Fengið ósmekklegar athugasemdir um búningana

Skoppa og Skrítla í Borgarleikhúsin
Skoppa og Skrítla í Borgarleikhúsin Árni Sæberg

Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir, einnig þekktar sem Skoppa og Skrítla, eru nýjustu gestir Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu. Þær fóru yfir farsælan átján ára feril Skoppu og Skrítlu í þættinum. 

Skoppa og Skrítla hafa skrifað sig inn í hug og hjörtu ungra sem aldna í nær tvo áratugi. Skoppa og Skrítla sem Hrefna og Linda vilja meina að séu furðuverur án pólitískrar afstöðu og nánast kynlausar urðu til sem afþreyingarefni fyrir tveggja ára son Hrefnu fyrir átján árum síðan.

„Þetta var vissulega tilraun og hún spratt út frá því að við ætluðum að gera þetta myndband, bjuggum til persónur fyrir þetta myndband. Þetta átti að vera fyrir drenginn minn sem þá var að verða tveggja ára og hann var sólginn í allt sem gat frætt hann og kætt hann,“ segir Hrefna.

Þeim Hrefnu og Lindu fannst vanta íslenskt barnaefni fyrir yngsta hópinn svo úr var að þær hófu farsælan feril sinn í gervi Skoppu og Skrítlu með aðeins eitt að leiðarljósi, að færa birtu og jákvæðni inn í huga og hjörtu áhorfanda.

Yfir tvö hundruð sjónvarpsþáttum síðar standa þær á tímamótum. Eftir átján ár hafa þær tekið ákvörðun að stíga úr gervi Skoppu og Skrítlu og munu fyrir vikið skilja eftir sig stórt holrúm sem þær vonast svo innilega til að einhver stígi inn í og fylli.

„Ég held klárlega að við séum búin að sýna fram á það að leikhús fyrir ungbörn er bara vel gerlegt,“ segja þær Hrefna og Linda fullar von um aukið íslenskt efni fyrir yngstu börnin.

Gunnar, annar stjórnandi hlaðvarpsins, bar hikandi upp spurningu úr sal frá Ívari gröfumanni, hlustanda Þvottahússins, sem hljóðaði svo: „Hafa búningar Skoppu og Skrítlu verið á einhverjum tímapunkti notaðir í annarlegum tilgangi?“

Þær hlógu einfaldlega að spurningu Ívars. Í gegnum tíðina hafa þær oft fengið spurninguna sem og allskonar ósmekklegar athugasemdir og vangaveltur karlmanna á djamminu tengdar búningum þeirra og karakter, hvað olli þessum hvötum vita þær ekki. 

Börn þeirra Hrefnu og Lindu hafa verið innblástur þeirra fyrir Skoppu og Skrítlu. Nú eru börn þeirra beggja orðin að unglingum og þær segjast vera tilbúnar að segja skilið við þessi hlutverk sem þær eru svo þakklátar að hafa fengið að skapa.

„Þetta er gríðarlega ábyrgðarfullt starf að gefa hjarta sitt í að ala upp kynslóðir af börnum, það er það og vonandi að enginn leggi í það nema að gera það af fullum hug og hreinu hjarta,“ segir Hrefna.

Gunnar skaut því að þeim hvort við tæki tíu ára tilvistarkreppa sem myndi svo enda með að þær snéru aftur sem Skoppa og Skrítla og þá í kjölfar mögulegra barnabarna. Þessu gátu þær ekki svarað en sögðust alls ekki útiloka neitt. Sérstaklega í ljósi þess að ferlið í heild sinni hafi alltaf verið í lífrænum vexti. Nánast eins og tilviljun þó samtímis skrifað í stjörnurnar.

Í lok viðtals þökkuðu þær snortnar fyrir sig og lýstu yfir ómældu þakklæti til allra sem hafa fylgt þeim í gegnum árin. Skoppa og Skrítla munu lifa áfram en hlutverki Hrefnu og Lindu er hér með að mestu lokið og því halda þær á ný mið innan leiklistar og sköpunar.

„Vá, vá, ég veit ekki einu sinni hvernig ég get þakkað fyrir að hafa verið leidd þennan veg. Því það einhvern veginn í gegnum allt þetta, öll þessi skrif að það gerist allt svo átómatískt. Ég get ekkert skýrt það,“ segir Hrefna djúpt snortin.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál