Fljúga alltaf í páskamat til mömmu og pabba

Hér eru systurnar á sviðinu í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
Hér eru systurnar á sviðinu í Söngvakeppni Sjónvarpsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Systkinin og Eurovision-fararnir Sigríður, Elísabet, Elín og Eyþór Ingi Eyþórsbörn ólust upp við notalegar fjölskyldustundir um páskana. Í ár ætla systurnar að fagna í Madrid með öðrum flytjendum en fljúga svo heim í páskamatinn til mömmu og pabba. Þau ræða páskana í páskablaði Nettó. 

„Páskarnir voru alltaf hátíðlegir, fjölskyldan samankomin að borða góðan páskamat og páskaegg, auðvitað! Mamma skreytti húsið með fallegu páskaskrauti og páskaandinn var yfir öllu. Það er ennþá þannig í dag,“ segir Elísabet.

„Pabbi faldi páskaeggin,“ tekur Elín fram. Elísabet bætir við: „Það sem er eftirminnilegast hjá mér er þegar amma Sísí gaf okkur alltaf svo falleg pappapáskaegg með alls konar páskaskrauti og páskanammi!“

Gott veður og fjölskyldustundir eru efst í huga Eyþórs. Systkinin tala öll um heimsóknir til móðurbróður þeirra á Seyðisfirði um páskana og Sigríður segir að páskarnir 2009 á Seyðisfirði hafi verið sérstaklega eftirminnilegir.

„Við vorum öll stórfjölskyldan saman hjá móðurbróður mínum og fjölskyldunni hans sem býr þar, spiluðum á tónleikum og höfðum það yndislegt saman. Við fórum líka 2012 en þá kom John Grant, vinur okkar, með. Það var líka geggjað.“

Páskaegg og fjölskyldustundir

Systkinin halda í páskahefðirnar á sínum heimilum.

„Við kaupum gulan páskavönd og felum páskaegg,“ segir Eyþór. Elín er byrjuð að undirbúa með syni sínum: „Ég og strákurinn minn erum búin að vera að mála egg til að skreyta heima og ég mun sannarlega hafa páskaeggjaleit.“ Sigríður tekur í sama streng: „Ég fel alltaf páskaeggin á páskadagsmorgun og allir þurfa að leita. Ég kaupi helst páskaliljur eða gula túlípana. Við erum ekki miklir föndrarar heima, ég set lím út um allt ef ég kem nálægt því. En okkur finnst gaman að mála egg og við höfum gert það nokkrum sinnum.“ Elísabet nefnir einnig þetta með feluleikinn. „Páskaeggin eru alltaf falin á okkur heimili. Það er mjög gaman! Svo hittumst við öll saman fjölskyldan og borðum geggjaðan páskamat í boði pabba og mömmu.“

Öll vilja þau helst slaka á og njóta þess að vera saman um páskana.

„Fyrir mér eru páskarnir svolítið mikið „chill“ og fjölskyldusamvera. Hanga inni og borða páskaegg, kíkja í göngutúr ef veður leyfir og borða svo góðan mat,“ segir Elín.

Sigríður rifjar upp: „Þegar ég var yngri var gjörsamlega allt lokað yfir páskana sem þýddi frí og að öll fjölskyldan varð bara að vera saman, sem var yndislegt. Það var mikið leikið og farið í heimsóknir. Í dag eru páskarnir tenging við lengri daga og komandi vor og fallegar samverustundir með fjölskyldu og vinum.“

Undirbúningur fyrir Torino

Elín segir frá því að páskarnir í ár verði öðruvísi en vanalega.

„Heldur betur! Við systur verðum í Madrid í Eurovisionpartíi!“ Elísabet bætir við að þær fljúgi heim á páskadag, „og förum svo líklegast bara beint af flugvellinum til mömmu og pabba í páskaveislu!“ Þær eru einnig önnum kafnar við að undirbúa sig fyrir keppnina í Torino í maí ásamt bróður sínum.

„Við erum að byrja að æfa lagið og sviðsframkomu á fullu. Spá og spekúlera í öllu. Svo erum við í World Class að æfa hjá frábærum einkaþjálfara sem heitir Teitur. Einnig leggjum við áherslu á andlega heilsu, t.d. með hugleiðslu,“ útskýrir Elín. Eyþór segir ýmislegt vera á döfinni. „Það eru miklar æfingar fram undan og ýmsar pælingar varðandi hvaða föt myndu henta best á sviði.“

Systkinin eru öll mjög spennt fyrir því að fara til Torino.

„Ég er fáránlega spennt! Ég get ekki beðið eftir að hitta alla sem verða þarna og flytja lagið aftur,“ segir Elín. Sigríður hlakkar til þess að hitta aðra keppendur, kynnast nýju fólki og menningu og, „að borða ítalskan mat. Spagettí er uppáhaldsmaturinn minn – vegan“. Hún hlakkar líka til að sjá Torino, „og njóta þess að upplifa vorið á nýjum stað“. Elísabet segist vera ótrúlega spennt.

„Að hitta allt þetta frábæra tónlistarfólk og bara fá að kynnast þessum geggjaða Eurovisionheimi! Ég get ekki beðið!“ Eyþór nefnir að hann langi til að kynna sér borgina og sögu hennar. „Torino er söguleg rómversk borg og það verður gaman, ef við höfum frítíma, að svipast um og skoða borgina.“

Þau tala öll um hversu mikill heiður það sé hafa unnið söngvakeppnina á Íslandi og að vera fulltrúar Íslands í Eurovision.

„Þetta er náttúrlega stærsti sjónvarpsviðburður í heimi og ótrúlegt tækifæri fyrir okkur. Við viljum gera þetta mjög vel og erum stolt af því að fá að syngja fyrir Íslands hönd,“ segir Eyþór. „Það er ótrúlegur heiður að vera valinn sem fulltrúi landsins síns í því sem maður elskar að gera,“ ítrekar Sigríður. „Við erum ekki íþróttafólk, því miður, þannig að það eru ekki mörg tækifæri fyrir okkur að keppa fyrir Íslands hönd.“

Uppskriftin að hamingju

Aðspurð hvaða uppskrift þau vilji deila með lesendum segir Eyþór: „Uppskriftin að hamingju: Elska, brosa, hlæja og hjálpa.“ En systkinin eiga sér einnig uppáhaldspáskameðlæti. „Þessi réttur er orðinn ómissandi um páska og jól og þá sérstaklega hjá yngstu kynslóðinni,“ segir Elín.

Sætar kartöflur með sykurpúðum

2 sætar kartöflur, soðnar

200 g vegansmjör (eða venjulegt)

50 g valhnetur

50 g pekanhnetur

salt og pipar

1 pk. litlir sykurpúðar

Skerið sætu kartöflurnar í teninga. Saltið, piprið og blandið hnetum saman við. Bræðið smjörið og hellið yfir. Setjið í eldfast mót. Dreifið sykurpúðum yfir og setjið í ofn á 180°C þar til sykurpúðarnir byrja að brúnast og bráðna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál