Myndi aldrei fara í fermingarfötin í dag

Sigurður Þorri Gunnarsson eða Siggi Gunnars, fjölmiðlamaður og skemmtikraftur með meiru, er á því að fermingartímabilið sé einstaklega skemmtilegt, enda aldrei hægt að fara í of margar góðar veislur yfir ævina.

„Það er sama hvað er mikið að gera hjá mér, ég sleppi ekki góðum veislum. Ég er í mikilli törn í vinnunni núna, með tvo daglega þætti í útvarpinu á K100 ásamt því að stýra stöðinni. Svo er ég með bingóþætti mbl.is einu sinni í viku en það klárast núna um miðjan mars. Ég er farinn að renna hýru auga til frís sem ég er búinn að panta mér. Ég ætla í tvær vikur til Tenerife og ferðast einn, það er nokkuð sem mig langar að prófa og er spenntur fyrir. Það gengur vel í leik og starfi og ég er á fullu í líkamsrækt hjá frábærum einkaþjálfara og stunda sjósund af miklum móð nokkrum sinnum í viku.“

Fermdist í brakandi blíðu árið 2003

Sigurður fermdist hinn 8. júní 2003 í brakandi blíðu á Akueyri þar sem hann er fæddur og uppalinn.

„Ég verð nú að viðurkenna að ég man mjög lítið eftir fermingunni, annað en að hún fór fram í Akureyrarkirkju, hvítu kyrtlarnir voru á sínum stað og eflaust trúarjátningin líka, sem ég verð einnig að viðurkenna að ég man ekki í dag!“

Sigurður man töluvert betur eftir veislunni. „Við héldum garðveislu enda var veðrið ekta sumarveður á Akureyri, með logni, sól og hita.

Mamma mín er einstök þegar veislur eru annars vegar. Hún gerir geggjaðar kökur og heita rétti og það var sko nóg í boði í fermingunni þar sem saman var komið fullt af frábæru fólki sem mér þykir vænt um.

Einum veislugestanna, frænku minni frá Texas, datt í hug að ég ætti að opna gjafir og lesa af kortum meðan á veislunni stæði.

Mér leist ekkert á það en gerði það svo og það var rosalega notaleg stund. Við sátum saman, ég las upp kortin og tók utan af gjöfunum og þakkaði svo fólkinu beint fyrir. Þetta var virkilga góður dagur í minningunni.“

Glaður að tíska fermingarbarna skuli hafa breyst í gegnum árin

Sigurður er alltaf vel til fara og ber að margra mati af öðrum mönnum í klæðaburði. Hann er óviss um að sú hafi verið raunin á fermingardaginn hér um árið. „Jesús. Þarna var þjóðbúningurinn þeirra í 17 sem er enn vinsæll á herrum og það var sko leigður þjóðbúningur á mig. Mig minnir að þessi búningur hafi verið hannaður síðla á 10. áratugnum og hann ber þess sterk merki. Það voru allir í þessu þá og algengt að menn giftu sig eða fermdust í þessu dressi, í vesti með tölunum og með hvítt slifsi.

Maður sér þennan búning sjaldan í dag, enda eldist hann kannski ekki vel, en það er gaman að eiga svona fína tískumynd af sér frá þessum tíma.“

Var góð tónlist eða skemmtiatriði í fermingunni?

„Tónlist hefur alltaf skipt mig mjög miklu máli. Ég var því búinn að gera lagalista og brenna hann á disk sem síðan „mallaði“ undir í hátalara sem ég hafði sérstaklega tengt við míkrófón, sem ég ætlaði að tala í þegar ég byði fólk velkomið. Svo var ég svo feiminn að ég hætti við það!“

Er enn þá að nota fermingargjöfina

Það fallegasta sem Sigurður fékk í fermingargjöf var hljómborð sem foreldrar hans gáfu honum.

„Ég glamraði á það í mörg ár og á það enn.“

Hvað getur þú sagt okkur frá fermingarmyndatökunni?

„Það var Finnbogi Marinósson ljósmyndari sem tók myndirnar en hann hefur tekið myndir af ófáum rokksveitum. Því var smá rokksveitarstemning á myndunum.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem eru að fermast í dag?

„Já, að njóta dagsins með fólki sem þeim þykir vænt um og gott að vera í kringum.“

Til að veislan verði skemmtileg er Sigurður á því að boðslistinn skipti mestu máli.

„Ég mæli með að bjóða þeim sem þig langar virkilega að bjóða og hafa í kringum þig. Með góðu fólki, í góðum anda er allt skemmtilegra.“

Það ættu allir að fermast eins og þeir vilja

Sigurður var vinmargur sem barn og margt skemmtilegt brallað á fermingartímanum.

„Við vinirnir vorum mikið í útilegum og í því að tjalda í görðum hver annars á sumrin á þessum árum. Mig minnir einmitt að við höfum gist saman í tjaldi í einhverjum garði nóttina fyrir ferminguna.“

Ástæður þess að við fermumst geta verið misjafnar að hans mati.

„Við ættum því ekkert að vera að velta fyrir okkur hvernig næsti maður gerir þetta og á hvaða forsendum. Eins vil ég segja við þá sem eru í vafa um hvort þeir eigi að fermast að hafa ekki áhyggjur af því að vera öðruvísi en aðrir. Gerðu þetta bara nákvæmlega eins og þú vilt hafa þetta. Þig þarf raunverulega að langa til að fermast og að halda veislu til þess að njóta þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál