„Krafturinn í manninum mínum heldur mér ungri“

Brynja Nordquist hætti að vinna sem flugfreyja þegar hún var …
Brynja Nordquist hætti að vinna sem flugfreyja þegar hún var 65 ára. Núna tekur hún eina og eina vakt í GK Reykjavík því það er svo gaman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynja Nordquist starfaði sem flugfreyja og fyrirsæta sinn starfsferil. Þegar hún varð 65 ára ákvað hún að hætta að vinna hjá Icelandair og einbeita sér að því að njóta lífsins á meðan hún hefði heilsu í það. Hún er virk á Instagram og segir að það skipti mestu máli að elska og vera elskaður. 

Ég ákvað að hætta að vinna 65 ára í stað 67 þegar mér fannst kominn tími á að njóta lífsins meðan ég væri ennþá glöð, hress og kát. Ég hef líklega sjaldan verið betri,“ segir Brynja.

Gerðir þú lista yfir það sem þú ætlaðir að gera á hverjum degi þegar þú hættir að vinna?

„Nei, ég gerði ekki neinn lista. Ég hef alltaf nóg fyrir stafni og einhvern veginn fyllist hver dagur af skemmtilegum uppákomum,“ segir Brynja og bætir við:

„Ég er farin að ganga meira en áður og er í keppni við sjálfa mig með því að telja kílómetrana í símanum. Markmiðið er að fara hraðar en snigillinn,“ segir Brynja og hlær.

Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Brynja Nordquist, Þórhallur Gunnarsson og Gunnur Þórhallsdóttir. Myndin …
Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Brynja Nordquist, Þórhallur Gunnarsson og Gunnur Þórhallsdóttir. Myndin var tekin í 40 ára afmæli Þórhalls 2003. mbl.is/Jón Svavarsson

Hvernig ræktar þú þig?

„Á sumrin erum við ansi dugleg í sumarbústaðnum og svo spilaði ég golf en lagði skóna á hilluna eftir ömurlegan golfhring á Tenerife um jólin. Ég er annað slagið að vinna hjá henni Svövu Johansen vinkonu minni í GK Reykjavík og finnst það ansi skemmtilegt, sérstaklega þegar mikið er að gera,“ segir Brynja.

Finnur þú fyrir því að þú ert að eldast?

„Ég finn stundum fyrir því að ég er að eldast. Ég er auðvitað aðeins hægari en áður og sé það best þegar sonur minn er að herma eftir mér,“ segir Brynja og skellir upp úr.

Hvað gerirðu til að vera ung í anda?

„Ætli það hjálpi mér ekki best að mér finnst gaman að vera í kringum skemmtilegt fólk. Krafturinn í manninum mínum heldur mér ungri þótt hann geti líka oft gert mig gráhærða. Ég er náttúrlega amma Olivers sem hefur gert mig að bílstjóra sínum og sérlegum einkaþjóni. Svo hef ég gerst auka-amma litlu bræðra Olivers, sæki þá í leikskólann og passa annað slagið. Ég er búin að ættleiða tvær kisur i hverfinu sem eru komnar á hurðarhúninn á morgnana að heimta mat og með því,“ segir Brynja en hún er gift Þórhalli Gunnarssyni sem er um áratug yngri en hún.

Hér er Brynja Nordquist að sýna íslenskar ullarvörur í Stokkhólmi …
Hér er Brynja Nordquist að sýna íslenskar ullarvörur í Stokkhólmi 1981. Myndasafn mbl.is

Uppáhaldsilmvatnið?

„Það er Flower Bomb frá Viktor&Rolf sem ég hef notað í mörg ár. Ég er mjög vanaföst á allt sem viðkemur ilmum og snyrtivörum.“

Uppáhaldssnjallforritið þitt?

„Ég nota mest Instagram og finnst gaman að taka myndir og segja frá einhverju hversdagslegu. Ég er örugglega að gera út af við marga í kringum mig með öllum þessum póstum mínum.“

Til hvaða lands ferðaðist þú síðast?

„Í nóvember fórum við til Stokkhólms að hitta barnabörnin og til Tenerife í tvær vikur um jólin sem var frábært. Maðurinn minn spilaði golf á hverjum degi meðan ég fór í göngutúra. Það er góð tilfinning að komast í stutta stund frá vetrinum hér heima og upplifa blómstrandi blóm og gróður í umhverfinu.“

Borðar þú morgunmat?

„Ég borða sjaldan morgunmat en fæ mér stundum ketóbollur og ost.“

Hvað gefur lífinu gildi?

„Þegar þú spyrð hvað gefi lífinu gildi þá gæti ég komið með nýtt svar á hverjum degi. Núna finnst mér góð vinátta mikilvægust og umgengni við fólk sem gerir mann að betri manneskju. Oftast er ég glöð og full tilhlökkunar þótt maður geti annað slagið látið neikvæða umræðu hafa áhrif á sig. Það er oftast í stutta stund því barnslega bjartsýnin er fljót að taka yfir.“

Uppáhaldshönnuður?

„Ég á marga uppáhaldshönnuði en er núna mest heilluð af þægilegum jogging-fatnaði, samfestingum og drögtum. Þessa stundina finn ég alltaf eitthvað sem mig langar í hjá GK Reykjavík enda vinn ég þar nokkrum sinnum í viku.“

Besta heilsuráð allra tíma?

„Besta heilsuráðið fyrir mig var að hætta að drekka áfengi. Ég veit ekki hvort það hefur beint áhrif á útlit en andlega heilsan verður langtum betri. Það sem er mikilvægast af öllu er að elska og vera elskaður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál