Óþægilegt að heyra sögur sem eru bull og lygar

Saga B er á leiðinni til Ítalíu í lok apríl …
Saga B er á leiðinni til Ítalíu í lok apríl til þess að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Ljósmynd/Arnór Trausti Kristínarson

Tónlistarkonan og fegurðardrottningin Berglind Saga Bjarnadóttir, betur þekkt sem Saga B keppir í Miss Europe Continental á Ítalíu í lok apríl. Þetta er í fyrsta skipti sem Saga tekur þátt í fegurðarsamkeppni en Saga hefur á undanförnum árum vakið mikla athyli fyrir tónlist sína og framkomu á samfélagmiðlum.

Útsendari frá keppninni hafði samband við Sögu og bauð henni að taka þátt. Henni var fyrst boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppni fyrir tveimur árum. „Þetta var þriðja keppnin sem bauð mér að taka þátt. Það var líka haft samband við mig frá Miss Global, það var líka fyrir löngu og ég sagði alltaf bara nei ég hafði engan áhuga,“ segir Saga um upphafið að ævintýrinu. Miss Earth sýndi henni einnig áhuga en þar sem hún er móðir mátti hún ekki taka þátt. 

„Ég hef fylgst með stelpum sem hafa farið í svona keppnir, þær hafa fengið svo mikla reynslu og hafa þroskast svo mikið að ég sé bara tækifæri,“ segir Saga um þá ákvörðun núna að taka þátt. Hún segist einnig hafa áhuga að starfa frekar í tísku og skemmtanabransanum og segir keppnina opnar ákveðnar dyr.

Gaman að spjalla og kynnast nýju fólki

Frægð Sögu hefur risið hægt og rólega. Hvort það sem það er heillandi persónuleikinn eða sterkar skoðanir hennar þá er það víst að fólk kann að meta Sögu B sem hefur aldrei verið vinsælli en akkúrat núna. Frægðinni fylgja alltaf ákveðnir ókostir sem Saga reynir þó að hugsa of mikið um.

„Mér finnst óþægilegt að heyra sögur af sjálfri mér sem eru bull og lygar. Það virðist ekki skipta máli hvort það sé einhver nákominn mér eða Gunnar út í bæ, það vita alltaf einhverjir meira um mig en ég,“ segir Saga þegar hún er spurð út í ókosti frægðarinnar.

„Annars finnst mér þetta bara gaman, ég er ótrúlega líbó og ég segi hæ við alla sem spjalla. Mér finnst gaman að kynnast nýju fólki. Ég hef alltaf verið týpan sem spjallar við alla út í búð.“

Saga B er opin og skemmtileg.
Saga B er opin og skemmtileg. Ljósmynd/Arnór Trausti Kristínarson

Fer í reynslubankann

Í Miss Europe Continental er meðal annars lögð áhersla á sterka persónuleika og sjálfsöryggi sem Saga segir eiga vel við sig. „Ég hef alltaf vitað hvað ég vil, alveg frá því ég var mjög ung,” segir Saga sem segist hafa byrjað á vinnumarkaði snemma vegna þess að hún hafði metnað til þess að ná langt. 

Keppnin er hluti af stærra plani hjá Sögu. Hún fer í myndatöku, þjálfun í að koma fram og kemur fram á stóru sviði í keppninni. Öll þessi reynsla á eftir að nýtast vel. „Þetta er svakalega mikil reynsla sem fer í bankann. Ég er að fara í þjálfun fyrir keppnina sjálfa á mínum eigin vegum. Þar verður allt kennt frá a til ö, hvernig á að fara í myndatöku og svo framvegis. Ég sé fyrir mér svaka reynslu. Ég hugsa alltaf þannig að reynsla fer aldrei. Það sem maður lærir nýtist manni allt lífið.“

Fegurðarsamkeppnin sem Saga tekur þátt í snýst ekki bara um …
Fegurðarsamkeppnin sem Saga tekur þátt í snýst ekki bara um útlitið. Ljósmynd/Arnór Trausti Kristínarson

Kostar mikið að taka þátt í svona keppni?

„Þetta er náttúrulega rándýrt. Ég er búin að fá styrk fyrir námskeiðunum. En varðandi fötin og allt þetta þá ræður þú bara hvað þú eyðir í þig,“ segir Saga sem er um þessar mundir að vinna í því að fá fyrirtæki til þess að styrkja sig. Nafn fyrirtækja sem styrkja hana koma fram á rauða dreglinum í keppninni. 

Fegurð er allskonar

Saga lét nýlega fjarlægja brjóstapúða sem hún var með. Hún segir að það hafi gengið vel að jafna sig.

„Ég er ótrúlega fljót að jafna mig. Ég fór á fyrstu æfinguna viku eftir aðgerðina. Ég tek léttar styrktaræfingar sem lengja og þétta. Ég held mig við ótrúlega gott mataræði. Mataræði er númer eitt til að halda sér í góðu formi.“

Þannig þetta snýst ekkert um að vera fegurðardrottning með stór brjóst í Napólí?

„Ég trúi því að fegurð komi í öllum stærðum og gerðum. Þetta snýst að mínu mati um hvernig þú vinnur, hvernig viðhorfið þitt er og hvernig manneskja þú ert bæði að utan sem og innan. Ef þessi keppni snérist um að vera um stærstu brjóstin þá væri þetta ekki keppnin fyrir mig,“ segir Saga að lokum spennt fyrir komandi ævintýrum í Napólí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál