„Líður eins og ég sé að verða unglingur aftur“

Dagurinn byrjaði vel hjá Ástu Kristjánsdóttur ljósmyndara, þar sem hún …
Dagurinn byrjaði vel hjá Ástu Kristjánsdóttur ljósmyndara, þar sem hún fór í afmælisbröns með sínum nánustu í Grímsnesinu. Hún ætlar að enda afmælisvikuna í Sardiníu, gæða sér að góðum mat þar, kafa og æfa sig á sjóbretti. mbl.is/Anna Ósk

Ásta Kristjánsdóttir ljósmyndari fagnar fimmtíu ára afmæli sínu í dag. Hún er á því að lífið verði betra með árunum og að allur aldur hafi sinn sjarma. Það sem skiptir hana hvað mestu máli er að vera trú sér og að hafa gaman í lífinu. 

Ásta ver nánast öllum vinnudeginum á bakvið myndavélina og í myndvinnslu. Hún starfar ásamt teymi sínu í Studio8 í Brautarholti þar sem hún er að vinna að allskonar spennandi ljósmyndaverkefnum. Auk þess þróar hún nýja snyrtivörulínu sem byggir á gagnsæi og heildrænum lausnum. Ásta á 2 börn og eina dótturdóttur. 

„Fyrir mér er líkami og sál eitt kerfi og það þarf að vinna í báðu til að ná árangri. Ef við tökum húðina sem dæmi, þá gera krem sem borin eru á útvortis kannski 10% gagn, svo eru hin 90 % súrefnisupptaka og blóðflæði til húðarinnar.

Aukin súrefnisupptaka er mikilvæg en súrefni er nauðsynlegt fyrir frumurnar okkar til að endurnýja sig. Svo er það næring, svefn og ýmislegt sem tengist ójafnvægi í hormónaframleiðslu. Eins má nefna kortisól, streitu hormónið, en of mikið af því getur skapað húðvandamál. Það er hægt að minnka kortísól innspýtinguna með öndunaræfingum og hugleiðslu. Þess vegna hefur andleg líðan mikil áhrif á húðina.“

Ásta segir ánægjulegt að fá að eldast og þroskast með árunum. Í dag veit hún hvað hún vill fá út úr lífinu og hvað hana langar ekki í.

„Þegar ég var 25 ára hélt ég að ég vissi allt, en svo fer maður að kafa dýpra í sjálfan sig og skoða ný svæði og það reynir á nýja vöðva sem gott er að hafa sterka þegar maður fer í gegnum lífsins sjó. Þess vegna er svo gaman að eldast því sjálfstraustið eflist og maður er snöggur að grisja það góða í lífinu frá því sem dregur mann niður.“

Margrét R. Jónasardóttir sá um hár og förðun Ástu. Glimmerkjóllinn …
Margrét R. Jónasardóttir sá um hár og förðun Ástu. Glimmerkjóllinn er frá Hildi Yeoman. mbl.is/Anna Ósk

Lífið ekki alltaf dans á rósum

Að vera ánægð með lífið, þó það sé ekki stöðugt dans á rósum er mikilvægt.

„Ég er ánægð í hversdagsleikanum og finnst hann bara dálítið skemmtilegur. Ég þarf ekki miklar flugeldasýningar þó að mér finnist skemmtilegt að gera óvænta hluti og taka mátulega áhættu. Ég er líka bara nokkuð sátt við líkama minn og útlit og er miklu ánægðari með mig núna heldur en þegar ég var yngri, þegar maður var meira að spá í hvort þetta eða hitt væri of lítið eða stórt og fleira í þeim dúrnum. Sjálfstraust hefur ekki endilega neitt með útlitið að gera heldur, frekar viðhorf til lífsins. Það hefur breyst hjá mér með árunum.“

Þó henni finnist gaman að taka sig til og klæða sig upp á, þá segir hún aðalatriðið að tapa ekki útgeisluninni.

„Ef útgeislunin fer þá slokknar á manni. Ég er ákveðin í að leyfa mér að finnast ég vera falleg og sexí þangað til að ég verð níræð. Þá skal ég byrja að prjóna og borða sviðakjamma. Aldur skiptir mig ekki máli ef heilsan er góð, því maður er jú bara eins gamall eins og manni líður og mér liður eins og ég sé 36 ára og það má.“

Ásta glæsileg í kjól frá Hildi Yeoman. Hún segir að …
Ásta glæsileg í kjól frá Hildi Yeoman. Hún segir að henni líði eins og unglingi aftur, þar sem börnin eru orðin stór og nú sé meira rými fyrir hana sjálfa. mbl.is/Anna Ósk

Djúpt hugsandi í vinnunni

Ljósmyndir tákna mismunandi hluti fyrir fólk og hefur Ásta skemmtilegar skoðanir á gildi ljósmynda.

„Ljósmynd fangar augnablikið og varðveitir það jafn lengi og ljósmyndin lifir. Svo ef þú hendir myndinni þá bara hverfur þetta augnablik. Það er svo magnað! Fyrir mér snýst það að ljósmynda mest um að hitta allskonar fólk, heyra sögur þeirra, tengjast því og ná því einlægu á filmu. Það getur verið erfitt að komast í gegnum mörg lög til að sjá manneskjuna sem er bakvið allar grímurnar, en það er svo gaman þegar viðkomandi opnar sig fyrir mér og treystir mér og að finna þegar allt smellur. Þá gerast oft töfrar.

Ég er mest fyrir að ljósmynda konur, því ég á svo auðvelt með að tengjast þeim og styrkja þær fyrir framan myndavélina. Ég endurspegla að mörgu leiti þá sem ég mynda og sé oft sjálfa mig í konum sem ég hef tekið ljósmyndir af. Hvernig þær standa, bera sig og hvaða svipbrigði þær eru með. Þegar konur koma til mín í myndatökur þá er það líka alltaf smá ráðgjöf í leiðinni. Við byrjum á förðun og hári og svo skoðum við saman hvaða dress viðkomandi ætlar að vera í. Ég fæ konur til að skipta nokkrum sinnum um fatnað og leiði þær áfram skref fyrir skref í líkamstjáningu og stöðum. Ég er mjög næm fyrir lýsingu, ætli það hafi ekki byrjað þegar amma mín sagði að ég ætti alltaf að snúa bakinu í glugga. Því í þannig birtu, með bakið í dagsljósið, lítur maður mun betur út. Þetta var auðvitað rétt hjá henni.“

Ásta segir lífið verða betra með árunum og að útgeislun …
Ásta segir lífið verða betra með árunum og að útgeislun skipti miklu máli og að fólk sé að gera það sem það hefur áhuga á. mbl.is/Anna Ósk

Konur hugsa oft neikvætt til sín

Ásta segir konur yfirleitt byrja að tala um hvað þær myndast illa og hversu óánægðar þær eru með þetta eða hitt í andlitinu sínu eða á líkamanum. „Mér finnst svo sárt að sjá glæsilegar konur koma til mín og rífa sig svona niður. Þetta er eitthvað sem við sem samfélag þurfum að breyta. Karlmenn eru yfirleitt ekki svona. Það er mikil sjálfsskoðun að fara í myndatöku og reynir mikið á sjálfstraustið.  

Konurnar ganga yfirleitt út frá mér öruggar og glaðar sem gefur mér mikið.“

Ásta er ein þeirra sem hefur einnig gaman að því að ögra stöðluðum ímyndum samfélagsins.„Eins og að mynda 93 ára konu skellihlæjandi, í glamúr kjól með sígarettu. Í samfélaginu okkar er ekki litið á það sem eftirsóknarvert að vera gamall en hvað ef það væri eftirsóknavert?“

Hún var ung þegar hún byrjaði að taka ljósmyndir en ferill Ástu hófst fyrir alvöru þegar hún var átján ára að aldri úti í Tókýó. „Þá starfaði ég sem fyrirsæta og myndaði það sem ég sá á leið minni um borgina þegar ég fór í prufur fyrir verkefni. Ég tók myndir af litlum flissandi skólastelpum sem kölluðu mig „gaijing“ eða útlending og tók myndir af bleikum Cherry Blossom trjám og fegurðinni í Yoyogi garðinum. Ég gat rölt endalaust um borgina en Tókýó er ein af mínum uppáhaldsborgum.“

Ásta er ein þeirra sem hefur nánast alltaf unnið fyrir sig sjálfa. „Ég hef skapað mér verkefni eftir því hvað mér finnst skemmtilegast og áhugaverðast hverju sinni en hef verið í tísku- og auglýsingabransanum í 35 ár. Ég er frekar strangur yfirmaður og þá sérstaklega við sjálfa mig, en hef markvisst verið að vinna í því að vera mýkri við mig. Í dag leyfi ég mér sem dæmi að hvíla mig ef ég er þreytt í staðinn fyrir að fá mér kaffi. Ég er búin að slaka svipunni og gef mér hrós og svo held ég upp á litla sem stóra sigra.“

Mikilvægt að losa sig við neikvæðar hugsanir

Ásta er búin að finna margar góðar leiðir til að hugsa um sjálfa sig. „Ég stunda jóga, göngutúra og fer í ræktina. Ég leyfi mér líka að fara í Cranio, Kap og tónheilun, en þetta hjálpar mér allt við að hlaða mig og losa mig við allskonar neikvæðar hugsanir og tilfinningar sem ég þarf ekki.

Ég fer í nudd og tek tímabil hjá sálfræðingi og næringarfræðingi endrum og eins. Ég stundaði lengi Coda og Al-Anon sem styrktu mig mikið. Ég er yfirleitt með eitt net-námskeið í gangi hverju sinni. Núna er ég á námskeiði hjá Marie Forleo sem snýr að tímastjórnun, en var þar áður á námskeiði hjá Deepak Chopra.

Mér finnst heldur ekkert leiðinlegt að fara í rauðvín með vinkonu eða vin, eða í heitan pott og gufu. Ég hlusta mikið á hljóðbækur á meðan ég er að vinna myndir í eftirvinnslu, bæði sjálfshjálparbækur, ævisögur og glæpasögur. Þetta hleður mig allt saman á mismunandi hátt,  en ég verð að hafa tilbreytingu í lífinu annars fer mér að leiðast.

Ég tek stundum nokkra mánuði í jóga og breyti svo yfir í sund þegar ég er komin með nóg af jóga. Það er eins í vinnunni minni, þar sem enginn dagur er eins.“

Finnst sykur algjört eitur

Ásta hefur alltaf borðað frekar hollan mat og er ekki sama um hvað hún setur ofan í sig.

„Ég held sykri í algjöru lágmarki. Hann er algjört eitur að mínu mati, en ég reyni að borða sem mest af því sem vex af jörðinni, en minna af unnum mat. Það er ekki alltaf auðvelt því ég fæ stundum mjög mikla sykurfíkn.

Svo nota ég 80/20 regluna því það er óþolandi að vera of öfgafull í þessu öllu og ég fæ ekki samviskubit þó ég nái 80% árangri. Lífið verður nefnilega að vera „spontant“ og skemmtilegt líka. Mér finnst nauðsynlegt að fá sér stundum kampavín og súkkulaði.

Þegar ég er farin að borða lélegan mat, sofa lítið og þamba kaffi þá fer viðvörunarkerfið mitt í gang. Ég er frekar fljót að leiðrétta mig, vegna þess að ég er með ofnæmi og fæ hreinlega útbrot ef ég fer ekki vel með mig. Það er að vissu leiti blessun að hafa svona kerfi sem verður bara brjálað ef ég passa mig ekki.“ 

Lífið á að vera erfitt líka

Ásta er með skemmtilega sýn á lífið almennt. „Í lífinu þarf maður að hafa vissan aga, metnað og vilja. Ég hef búið til minn eigin verkfærakassa sem virkar fyrir mig. Ég notast við þessi verkfæri þegar ég sigli í gegnum erfiðleika og þarf að styrkja og byggja sjálfa mig upp. Lífið er jú 50% gaman og 50% erfitt. Ef maður nær að finna tól og tæki til að koma sér í gegnum erfiðleikana þá er maður í góðum málum.“

Heimili hennar er einstaklega falleg íbúð í Hlíðunum sem hún flutti í fyrir þremur árum þegar hún skildi. „Ég breytti íbúðinni töluvert, opnaði rými og breytti herbergjaskipan. Ég og Atlas, sonur minn, erum bæði með góða aðstöðu þar. Ég er með gott vinnuherbergi fyrir mig enda vinn ég mikið heima. Heimilið mitt er stílhreint en hlýlegt. Ég elska nútímalegan stíl með asísku yfirbragði.

Ég er sem dæmi með tvö stór ljós í eldhúsinu sem eru frá markaði í Cairo, en sófinn minn er mjög „minimaliskur“ í japönskum stíl. Ég elska að blanda saman hráu og hlýju, dýru og ódýru.“

Hvernig velurðu fólkið sem er í kringum þig?

„Ég er mjög vandlát þegar kemur að félagsskap því við nærumst af þeim sem við erum í kringum og orkan smitast manna á milli. Nánustu vinir mínir eru mjög tryggir og skemmtilegir og með góðan húmor.

Við vinkonurnar styðjum hvor aðra í gegnum súrt og sætt og við kunnum líka að samgleðjast og fagna með hvor annarri þegar vel gengur. Það er ómetanlegt að eiga góða að. Ein besta vinkona mín hefur fylgt mér í gegnum allt lífið, við erum meira eins og systur. Mamma er rosalega jákvæð og við erum í daglegu sambandi. Hún jarðtengir mig og styður mig í því sem ég er að gera.“

Þegar að Ásta talar um börnin sín þá færist viss mýkt yfir hana. „Börnin mín eru mjög náin mér og við erum mikið saman. Þau hafa alltaf fengið að vera í kringum mig í vinnunni og á ferðalögum. Vinnan og heimilislífið blandast saman hjá mér.

Það var ákvörðun sem ég tók strax þegar ég var fyrst ófrísk, að börnin mín yrðu aldrei fyrir mér eða að ég gæti ekki látið drauma mína rætast af því að ég væri orðin móðir. Þess vegna hafa þau þvælst með mér um allan heim og það að hafa þau með mér hefur tengt okkur dýpra. Dóttir mín var sérstaklega mikið með mér á ferðalögum en við bjuggum í Síberíu og á Indlandi þegar við komum Eskimo fyrirsætustofuna á laggirnar þar. Hún mætti alltaf galvösk með litabækur á fundi og ólst upp í tískubransanum. Tískusýningar og myndatökur voru hluti af lífinu hennar og öll módelin þekktu hana og elskuðu. Mér er líka minnistætt þegar Jasmin þurfti að klára ritgerð tengda Laxdælu, en hún var þá í heimaskóla í Bombay. Þarna sat hún með mér, 12 ára gömul, í verksmiðju í Dharavi þegar ég var með E-label fatamerkið. Með ljóst sítt hár niður á bak innan um alla Indverjana sem voru að sauma fötin. Þetta var mjög skemmtileg sjón, en við sátum gjarnan í verksmiðjunni tímunum saman, þegar framleiðslan var í gangi og þekktum allt starfsfólkið.

Strákurinn minn hins vegar nennir lítið með mér á „sett“ en hann fylgist vel með verkefnum sem ég er að vinna heima og er oft mikill innblástur fyrir mig og er oft með aðra sýn á hlutina sem ég kann að meta.

Auðvitað getur þessi blanda, vinnan og heimilið, verið fyndin stundum. Að vera að baka pönnukökur með son minn og alla vini hans í heimsókn, en í leiðinni að semja við stóran viðskiptavin, á meðan ég er að taka mig til fyrir myndatöku með pönnukökuspaðann í einni og maskarann í hinni.“

Elskar fallega hönnun

Ásta er spennt fyrir árinu og ætlar að leggja áherslu fyrst og síðast á að það verði skemmtilegt. „Á sama tíma ætla ég að vera dugleg að stíga út fyrir þægindaramman bæði í starfi og leik. Ég ætla að ferðast helling og njóta með mínum nánustu. Ég stefni líka á að vinna helling í nýja vörumerkinu mínu og að næra vel líkama og sál.

Ég spái einnig mikið í sniðum, efnum og litlu hlutunum. Gallabuxur eru ekki bara gallabuxur, þær þurfa að vera vel sniðnar og passa. Ég er mest hrifi af klassískri hönnun en er með mjög stílhreinan stíl. Ég blanda oft saman gömlu og nýju. Ég fer stundum í búðir sem selja tímabilsfatnað, með syni mínum sem er með mjög gott auga og við finnum ýmislegt fallegt.

Í skápnum mínum núna eru merki á borð við Isabel Marant, Humanoid, Stella McCartney, American Vintage, Versace, Ragdoll og Anine Bing. Nærföt frá La Perla og Coco de Mer.  Agent Provocateur er einnig í uppáhaldi.

Ég er lítið fyrir skart en nota mest skartgripi frá Orrifinn og þá nokkra fallega hringi. Ég fer yfirleitt ekki út nema ég sé vel til höfð, en heima er ég oft í þægilegum en fallegum innifötum. Ég vil yfirleitt vera vel til höfð fyrir sjálfa mig fyrst og fremst og líka aðra. Sérstaklega á dögum þegar ég nenni ekki á fætur og er neikvæð. Þá dreg ég mig fram úr og klæði mig í eitthvað fallegt, mála mig og geri eitthvað skemmtilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál