Kynntust í gegnum sameiginlega vini í Kerlingarfjöllum

Franz Friðriksson er mikill útivistarmaður sem veit fátt skemmtilegra en að vera með fjölskyldunni og skapa góðar minningar. Hann kvæntist eiginkonu sinni, henni Höllu Jónsdóttur, í Þórsmörk 18. september í fyrra í rómantískri athöfn sem var svo sannarlega í anda þeirra hjóna. 

„Við Halla kynntumst í gegnum sameiginlega vini þegar við fórum í útilegu upp í Kerlingarfjöll. Við erum bæði með brennandi áhuga á hjóla- og fjallaskíðamennsku og náðum því ótrúlega vel saman og ekki skemmdi fyrir hvað hún var fögur kerlingin,“ segir Franz, aðspurður hvernig þau Halla kynntust.

Þegar kom að því að plana brúðkaupið segir Franz að í grunninn vildu þau skapa ævintýrahelgi, þar sem þau og gestirnir ættu góðar stundir saman í umhverfi sem brúðhjónin bæði elska, Húsadal í Þórsmörk.

„Þórsmörk er algjör paradís, hinn fullkomni staður fyrir brúðkaupið okkar. Þar er hægt að bjóða 130 manns gistingu hjá Volcano Huts í herbergjum, smáhýsum, skálum og glamping-tjöldum. Einnig er þar veislusalur og eldhús.

Við létum útbúa fallega teiknað boðskort með leiðarlýsingu inn í Húsadal ásamt búnaðarlista fyrir fólk að taka með í þetta ferðalag.

Ég hafði mjög gaman af þessu og naut þess að standa í veseninu og brasinu í kringum það að halda veislu inni á fjöllum!

Það þurfti mikið skipulag og utanumhald til að láta svona viðburð gerast og er ég svo lánsamur að Halla mín sá um það. Við skiptum svo með okkur verkum og erum svo heppin að eiga frábæra vini og fjölskyldu sem við gátum sett í alls konar verkefni, en án þeirra hefði þetta aldrei verið hægt. Því ekki hefði ég getað séð um þetta allt saman sem Halla var búin að skipuleggja!“

Voru með stjórnendur í öllu

Brúðhjónin voru dugleg að setja rétt fólk yfir vandasöm verkefni.

„Það voru skipaðir brennustjórar sem sáu brennuna, flugeldasýningarstjórar sem sáu um flugeldana, ljós- og hljóðmaður, plötusnúður, umferðarstjóri yfir árnar, gítarleikari, yfirbílstjóri rútunnar, skreytinganefnd sem sá um veislusalinn ásamt eftirréttaborðinu, morgunverðarstjóri, yfirmenn reisingar á veislutjaldi, leiðsögumenn gönguferða, brúðarkjólaskreytingarstjórar, athafnarstjóri sem gaf okkur svo saman og stjórnaði athöfninni, hljómsveit til að leika undir dansiballi, veislustjórar sem stjórnuðu veisluhöldum, uppreisugengi sem reisti altari uppi á Fljótshöfða þaðan sem horft er yfir Húsadal og Markarfljót og jöklana í kring.“

Þótti skemmtilegt að taka á móti gestunum á Land Rovernum sínum

Hvað getur þú sagt okkur um stóra daginn?

„Viku fyrir brúðkaupið byrjaði eiginlega ballið en það rigndi stöðugt. Það sem gerist þá er að það vex í ánum. Þar sem veisluhöldin áttu að fara fram inni í Húsadal í Þórsmörk þá þurfi að fara yfir þó nokkrar ár og þar á meðal hina frægu Krossá. Við fórum að fá fregnir af færðinni og vatnavöxtunum sem voru ansi miklir. Það var toppað með frétt af rútu sem festist á leið inn í Þórsmörk í á sem er talin frekar lítil en var orðin að stórfljóti og bjarga þurfti fólki úr rútunni af björgunarsveitinni. Við þær fregnir fengu margir í magann og spenna byrjaði að myndast hjá mörgum gestanna. Eftir nokkur símtöl við stressaðar frænkur var ekkert annað í stöðunni en að pakka í bílinn og fara og kíkja á aðstæður. Sem betur fer hafði minnkað í ánum og komumst við á bílunum okkar yfir allar árnar og inn í Húsadal við mikinn létti allra. Strax á föstudeginum mættu fyrstu gestirnir sem stefndu á að eyða helginni í Mörkinni með okkur. Ég tók við fólki við síðustu árnar á leið í Húsadal en við höfðum þá útbúið stikaða leið sem var leiðarvísir fyrir gesti á eigin bílum, hvernig best væri að þræða þessar miklu ár – Steinholtsá og Krossá. Við áttum von á helmingi gesta á föstudag og svo hinum helmingnum á laugardagsmorgninum með rútu sem við útveguðum.

Mér þótti ótrúlega skemmtilegt að taka á móti gestunum á Land Rovernum mínum við ána og fylgja þeim síðasta spölinn og eftir helgina áttaði ég mig á því að einu myndirnar sem ég hafði tekið um helgina voru af bílum að keyra yfir árnar. Aksturinn inn eftir gekk að flestu leyti vel fyrir sig hjá öllum og voru bara tvær festur í ánni. Bæði skiptin í Steinholtsánni en annað skiptið festi töffarinn hún tengdamóðir mín sig á grjóti í ánni og svo festi rútan sig í sandbleytu þegar hún kom án farþega í prufuferð inn eftir á föstudeginum,“ segir Franz.

Það var einmitt á föstudeginum sem allir hjálpuðu til við að reisa veislutjaldið, skreyta salinn og að koma öllum búnaði fyrir og undirbúa veisluhöldin.

„Það gekk alveg eins og í sögu. Formleg dagskrá byrjaði með hádegismat á laugardeginum þar sem við buðum upp á paelluna í veislutjaldinu. Eftir hana var „leiktími“ og fór fólk ýmist í göngu eða hjólaferð og endaði saman uppi á Fljótshöfða þar sem athöfnin fór fram. Það var grenjandi ringing fram að athöfn en Halla mín horfði á veðurkortin og seinkaði athöfninni um hálftíma. Það var aldeilis þess virði því þegar Ottó frændi gaf okkur saman í þessum fallega fjallasal, þá opnuðust himnarnir með regnboga og sólskini. Eftir athöfn var svo blásið til veislu með mat, drykk og dansiballi þar sem Blúsbandið, með föður brúðarinnar í farabroddi, spilaði undir dansleik. Um miðnætti datt niður allur vindur og fengum við stjörnubjartan himin til þess að kveikja upp í brennu og halda flugeldasýningu. Við tók svo risapartí þar sem DJ Kobbi Coco þeytti skífum og sprautaði úr reykbyssunni sinni fram á rauðanótt.“

Eru góð í að leika sér saman

Brúðhjónin voru dásamlega fallega uppábúin í klæðnaði sem fór vel með náttúrunni í Þórsmörk.

„Halla keypti kjól frá Aliexpress og ég var í ullarjakkafötum frá Kölska,“ segir Franz.

Þeir sem þekkja til Höllu og Franz segja þau alveg sérstaklega skemmtilegt par og er forvitnilegt að vita aðeins meira um það.

„Eitt sinn tók ég mig til og ritaði á blað lífsgildin sem ég vildi lifa eftir, en þar er eitt þeirra að skilja aldrei eftir bremsufar í klósettinu fyrir einhvern annað að koma að. Ég held að það sé eitt af gildum í góðu hjónabandi; náungakærleikur og tillitssemi,“ segir Franz og brosir og heldur áfram að útskýra: „Nei, ég segi bara svona. Það sem virkar allavega fyrir okkur er að við leikum okkur mikið saman og sköpum okkur alveg frábærar minningar í öllum þeim ævintýrum sem við tökum okkur fyrir hendur.

Við gerum hluti saman sem við elskum og brennum fyrir, sem eru í grunninn bara ævintýri og útivera. Þar náum við ótrúlega vel að tengjast og fáum að upplifa allskonar skemmtilegt saman. Í útiverunni sem við stundum, hver svo sem hún er, fáum við útrás, súrefni og er það ákveðin hugleiðsla sem skilar okkur betur út í daginn.“

Mikilvægt að bjóða upp á góða næringu

Maturinn í brúðkaupinu var mjög góður og sá Jóhannes Steinn Jóhannesson hjá Nomy veisluþjónustu um þann hluta brúðkaupsins.

„Jói hjá Nomy veisluþjónustu kom inn í Þórsmörk. Þar byrjuðum við laugardaginn á að bjóða upp á kjúklinga- og rækjupaellur í hádeginu. Við vildum að fólk færi satt út í daginn, því það var ýmist á leið í fjallgöngu eða hjólaferð um Þórsmörkina.

Um kvöldið buðum við svo upp á fordrykk og snittur í forrétt. Aðalrétturinn var hlaðborð með lambalæri og meðlæti sem bar rosalega flott nöfn sem ég man ekki. Eftir matinn var boðið upp á frönsku súkkulaðikökuna hans Elís Árnasonar, frá Kaffi Adesso. Boðið var upp á rauðvín og hvítvín, bjór á krana og tilbúna kokteila í dósum.

Svo vildum við smala öllum saman morguninn eftir og buðum upp á morgunmat til að klára helgina sem var æðisleg stund, en þar

buðum við upp á ommelettu, brauð, jógúrt og fleira.“

„Það kemur alltaf best út að vera þið sjálf“

Franz er á því að góð stemning myndist á stað eins og Þórsmörk.

„Þegar fólk er komið á svona viðburð í paradís eins og Þórmörkin er, þarf varla að hafa áhyggjur af stemningunni.

Fólk er alltaf í góðu skapi í Þórsmörk. Svo erum við ótrúlega heppin með vini og ættingja, það var því aldrei spurning um annað en að stemningin í hópnum yrði frábær.

Við höfðum útbúið smá dagskrá fyrir helgina sem gerði fólki kleift að vera úti og leika sér á þessum paradísarstað, áður en veisluhöldin hófust og komu allir fullir orku og lífsgleði til baka.“

Franz mælir með því við öll pör sem eru að fara að gifta sig að plana brúðkaupin sín nákvæmlega eins og þau langar.

„Gerðu þetta nákvæmlega eftir þínu höfði. Þú getur sótt innblástur þangað sem þú vilt. Ekki falla í þá gryfju að þú eigir eða verðir að gera eitthvað ákveðið af því að einhver annar gerði það eða sagði. Þetta er ykkar stund, gerið hana bara eins og þið sjálf viljið og langar að hafa þetta. Það kemur alltaf best út að vera þið sjálf og ekki gleyma að njóta undirbúningsins!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál