapp á annast foreldra sína á meðan veikindin dundu yfir þá. Það reynir mikið á aðstandendur sem eru í hlutverki umönnunaraðila en það hlutverk hefur víðtæk áhrif í för með sér. Íris segir mikla sorg hafa verið í hjarta sínu síðustu ár en hún segist jafnframt vera að styrkjast og læra að lifa með sorginni.

„Það hefur litað líf mitt svolítið núna að ég er að jafna mig eftir mikinn missi. Ég hef misst þrjár mikilvægar manneskjur úr lífi mínu á síðustu níu árum. Pabbi minn og uppeldispabbi létust báðir úr krabbameini og í kjölfarið greindist mamma með heilabilunarsjúkdóminn Alzheimer. Hún dó svo fyrir tveimur árum. Sorgin heltók mig algerlega um stund. Það tók mikið á mig að annast þau í veikindunum og missa þau svo öll á besta aldri. Það er alveg sama hversu gamall maður er þegar maður missir foreldri, það er alltaf jafn erfitt. Það tekur langan tíma að jafna sig á sorginni og læra að lifa lífinu án þeirra. En þetta er allt á uppleið,“ segir Íris og mikill styrkleiki einkennir orð hennar.   

Ef þú horfir til ársins 2000, hefðirðu getað séð sjálfa þig fyrir þér á þeim stað sem þú ert í dag?

„Nei, alls ekki. Ég var alveg búin að ákveða að þetta væri það sem ég myndi gera til æviloka, að syngja og koma fram,“ segir Íris og hlær. „Ég elskaði svo mikið að koma fram á þessum árum og hefði aldrei getað ímyndað mér að ég ætti eftir að hætta í þessum bransa. En það er það skemmtilega við lífið, við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Því er svo mikilvægt að lifa bara núna, hverja stund fyrir sig. Ég hef svolítið verið að tileinka mér það,“ segir Íris að lokum.

Síðustu ár hafa reynst Írisi þungbær en hún reynir að …
Síðustu ár hafa reynst Írisi þungbær en hún reynir að horfa björtum augum fram á við. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is