Reyna enn einu sinni að gifta sig í sumar

Stu Ness og Ren Gates ætla að ganga í hjónaband …
Stu Ness og Ren Gates ætla að ganga í hjónaband í sumar. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Það stóð til að Stu Ness og Ren Gates giftu sig sumarið 2020. Vegna Covid þurftu þeir að fresta brúðkaupinu um ár. Þegar ljóst var að heimsfaraldurinn var ekkert í rénun frestuðu þeir brúðkaupinu aftur en í sumar verður í þriðja sinn blásið til brúðkaups. Að þessu sinni ætla þeir ekki að láta heimsfaraldur, Pútín eða niðurfellingar á flugi stöðva sig. 

„Það er kannski ekki sérlega rómantískt að segja þetta, en nú er þetta eiginlega bara komið á það stig að ég vil bara drífa þetta af,“ segir Stu einlæglega þar sem hann sýpur á kaffi í Fornbókabúðinni Fróða á Akureyri sem hann rekur ásamt tilvonandi eiginmanni sínum Ren. Báðir eru þeir breskir en hafa verið búsettir á Íslandi frá árinu 2016. Stu viðurkennir að þessar sífelldu breytingar á brúðkaupsplönunum hafi tekið á, en nú styttist í stóra daginn en strákarnir hafa gefið það út að sama hver staðan í heiminum verður þá munu þeir giftast í sumar, með eða án gesta.
„Já, það er ekki hægt að hringla meira með þetta, nú þarf þetta bara að gerast. Pútín er ekkert að fara að stöðva þetta brúðkaup,“ segir Stu og heldur áfram.
„Upphaflega þegar við ætluðum að gifta okkur árið 2020 vildum við láta vini og fjölskyldu vita tímanlega af brúðkaupinu, enda flestir gestirnir að koma frá útlöndum. Til þess að gefa þeim tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir tímanlega byrjuðum við að auglýsa brúðkaupið árið 2019. Vorið 2020 þegar ljóst var að ekkert brúðkaup yrði vegna Covid, þurftu gestir að breyta flugmiðunum sínum og svo fóru flugfélögin líka að fella niður flug hingað. Til að gera langa sögu stutta þá frestuðum við brúðkaupinu aftur og brúðkaupið í sumar er þriðja tilraun okkar til þess að gifta okkur.“
Ren og Stu hafa farið í nokkur brúðkaup á ævinni …
Ren og Stu hafa farið í nokkur brúðkaup á ævinni sem gestir en nú ætla þeir sjálfir að binda hnútana í sumar. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Brúðkaupsgestum fækkar með hverju ári

Ren og Stu eru búnir að vera saman í 12 ár. Þeir trúlofuðu sig eftir tveggja ára samband og stefndu alltaf á giftingu.

„Svo voru bara alltaf einhver önnur verkefni sem gengu fyrir. Það var ekki fyrr en árið 2019 þegar við vorum búnir að koma okkur vel fyrir hér á Akureyri og rekstur bókabúðarinnar var kominn í gott horf að við ákváðum að láta slag standa og auglýstum að við myndum gifta okkur ári seinna. Við erum því búnir að vera að skipuleggja þetta brúðkaup í nærri fjögur ár,“ segir Stu.

Á þessum tíma hafa brúðkaupsplönin tekið töluverðum breytingum. Gestunum hefur fækkað og brúðkaupið er allt orðið minna í sniðum.

„Við eigum von á 20% af þeim gestum sem ætluðu upphaflega að koma í brúðkaupið 2020. Heimsfaraldurinn hefur einfaldlega sett stórt strik í efnahag margra. Stór hluti af mínum vinum eru til dæmis tónlistarfólk og listamenn sem hafa verið án atvinnu lengi því það hafa ekki verið neinar veislur eða viðburðir til þess að troða upp í. Þegar þú hefur verið tekjulaus í tvö ár þá er ferð til dýrasta lands í heimi ekki efst á forgangslistanum, en ég skil stöðu þeirra vel,“ segir Stu og slær á létta strengi þó hann viðurkenni að auðvitað sé hann líka leiður yfir því að hversu margir hafi boðað forföll. Hann tekur þó skýrt fram að þó gestunum hafi fækkað þá sé það alls ekki þannig að þeir Ren séu ekki að fá sitt draumabrúðkaup, síður en svo.

Strákarnir trúlofuðu sig fyrir 12 árum.
Strákarnir trúlofuðu sig fyrir 12 árum. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Óformlegt grillpartí

„Við ætluðum alltaf að halda frekar óformlegt brúðkaup, með engum höttum né ræðum. Þó svo það hafi fækkað í hópi erlendra gesta þá eigum við örugglega eftir að eiga frábæran dag með íslenskum vinum okkar og plönin hafa í raun ekki breyst, umfangið hefur bara aðeins minnkað. Upphaflega ætluðum við að gifta okkur og halda veisluna á gistiheimilinu Lamb Inn í Eyjafjarðarsveit og höfðum tekið hótelherbergi frá alla helgina fyrir gestina okkar. Samkvæmt nýjasta skipulaginu þá gista gestirnir enn á Lamb Inn en við höfum ákveðið að færa athöfnina og veisluna heim til vina okkar sem búa í einbýlishúsi með góðum garði við hliðina á hótelinu. Vonandi verður gott veður því þetta verður grillpartí,“ segir Stu en goði frá Ásatrúarfélaginu mun gefa þá saman.

Stu rekur bókabúð á Akureyri.
Stu rekur bókabúð á Akureyri. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Kynntust á bar í London

Í ljós kemur að það hefur ekki bara fækkað í hópi gesta vegna efnahagsþrenginga í kjölfar Covid. Faðir Rens hefði verið viðstaddur brúðkaupið hefði það verið haldið árið 2020 en hann veiktist alvarlega árið 2021 og lést fyrir nokkrum vikum. Það er ástæðan fyrir því að Stu er einn í viðtali um væntanlegt brúðkaup því Ren er úti hjá móður sinni. Stu játar að það sé vissulega sorglegt að tengdafaðir hans muni ekki sjá þá ganga í hnapphelduna en tengdamóðir hans sé staðráðin í því að koma í sumar. En aðeins að rómantíkinni. Hvernig kynntust þeir Ren og Stu?

„Við kynntumst á bar í London. Vinur minn dró mig með á þennan bar því hann vildi að ég hlustaði á band sem var að spila þar þetta kvöld. Ég hafði lítinn áhuga á því að fara með honum en lét tilleiðast. Ég sá Ren standa hinum megin á staðnum, við náðum augnsambandi og mér fannst hann sætur. Síðar um kvöldið fórum við á sama tíma á barinn og þar byrjuðum við að spjalla. Mér leist vel á hann en átti í raun ekki von á að það yrði eitthvað meira úr þessu en einnar nætur gaman. Sama dag hafði ég sagt upp strák sem ég hafði verið að hitta og sagt við hann að ég væri ekki tilbúinn fyrir skuldbindingar en svo vaknaði ég upp með Ren og mig langaði til þess að eyða meiri tíma með honum. Þetta var 1. desember og við fórum saman á jólamarkaðinn í Hyde Park. Síðan leiddi eitt af öðru og við höfum eiginlega bara verið saman síðan,“ segir Stu sem var greinilega tilbúinn í skuldbindingar þegar Ren birtist.

Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Völdu Ísland fram yfir Ítalíu

Þeir bjuggu saman í London í nokkur ár en svo kom að því að þá langaði til þess að breyta til. Valið stóð í þeirra huga á milli tveggja landa sem þeir voru mjög hrifnir af; Íslands og Ítalíu. „Við byrjuðum á því að fara til Ítalíu um hásumar árið 2015 í sjálfboðavinnu. Kannski sem betur fer því þá hefðum við kannski ekki endað hér. Það var allt of heitt á Ítalíu og eftir tvo mánuði vorum við fegnir að komast til Íslands,“ rifjar Stu upp. Þeir höfðu áður heimsótt Ísland nokkrum sinnum sem ferðamenn og eftir nokkrar vikur sem sjálfboðaliðar á Suður- og Norðurlandi var þeim boðin föst vinna í Vík. Síðar fluttu þeir svo til Akureyrar þar sem þeir reka nú fornbókaverslunina Fróða í Gilinu.

„Þegar við vorum hér í sjálfboðavinnu þá unnum við meðal annars við Lamb Inn-ferðaþjónustuna á Öngulsstöðum og eigendurnir urðu góðir vinir okkar. Þegar við sögðum þeim frá því að við hefðum áhuga á því að flytja norður voru þau svo elskuleg að hýsa okkur í fimm mánuði hjá sér á meðan við vorum að koma undir okkur fótunum. Þau aðstoðuðu okkur einnig við að finna vinnu og íbúð á Akureyri. Það er heima hjá þeim sem við ætlum að gifta okkur í sumar,“ segir Stu og bætir við að það sé vel við hæfi að brúðkaupið fari fram á Öngulsstöðum því væntumþykjan til fólksins þar og staðarins sé mikil. Aðspurður hvort það hafi aldrei komið til greina að halda brúðkaupið í Bretlandi þar sem stór hluti ættingja og vina er búsettur, svarar hann: „Við erum alveg búnir að fara í nokkra hringi með þetta og búnir að hugsa allskonar útfærslur; gifta okkur hér og halda svo veislu úti eða halda brúðkaupið á Zoom. En þó við séum fæddir í Bretlandi þá langaði okkur að gifta okkur á Íslandi, því hér eigum við heima. Okkur langaði til þess að sýna vinum okkar heimabæ okkar og fagna hér. Og þó allir geti ekki samglaðst okkur í eigin persónu á brúðkaupsdaginn þá veit ég að fólk verður með okkur í anda og margir eiga eftir að koma í heimsókn seinna þegar betur stendur á.“

Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál