Brotist inn í bíl Dorritar – Samson öruggur á Íslandi

Brotist var inn í bíl Dorritar Moussaieff í gær. Ekkert …
Brotist var inn í bíl Dorritar Moussaieff í gær. Ekkert verðmætt var í bílnum að sögn Dorritar. Samsett mynd

Óprúttnir aðilar brutu glugga í bíl Dorritar Moussaieff, fyrrverandi forsetafrúr Íslands, í Lundúnum í gær og stálu úr honum snyrtiveski með gömlum snyrtivörum. Dorrit segir glæpatíðnina í Lundúnum vera gríðarlega háa og að svona glæpir séu framdir um alla borg oft á dag. 

„Ég skildi meira að segja bílinn eftir opinn, því ég vil ekki að það sé brotist inn hann. Og ég skil aldrei nein verðmæti eftir í bílnum mínum af sömu ástæðu,“ segir Dorrit þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar í Lundúnum. Það eina verðmæta í bílnum að mati Dorritar var flaska af íslensku vatni, en þjófarnir vildu hana ekki.

„Það var í raun það eina í bílnum sem ég þurfti fyrir kvöldið,“ segir Dorrit.

Dorrit birti mynd af bílnum í gær, en hún segir að hún hafi smellt af eftir að hún hafi tekið mesta glerið í burtu. Bílnum lagði hún fyrir utan Beaumont hotel Mayfair þar sem hún snæddi kvöldverð.

„Þetta er alltaf að gerast hérna í borginni. Fólk er stungið til bana úti á götu, rænt um hábjartan dag. Ég get ekki beðið eftir að koma aftur heim til Íslands þegar ég er búin að sinna vinnunni minni hér,“ segir Dorrit sem vonast til þess að koma aftur hingað á mánudag. 

Hún segist ekki ætla að tilkynna brotið til lögreglu, hún hafi betra við tíma sinn að gera en að eyða fjórum klukkustundum í að fylla út pappíra. „Flestir svona glæpir eru ekki einu sinni tilkynntir til lögreglu, því er raunveruleg glæpatíðni í borginni miklu hærri. Þetta er alveg hræðilegt, og svo geta hundar stigið í glerbrotin á götunni,“ segir Dorrit. 

Þegar talið barst að hundum var eðlilegast að spyrja út í hundinn Samson, sem er augasteinn Dorritar. „Hann er öruggur heima á Íslandi, hann sofnaði með Ólafi heima í gær. Ég get ekki beðið eftir að komast aftur heim til þeirra á Íslandi,“ segir Dorrit. 

Dorrit hlakkar til að komast heim til Íslands að hitta …
Dorrit hlakkar til að komast heim til Íslands að hitta Samson sinn. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is