Giftu sig á afmælisdegi einkadótturinnar

Hákon og Anna ásamt dóttur sinni, Matthildi Míu.
Hákon og Anna ásamt dóttur sinni, Matthildi Míu. Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir

Anna H. Johannessen mannauðsstjóri 1912 og Hákon Ívar Ólafsson sérfræðingur hjá Kviku banka giftu sig á eins árs afmæli dóttur sinnar, Matthildar Míu, í september 2021. Hjónin eru hógvær og vildu hafa giftinguna látlausa og í sínum anda. Móðursystir Önnu saumaði á hana kjólinn og bakaði brúðartertuna. 

Anna og Hákon hnutu hvort um annað í miðbæ Reykjavíkur árið 2016 og vissu strax að þau vildu verja lífinu saman.

„Við kynntumst niðri í bæ eins og svo margir aðrir. Það er skemmtilegt að segja frá því að röð tilviljana varð til þess en besta vinkona mín dró mig, í fyllstu merkingu þeirra orða, á djammið þar sem Hákon var staddur. Fáir myndu segja að við værum þekkt fyrir að vera miklir djammarar,“ segir Anna og hlær. Þau voru búin að vera kærustupar í um fimm ár þegar þau gengu í hjónaband 5. september síðastliðinn.

Þegar Anna er spurð út í brúðkaupsdaginn þeirra Hákonar segir hún að dagurinn hafi verið yndislegur í alla staði.

„Dagurinn var nákvæmlega eins og við vildum hafa hann en við giftum okkur á sunnudegi. Við vorum með dagsbrúðkaup í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem tónlist og söngur GDRN setti fallegan og rómantískan svip á athöfnina.

Við höfðum verið að spá og spekúlera með veitingar og höfðum skoðað alls konar mismunandi útfærslur af veitingum – allt frá því að vera með sitjandi borðhald yfir í snittur – en þá datt okkur í hug að fá Tommaborgara á staðinn til að grilla ofan í fólkið. Það sem gerði daginn svo skemmtilegan var að okkur leið vel með að hafa veisluna á þann hátt að hún lýsti okkur sem hjónum, þ.e. frekar hógværa. Við skelltum okkur því á Tommaborgarana og vorum svo með gos og bjór í gleri og heimagerða brúðkaupstertu sem móðursystir mín, Ragna Ingimundardóttir, bakaði handa okkur. Við héldum veisluna í safnaðarheimili Dómkirkjunnar og salurinn þar er svo skemmtilega gamaldags og með fallegum gluggum og ljósgulum veggjum þannig að við þurftum lítið að skreyta hann nema með blómum og kertum,“ segir Anna.

Hákon og Anna gengu í hjónaband í Dómkirkjunni.
Hákon og Anna gengu í hjónaband í Dómkirkjunni. Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir
Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir

Trúlofun á Kúbu

Anna og Hákon trúlofuðu sig á Kúbu í janúar 2019. Planið var að ganga í hjónaband í júlí 2020 en þá tók lífið völdin.

„Ég varð svo ólétt að Matthildi Míu og átti von á mér í ágúst það ár og að sjálfsögðu var Covid líka að stríða okkur. Við tókum það samt ekkert inn á okkur að þurfa að fresta brúðkaupinu og ákváðum að stefna á sumarið á eftir. Við fundum fyrir því að áherslurnar höfðu breyst hjá okkur eftir að við eignuðumst dóttur okkar og að við vildum hafa brúðkaupið fámennara en við höfðum gert ráð fyrir í upphafi. Samhliða þessum pælingum ætluðum við alltaf að hafa skírnarathöfn fyrir dóttur okkar en hún hafði verið nefnd fljótlega eftir fæðingu þar sem ekki var hægt að halda skírnina vegna Covid. Okkur fannst tilvalið að skíra hana á eins árs afmælisdaginn og höfðum bókað Dómkirkjuna og safnaðarheimili Dómkirkjunnar fyrir skírnina og afmælið hennar og síðan hugsuðum við hvort það væri ekki fallegt að gifta okkur sama dag. Í upphafi fannst mér eins og það ætti að vera miklu meira umstang í kringum brúðkaupið og að það þyrfti að skipuleggja það í langan tíma eins og í bíómyndunum en svo fór það þannig að við sendum kirkjunni bara tölvupóst og báðum um að bæta brúðkaupi við skírnina með fjögurra vikna fyrirvara. Það var að sjálfsögðu ekkert mál þar sem við vorum þegar með kirkjuna bókaða. Brúðkaupið var búið að vera lengi á dagskrá en síðan tókum við ákvörðun um það með fjögurra vikna fyrirvara,“ segir hún.

Voruð þið sammála um hvernig þið vilduð hafa stóra daginn?

„Já, við höfum verið á sömu blaðsíðu með það frá upphafi og höfum farið í gegnum breyttar áherslur saman þannig að það var mjög auðvelt fyrir okkur að skipuleggja brúðkaupið í sameiningu,“ segir Anna.

Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir

Ragna kemur til bjargar!

Anna gifti sig í fallegum blúndukjól sem Ragna Ingimundardóttir móðursystir hennar saumaði á hana. Ragna er listamaður í höndunum og eftir að þær frænkur lögðu á ráðin þurfti Anna bara að máta kjólinn tvisvar.

„Sumarið eftir að við trúlofuðum okkur var móðursystir mín Ragna stödd í Svíþjóð og sendi mér sms með myndum af efni í kjólinn. Hún er leirlistakona og það vill svo skemmtilega til að hún er líka klæðskeri, sem kom sér vel fyrir mig. Hún hafði fundið blúndu í eldgömlum viðarskáp í gamalli verslun þarna í Svíþjóð. Það var mjög mikil dulúð yfir því öllu saman og einhvern veginn vissi hún nákvæmlega hvað ég vildi án þess að ég hafi sjálf getað útskýrt það. Síðan hringi ég í hana í byrjun ágúst 2021 og segi henni að við séum búin að ákveða að brúðkaupið verði þarna fjórum vikum seinna. Eftir það náði hún að töfra fram brúðarkjólinn á mettíma og ég fór held ég tvisvar sinnum í mátun til hennar. Ótrúlegt hvernig hún fór að þessu á svona stuttum tíma ásamt því að baka brúðartertuna okkar, en kjóllinn var fullkominn að mínu mati,“ segir Anna.

Anna greiddi sér sjálf fyrir brúðkaupið því hárgreiðslukonan forfallaðist.
Anna greiddi sér sjálf fyrir brúðkaupið því hárgreiðslukonan forfallaðist. Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir

Gamlir flugfreyjutaktar komu til bjargar!

Förðunarmeistarinn Natalie Hamzehpour farðaði Önnu fyrir stóra daginn en hún greiddi sér sjálf.

„Ég er svo heppin að vinna með einum færasta förðunarfræðingi Íslands, Natalie Hamzehpour, sem farðaði mig á stóra deginum. Það er alveg merkilegt hvernig hún náði með sínum töfrum að umbreyta mér úr þreyttri vinnandi móður ungs barns í hressa brúður. Ég hafði pantað prufugreiðslu hjá hárgreiðslukonu en hún endaði á því að fá Covid áður en ég komst í prufu. Þá kom sér vel að ég er fyrrverandi flugfreyja og luma því á einni góðri „go-to“-greiðslu þannig að ég sá bara sjálf um greiðsluna á brúðkaupsdaginn. Það var ósköp þægilegt því ég vildi hafa greiðsluna þannig að hún endurspeglaði mig sem best.“

Hvað stóð upp úr á stóra deginum þegar þú hugsar til baka?

„Við náðum að njóta dagsins svo vel með litlunni okkar og það var ekkert stress. Allt gekk smurt fyrir sig en við eigum ótrúlega góða að sem sáu um bæði okkur og allt sem sneri að veislunni. Þetta fannst okkur mikilvægast; að sníða daginn eftir okkar höfði og fyrir okkur.“

Hvers vegna finnst þér skipta máli að vera í hjónabandi?

„Fyrir utan þetta praktíska upp á réttindi og annað að gera þá finnst okkur þetta falleg hefð, bæði til að sýna og tjá ást okkar sem og skuldbindingu gagnvart hvort öðru í gegnum lífið,“ segir Anna.

Breyttist sambandið við að ganga í hjónaband?

„Ég myndi ekki segja það. Frá því að við byrjuðum saman hefur fólk minnst á sterkan hjónasvip hjá okkur. Hann kom löngu áður en við settum upp hringana,“ segir Anna og brosir.

Ef þú ættir að gefa verðandi brúðhjónum eitt ráð, hvert væri það?

„Ekki setja of mikla pressu á daginn ykkar. Njótið þess að vera að gifta ykkur, hafið daginn fyrir ykkur og alveg eins og þið viljið hafa hann. Þið eruð ekki að gera þetta fyrir neina aðra.“

Ragna Ingimundardóttir saumaði brúðarkjólinn.
Ragna Ingimundardóttir saumaði brúðarkjólinn. Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir
Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir
Matthildur Mía í fangi móður sinnar en hún varð eins …
Matthildur Mía í fangi móður sinnar en hún varð eins árs þennan dag. Ljósmynd/Katín Lilja Ólafsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál