Var eins og skakki turninn í Pisa

Vigdís Mi Diem konditor.
Vigdís Mi Diem konditor. mbl.is/Árni Sæberg

Vigdís Mi Diem konditor mælir með því að gera fallega kransaköku fyrir brúðkaupsveisluna og skreyta hana eins og listaverk. 

Þegar talað er við Vigdísi Mi Diem um kökur má heyra að hún hefur mikinn áhuga á faginu sínu sem hún lærði í Danmörku á sínum tíma. Hún er einnig með meistarapróf sem bakari og starfar nú á Reykjavík Edition þar sem hæfileikarnir fá að njóta sín. Á sínum tíma, þegar hún var að læra, vann hún meðfram námi í Sandholtsbakaríi sem er þekkt fyrir fallegar kökur.

„Áhugi minn á mat og bakstri kviknaði þegar ég fylgdist með mömmu elda þegar ég var yngri.

Áhuginn minnkaði ekki þegar ég fékk viðbrögð við því sem ég gerði, en allir voru mjög ánægðir og ég man enn þá tilfinninguna sem það hafði í för með sér.

Ástæðan fyrir því að mér finnst gaman að baka er að við bakstur slaka ég á. Eins þykja mér kökur mjög fallegar og er á þeirri skoðun að hver eftirréttur og kaka sé eins konar listaverk.“

Kransakökuna tekur sinn tíma að gera ef hún á að vera falleg

Kransakökur eru mjög vinsælar kökur í veislum landsmanna, ekki síst í brúðkaupum, en það er ákveðin færni sem þarf í að gera fallega köku sem trónir eins og listaverk á miðju veisluborðinu í brúðkaupum.

„Uppskriftin sem ég notast við er einföld, en það þarf að vanda vinnubrögðin við gerð kransaköku og hún tekur sinn tíma ef hún á að vera falleg.“

Vigdís segir að það ríki ákveðin tíska þegar kökur eru annars vegar.

„Undanfarin ár hefur verið mikið af drip-kökum og naked-kökum, en kökur eru nú að verða einfaldari. Stundum er einnig boðið upp á minni kökur fyrir gestina á meðan brúðhjónin skera skrautköku sem tekin er ljósmynd af.“

Vigdís bakaði tíu manna kransaköku fyrir Brúðkaupsblað Morgunblaðsins.

„Þetta er bara gamla góða kransakakan sem allir þekkja, en ég breytti skrautinu á henni til að gera hana brúðkaupslegri. Kakan er skreytt með ferskum blómum og hvítu súkkulaði.“

Vigdís var í tvo klukkutíma að gera kökuna en hún gerði deigið daginn áður.

Notar gjarnan hallamál núna

Þegar Vigdís giftir sig verður hún væntanlega með kransaköku svipaða þeirri sem hún gerði.

„Kransakakan verður ekki aðalkakan, en ég mun líklegast hafa hana svona og blanda eilítið af pastellitum í bland við hvítu blómin.“

Vigdís hefur verið dugleg í gegnum árin að gera kökur fyrir bæði viðskiptavini en einnig fjölskylduna og vini.

„Ég gerði eitt sinn 50 manna kransaköku fyrir fermingu hjá frænku minni þegar ég var nemi og hafði ég aldrei gert svona stóra kransaköku áður. Ég bakaði hana og allt gekk vel þar til komið var að síðasta hringnum. Þá varð kakan rammskökk hjá mér og leit meira út eins og skakki turninn í Pisa en eitthvað annað. Meistarinn minn kom mér til bjargar þá og kakan reddaðist á endanum. Eftir þetta hef ég stundum verið með hallamál til að passa að kakan sé alveg þráðbein. Ég mæli með að taka nokkur skref aftur á bak og athuga hvort kakan sé ekki bein allan hringinn, áður en maður heldur áfram með hana.“

Brúðhjónin ættu að bjóða upp á sinn smekk í kökum

Hverju mælirðu með fyrir þá sem eru að halda brúðkaup á þessu ári?

„Ég mæli bara með því að fólk sé óhrætt við að fara út fyrir rammann. Kökur þurfa ekki alltaf að vera hvítar og svo vil ég hvetja brúðhjón til að velja sína uppáhaldsköku og leyfa gestum að smakka á henni, í stað þess að setja sig um of í spor gesta og velja eftir því. Það finnst öllum gaman að prófa eitthvað nýtt, sem getur aðlagað smekk fólks á kökum mikið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál