Glötuð stemming með leiðinlegum sessunaut

Ljósmynd/Colourbox

Að lenda á borði með leiðinlegu fólki í brúðkaupsveislu getur alveg eyðilagt annars gott brúðkaup. Brúðhjón ættu því að huga vel að sætaskipan vilji þau að gestirnir skemmti sér vel og vera óhrædd við að fara óhefðbundnar leiðir þegar raðað er á borðin. 

Þegar hugað er að sætaskipan í brúðkaupum eru gestir oftast flokkaðir niður í sæti eftir vinatengslum og fjölskylduböndum en það er ekki alltaf besta lausnin vilji brúðhjónin að brúðkaupið verði virkilega vel lukkað. Þá getur jafnvel verið farsælla að horfa á sætaskipan út frá því að gestirnir skemmti sér sem best í veislunni. Oft eru fjölskyldur settar saman á borð þótt vitað sé að fólkið eigi illa skap saman eða milli þess séu óuppgerð mál. Slík sætaskipan getur skapað bæði þrúgandi og eldfimt andrúmsloft og þarf að passa það. Í stað þess að flokka gestina á borð eftir fyrirframákveðnum hugmyndum um tengsl mætti hugsa sætaskipanina út frá því hverjir myndu skemmta sér best saman til dæmis út frá áhugasviði.

Skipt um sæti í miðri veislu

Önnur leið til þess að hrista upp í sætaskipulaginu er hreinlega að gera breytingar í sjálfri veislunni. Það fer þá þannig fram að reglulega velur veislustjórinn ákveðna gesti úti í salnum og hreinlega biður þá um að skipta um sæti. Best er að slík sætaskipti gerist á milli rétta. Að fá nýjan aðila á borðið til sín í miðri veislu getur verið mjög hressandi og hleypt alveg nýju lífi í samræðurnar. Þetta er líka skemmtilegt ráð til þess að gestirnir kynnist betur. Vilji brúðhjónin hrista gestina enn betur saman fyrir brúðkaupið þá er hægt að halda stutt óformlegt boð kvöldið fyrir brúðkaupið. Slíkt boð brýtur ísinn og andinn verður léttari í sjálfu brúðkaupinu þegar fólk er ekki að hittast í fyrsta sinn.

Leitað að sessunaut

Önnur aðferð til þess að létta stemninguna á milli gesta og láta þá kynnast betur er að búa til leik úr sætaskipaninni með því að láta gesti leita að sessunaut sínum. Þetta krefst töluverðs undirbúnings af hálfu brúðarparsins sem setur þá ekki nöfn gesta við sætin í salnum heldur semur skriflegar lýsingar sem dreift er til gesta þegar þeir koma í veislusalinn. Dæmigerð slík lýsing gæti t.d. verið: „Sessunautur þinn er hávaxinn karlmaður á fertugsaldri. Hann var skiptinemi á Ítalíu og heldur með Liverpool“ eða „Sessunautur þinn er glæsileg kona sem elskar allt sem er bleikt. Hún á hund og safnar teskeiðum.“ Gestur sem fær slíka lýsingu á sessunaut sínum þarf þá að að ganga um salinn og spjalla við alla þá sem gætu komið til greina út frá lýsingunni. Nauðsynlegt er að gesturinn leggi sig fram í leiknum því hann veit ekki hvar hann á að sitja fyrr en hann finnur sessunautinn sem er með upplýsingar um sæti þeirra beggja. Leikurinn gefur veislunni skemmtilegt „kikk-start“ því gestir fá þarna afsökun til þess að hefja spjall við aðra gesti án þess að þekkja þá. Leikurinn getur tekið töluverðan tíma, allt eftir því hvað brúðhjónunum hefur tekist vel til við að búa til góðar lýsingar á gestunum en tilvalið er fyrir brúðhjónin að nota þann tíma fyrir myndatöku. Þá er mikilvægt fyrir brúðhjónin að klúðra ekki leiknum með því að gefa upp upplýsingar sem gestum gæti þótt óþægilegt að aðrir gestir viti um þá, til dæmis upplýsingar um fyrri fangelsisdóma, gjaldþrot eða sjúkrasögu.

Þá má ekki heldur gleyma því að standandi brúðkaup leysir allan vanda varðandi sætaskipan og minnkar álagið við brúðkaupsundirbúninginn. Standandi brúðkaup getur því verið góð lausn ef sætaskipan virðist óyfirstíganlegt verkefni fyrir brúðhjónin, til dæmis í tilfellum þar sem mikið er af flóknum tengslum í hópi gesta. Þá lendir enginn á borði með fólki sem honum líkar ekki við. Gestir ganga frjálsir um salinn og tala við þá sem þeir sjálfir vilja og geta því ekki kennt leiðinlegum sessunautum um að þeir hafi ekki skemmst sér vel í brúðkaupinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál