Eiginmaðurinn bakaði fermingartertuna

mbl.is/Hulda Margrét Óladóttir

Elma Björk Bjartmarsdóttir og Tristan Máni Orrason eru ánægð með fermingardag Tristans sem var í lok maí á síðasta ári. Þó veislan hafi verið lítil þá skemmtu allir sér vel eins og ljósmyndir af fjölskyldunni á fermingardaginn sýna. 

Elma Björk Bjartmarsdóttir, markaðsfræðingur, er á skemmtilegum stað í lífinu. Hún sagði nýverið upp starfi sínu sem viðskiptastjóri hjá Regin fasteignafélagi og er að leita sér að markaðsstarfi við hæfi. Hún er gift Orra Péturssyni og saman eiga þau þrjú börn, fermingardrenginn Tristan Mána sem er að verða fimmtán ára, Söru Mist tíu ára og Styrmi Orra átta ára. Fjölskyldan býr í Kópavogi ásamt Birtu sem er fimm mánaða Coton de Tulear-hvolpur.

Tristan var fermdur í Digraneskirkju 30. maí í fyrra.

„Upphaflega átti hann að fermast 1. apríl en vegna hertra samkomutakmarkana þá var þeim fermingum frestað með mjög stuttum fyrirvara. Við höfðum planað að fara í Bláa lónið þann dag og svo út að borða um kvöldið og geyma veisluna fram á sumar. Þegar ákveðið var að klára þessar fermingar 30. maí þá voru rýmri takmarkanir svo við ákváðum að klára veisluna líka og miða við þann fjölda sem mátti hafa, það var leið sem við völdum því það hefði getað orðið mjög langt í veisluna.“

mbl.is/Hulda Margrét Óladóttir

Ómetanlegt að eiga fallegar myndir

Elma er á því að fermingarmyndirnar og ljósmyndarinn sem tekur þær skipti miklu máli á stóra degi barnsins.

„Það er ómetanlegt að eiga fallegar myndir af fermingarbarninu. Hulda Margrét ljósmyndari tók myndirnar fyrir okkur.

Hún hefur svo þægilega nærveru að henni tókst að ná því besta fram hjá okkur öllum í fjölskyldunni. Við fengum æðislega bók með myndunum, sem er uppi í hillu og mikið skoðuð.“

Eins og sést á myndunum var Tristan í fallegum svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með svart bindi frá Gallerí 17.

„Draumurinn hans var svo að fá hvíta Nike Air Force-skó með svörtu Nike-merki svo þeir voru sérpantaðir að utan.“

Hvernig var veislan?

„Við héldum litla veislu sem passaði fyrir þær samkomutakmarkanir sem voru í gildi á þessum tíma. Við höfðum bara okkar nánustu fjölskyldu, við hefðum viljað hafa fleira af fólkinu okkar en aðstæður í þetta skiptið buðu ekki upp á það. Aðdragandinn var stuttur svo það þurfti að hafa hraðar hendur en allt gekk upp hjá okkur og var fermingarbarnið alsælt með daginn.“

Tristan hafði miklar skoðanir á því hvernig mat hann vildi vera með og var draumur hans að vera með smárétti.

„Við pöntuðum því æðislegt smáréttahlaðborð frá Múlakaffi, með öllum uppáhaldsréttunum hans. Svo leigðum við æðislega smáréttastanda eftir byMulti sem gerði svo ótrúlega mikið fyrir veisluborðið.

Orri maðurinn minn er sjómaður en lærður bakari svo hann dustaði rykið af gömlum töktum og töfraði fram æðislega Oreo-fermingartertu í anda Tristans sem var bæði falleg og bragðgóð.

Hann bakaði svo líka uppáhaldstertur fermingarbarnsins svo við vorum einnig með kökuhlaðborð sem innihélt meðal annars franska súkkulaðiköku og marengstertu. Eftir það var boðið upp á nammibar, með alls konar nammi og poppi sem sló rækilega í gegn.“

mbl.is/Hulda Margrét Óladóttir

Sjálf var Elma einstaklega glæsileg á fermingardag Tristans.

„Ég treysti alltaf á mína konu Andreu Magnúsdóttur og fór til hennar í AndreabyAndrea og keypti mér æðislegan kjól sem hefur haft mikið notagildi síðan. Ég var svo í ljósum skóm við og leðurjakka sem ég keypti hjá Andreu.“

Fannst mjög gaman að fermast

Veislan var látlaus og falleg vegna aðstæðna í samfélaginu í fyrra. Faðir Elmu er tónlistamaðurinn Bjartmar Guðlaugsson og er því mikil tónlist í fjölskyldunni og ef allt hefði verið eins og vanalega, hefði fjölskyldan verið með áhugaverð tónlistar- og skemmtiatriði.

„Það var mjög gaman að fermast, í raun miklu skemmtilegra en ég átti von á. Mér fannst mjög gaman að fá alla gestina, sem mættu bara til að halda upp á daginn með mér,“ segir Tristan sem þótti hvað mikilvægast að vita hverju hann var að gangast við með fermingunni.

Hvað var það flottasta sem þú fékkst í fermingargjöf?

„Ég fékk ferð í fótboltabúðir frá mömmu og pabba og systkinum mínum. Mér fannst það skemmtilegasta gjöfin, en ég fer í ferðina í sumar.“

Tristan segir mikilvægt að þeir sem eru að fermast á þessu ári njóti dagsins, því hann klárast allt of hratt að hans mati.

„Svo get ég mælt með því að halda ræðu, maður sér eftir því að gera það ekki, seinna meir.“

Þegar kemur að framtíðinni þá óskar Tristan sér þess að komst í atvinnumennsku í fótbolta en hann hefur unnið að því síðan hann var átta ára. Þó veislan hafi verið minni en áætlað var í upphafi þá var Tristan mjög ánægður með hana.

„Veislan var mjög flott og var ég mjög ánægður með þá gesti sem ég gat boðið í hana.“

mbl.is/Hulda Margrét Óladóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál