Óskar að springa úr gleði

Óskar Guðmundsson og Daníel Ágúst Haraldsson. Þess má geta að …
Óskar Guðmundsson og Daníel Ágúst Haraldsson. Þess má geta að Daníel hefur lesið bækur Óskars á Storytel.

Glæpasagan Dansarinn eftir Óskar Guðmundsson átti mikilli velgengni að fagna á síðasta ári þegar hún kom út hjá Storytel og var ein vinsælasta bókin í þjónustunni. Bókin hlaut nýverið Íslensku hljóðbókaverðlaunin sem besta glæpasaga ársins 2021. 

Velgengni Dansarans hefur vakið mikla eftirtekt á öðrum mörkuðum Storytel víðs vegar um heiminn og brátt verður hægt að nálgast bókina hjá Storytel í Danmörku, í Svíþjóð og í Finnlandi en nýverið var gengið frá samkomulagi um þýðingar og útgáfur á Norðurlöndum. Þá er einnig verið að þýða bókina á ensku og verður því hægt að hlusta á Dansarann á ensku hjá tveim milljónum áskrifenda Storytel um allan heim. Ekki er nóg með að Dansarinn fari víða heldur keypti Storytel í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi í leiðinni einnig útgáfuréttinn að öllum fyrri bókum Óskars og munu því lesendur í þeim löndum geta lesið Hilmu, Blóðengil og Boðorðin innan tíðar.

„Það var gríðarlegur heiður að hljóta Íslensku hljóðbókaverðlaunin á dögunum fyrir Dansarann sem er fyrsti sjálfstæði hlutinn í þríleik sem mun koma út undir merkjum Storytel. Og ekki voru það síður gleðitíðindi og viðurkenning á því sem ég hef verið að skrifa þegar rétturinn að öllum bókum mínum seldist nýverið til Norðurlandanna. Þetta gefur mér byr undir báða vængi og afar spennandi tímar framundan,“ segir Óskar Guðmundsson kampakátur um söluna til Norðurlandanna. 

„Við erum svo stolt af Óskari og ánægð með að geta haft þessa milligöngu um að gefa honum verðskuldaða athygli erlendis,“ segir Elísabet Hafsteinsdóttir út­gáfu­stjóri Stor­ytel.

mbl.is