Vitaliya Lazareva segir frá ofbeldissambandi við kvæntan mann

Vitaliya Lazareva er gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum, Eigin konur.
Vitaliya Lazareva er gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum, Eigin konur. Ljósmynd/Skjáskot Eigin konur

Vitaliya Lazareva, 24 ára kona, lýsir því hvernig hópur manna hafi brotið kynferðislega á henni í heitum potti við sumarbústað í október árið 2020. Á þeim tíma var hún í ástarsambandi með 48 ára gömlum kvæntum manni. Vitaliya opnaði sig í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpsþáttunum Eigin Konur. 

Vitaliya segist hafa kynnst manninum á líkamsræktarstöð þegar hún var í einkaþjálfun hjá honum. Eftir nokkurra vikna kynni býður maðurinn henni að koma í sumarbústað til hans og vina hans. Hún segist ekki hafa þekkt mennina vel. 

„Ég mæti þarna og það eru allir búnir að vera bara í góðum málum, vinir saman, sumarbústaður og allt í rólegheitunum. Einstaklingurinn sem ég er að mæta fyrir, hann er fyrstur til að afklæða sig og hann fer ber ofan í pottinn,“ segir Vitaliya. Hún segir að sér hafi fundist það óþægilegt og beðið vini hans um að biðja hann um að fara aftur í fötin. 

Að hennar sögn var hann töluverða stund einn, nakinn í heita pottinum.

„Svo er ákveðið að við förum öll saman í pottinn. Ég segi líka förum öll saman í pottinn. Ég á alveg vini sem ég hef farið með í pottinn og þá er ekkert verið að gera neitt svona,“ segir Vitaliya.

Hún segir að andrúmsloftið hafi breyst á stuttum tíma. Áður en hún vissi af hafi þeir allir byrjað að snerta hana og þukla á henni. Hún segir þá hafa farið yfir mörkin og yfir mörk allra sem voru saman í pottinum. 

„Það sem gerist er að hann fer upp úr pottinum fyrst. Honum er bara ofboðið og hann fer,“ segir Vitaliya. Í kjölfarið fer hún upp úr pottinum og ræðir við hann. Hún segir hann ekki hafa sagt neitt við vini sína og álasað henni fyrir að hafa ekki sagt neitt við þá þegar þeir fóru að snerta hana. 

„Svo koma allir hinir upp úr pottinum. Partíið heldur áfram. Fleiri hlutir gerast og þá er ekki sagt neitt. Á einhverjum tímapunkti sofna allir,“ segir Vitaliya. Daginn eftir fær maðurinn far með henni heim.

Hún segist hafa rætt við alla mennina í síma um hvað gerðist. Þá segir hún einnig að hún hafi greint þeim frá því að hún ætlaði að leita réttar síns. „Ég sagði þeim það og þeir leituðu aldrei aftur til mín,“ segir Vitaliya.

Seinna í viðtalinu lýsir Vitaliya því þegar hún fór með manninum í golfferð. Í ferðinni hafi annar karlmaður brotið á henni. 

Í golfferðinni segist hún hafa þurft að fara huldu höfði og fara inn bakdyramegin svo enginn sæi hana.

„Það er labbað inn á okkur í þessari golfferð,“ segir hún og nefnir að dagskrá ferðarinnar hafi haldið út daginn. 

„Síðan er bara komið að því að það á bara að fara finna út úr því hvernig á að ná þögninni,“ segir Vitaliya. Hún segir hann hafa sent manninum sem kom að þeim skilaboð og hálfri mínútu seinna hafi hann verið kominn inn á herbergi til þeirra.

„Þá er í raun bara verið að selja mig út, eins og ég sé vændiskona,“ segir hún. „Það er bara boðið þessum einstakling sem labbar inn á okkur að snerta mig óviðeigandi. Að við séum öll ber saman. Hann dregur spil úr einhverju kynferðisleikjaspili, einhverja svona mönnum sem á að gera, og þá á ég bara að fara sjúga typpið á manninum. Og hann að fara niður á mig. Og þetta er gert svo að hann haldi þögninni,“ segir Vitaliya.

„Ég horfi framan í hann þegar vinur hans er að fara niður á mig og ég á að fara niður á hann, ég horfi framan í augunum á honum og ég er við það að grenja,“ segir Vitaliya.

Vitaliya segir að hún og maðurinn hafi verið í ástarsambandi í um sextán mánuði. Á þeim tíma hafi hann beitt hana andlegu ofbeldi og reynt að stjórna lífi hennar, þrátt fyrir að hann væri kvæntur annarri konu. Hann bað hana að ljúga fyrir sig og lýsir Vitaliya því hvernig hún hafi gert allt sem hann bað hana um því hún væri svo ástfangin af honum.

Vitaliya segir að þegar fólk spyrji hana hvort hún ætli að leita réttar síns vegna þess sem gerðist í sumarbústaðnum segist hún ekki ætla að kæra manninn sem hún var í ástarsambandi með.

„Af hverju ætti ég að kæra hann. Hann var eini sem mátti vera með mér. Ég vildi vera með honum. Ég vildi ekki vera með þér, þér eða þér,“ segir Vitaliya. Hún segir vera til myndband af einum manninum þar sem hann segist vera spenntur fyrir því að fá hana í bústaðinn.

Vitaliya segir að undir lok sambandsins hafi þau bara átt hvort annað að. Hún hafi eldað fyrir hann, þvegið þvottinn hans og gert allt fyrir hann. Þau eru ekki lengur saman í dag. Í dag er hún komin með lögfræðing vegna atviksins í sumarbústaðnum. Hún segir manninn hafa hótað sér eftir að þau hættu saman í lok desember og segir að hann geti ekki lengur verið vitni. Án hans sé ekkert mál.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Edda Falak stýrir hlaðvarpsþættinum Eigin konur.
Edda Falak stýrir hlaðvarpsþættinum Eigin konur. mbl.is/Hallur Már
mbl.is