Þessi fallegi staður á sér myrka sögu

Rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen sendi nýlega frá sér skáldsöguna Hælið, en það er fyrsta prentaða bók sem Storytel á Íslandi gefur út og hún fæst á flestöllum sölustöðum bóka. Sagan hefur fengið frábærar viðtökur gagnrýnenda og lesenda, enda vekur hún áhuga breiðs hóps og ætti því að henta vel í marga jólapakka, sérstaklega fyrir spennufíkla, áhugafólk um dulræn öfl og fólk sem vill láta hræða sig eilítið í skammdeginu milli jóla og nýárs.

„Hælið er það sem ég vil kalla söguleg hrollvekja,“ segir Emil Hjörvar. „Sagan fjallar um venjulegt fólk í samtímanum sem flækist inn í reimleika og afar undarlega atburði sem tengjast gamla Kópavogshælinu.“

Hælið er hrollvekjandi og listilega fléttuð skáldsaga sem hrífur lesandann með sér á óhugnanlegt flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við sögu.

„Gamalt hæli, berklar, holdsveiki, aftökur og dauði. Efnið kallaði á, eða grátbað mig um að verða að efni í hrollvekju. Þessi fallegi staður, við botn vogsins, og þessi fallega bygging, á sér myrka sögu og henni fáið þið að kynnast í Hælinu.“

Emil Hjörvar Petersen sýnir enn á ný að hann er sannkallaður sagnameistari á sviði hins dulræna í íslenskum skáldskap, en hann er lesendum að góðu kunnur meðal annars fyrir hrollvekjuna Ó, Karítas, sem kom einnig út undir merkjum Storytel Original, og verðlaunabókina Víghóla.

mbl.is