Ekki fengið að flytja lík Haralds heim

Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir og Haraldur Logi Hrafnkelsson.
Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir og Haraldur Logi Hrafnkelsson. Ómar Óskarsson

Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir, ekkja Haralds Loga Hrafnkelssonar sem lést í eldsvoða á Tenerife í febrúar á þessu ári, hefur enn ekki fengið að flytja lík eiginmanns síns heim. Hún bíður enn niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar á Tenerife en ætlar að halda minningarathöfn fyrir Harald hinn 23. ágúst næstkomandi, en þá hefði hann orðið fimmtugur. 

Drífa opnaði sig um andlát eiginmanns síns og mánuðina eftir slysið á Instagram í vikunni og gaf mbl.is góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna. Þar segist Drífa hafa ákveðið að opna sig um þetta vegna slæms umtals og dómstóls götunnar. 

Haraldur lést í eldsvoða á heimili sínu hinn 6. febrúar síðastliðinn. Þau hjónin höfðu búið á Tenerife um nokkurt skeið ásamt börnum sínum og höfðu nýverið opnað kokteilastað.

„Við fjölskyldan vöknum á sunnudagsmorgun við að það er kominn upp eldur í húsinu okkar á Tenerife,“ segir Drífa. Elsta dóttir hennar fer á fætur, sér eldinn og gerir móður sinni viðvart sem hringir svo í neyðarlínuna. Viðbragðsaðilar koma á svæðið, koma þeim fjölskyldunni í öruggt skjól og slökkva eldinn. 

„Þegar það er búið koma þeir til mín og segjast hafa fundið manninn minn í einum af tveimur bifreiðum í bílskúrnum og hafi hann strax verið úrskurðaður látinn,“ skrifar Drífa. Hún segir þau hafa farið strax upp á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af þeim og svo fór hún í að finna hótelherbergi fyrir þau. Húsið var óíbúðarhæft og báðir bílar þeirra ónýtir. 

Eftir það hafi hún greint börnunum frá því að faðir þeirra væri látinn. Hún segir lögreglu hafa rannsakað húsið, bílskúrinn og bílana næstu daga. Eftir nokkra daga kom bráðabirgða niðurstaða frá þeim en skýrslan send til dómara. Þar beið hún einhverjar vikur eða mánuði.

Drífa hefur ekki fengið að flytja líkamsleifar Haralds heim til …
Drífa hefur ekki fengið að flytja líkamsleifar Haralds heim til Íslands.

Bjuggu á hóteli í þrjá mánuði

Næstu mánuðir fóru í bið að sögn Drífu. Þau fjölskyldan bjuggu á hóteli í þrjá mánuði á Tenerife og börnin héldu áfram skólagöngu sinni. Á meðan reyndi hún að fá svör frá spænskum yfirvöldum um hvenær hún gæti fengið lík eiginmanns síns afhent. 

„Að þessum þremur mánuðum loknum var ég komin með nokkurn veginn mynd á hvað hefði gerst þessa nótt en þó ekki komin með fullnægjandi svör hvort ég mætti taka hann með mér og því gat ég ekki gert börnunum það lengur að búa við þessar aðstæður og ákveð að bóka okkur til Íslands,“ skrifar Drífa.

Drífa segist hafa talið að þeim myndi líða betur á Íslandi en svo var ekki raunin að hennar sögn. Frá Íslandi hafi hún svo unnið í því að reyna fá ásættanleg svör og koma Haraldi heim. „Dómstóll götunnar passaði að vera alltaf á vaktinni til að gera harmleikinn okkar enn sorglegri á meðan ég reyndi að gera allt sem ég gæti í að kalla fram bros eins oft og ég gæti,“ skrifar Drífa.

Hún segir að síðustu vikur og mánuði hafi hún reynt að halda sig sem mest í útlöndum því að þar líði henni betur. Hún segist enn fremur ná betur að einbeita sér þegar hún er ekki á Íslandi. Hún hafi mætt fordómum og skilningsleysi vegna þess og heyrt út undan sér að fólk telji að henni sé alveg sama um andlát eiginmanns síns fyrst hún geti verið í útlöndum.

Óvenjulegar aðstæður

Drífa segir lögreglu fyrst hafa rannsakað hvort um sjálfsvíg væri að ræða eða hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Niðurstaðan hafi gefið til kynna að um hvorugt væri að ræða. Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýni að hann hafi verið einn á staðnum. 

Nú sé verið að rannsaka hver upptök eldsins voru fyrst Haraldur kveikti hann ekki sjálfur né nokkur annar. „Getur það verið vindill eða ofhitnaði bíllinn? Þeir eru einfaldlega ekki búnir enn að átta sig á því og því er málið enn til rannsóknar.“

Hún segir krufningu hafa sýnt að hann hafi verið með áfengi í líkamanum og ekkert skrítið við það, því þau voru í afmæli fyrr um kvöldið. Lögregla hafi hins vegar kannað hvort honum hafi verið byrlað eitthvað annað, en að niðurstöður hafi ekki gefið það til kynna. 

Hún segir myndavélar sýna að hann hafi komið einn heim, lyklalaus, seint um nóttina. „Hann sest inn í bíl, ræsir vélina, kemur sér vel fyrir í sætinu og leggur sig.“

Eftir um 20 mínútur hafi hann gengið að húsinu og sest svo aftur inn í bíl. „Tæplega tveimur klukkustundum seinna byrjar reykur að koma frá bílnum, svo eldur og síðan sprenging og þá vöknum við öll og matröðin hefst sem við erum enn í,“ skrifar Drífa.

Fengið aðstoð sex lögfræðistofa

Drífa segist vera búin að fá aðstoð frá sex lögfræðistofum á Tenerife, Spáni og á Íslandi. „Ég er búin að vera í sambandi við ræðismenn úti og dómsmálaráðuneytið og einnig hefur yfirmaður rannsóknarinnar reynst mér mjög vel. Ég er einnig búin að ráða þýðanda sem hefur hellt sér í þetta með mér því hann vorkennir mér svo að fá ekki svör,“ segir Drífa. 

Á meðan biðinni stendur hafi hún reynt að púsla fjölskyldunni saman og reynt að búa til betra líf fyrir þau. Nú hafi hún svo krafist þess að fá líkamsleifar hans og dánarvottorðið.

Minningarathöfn ætlar hún að halda á Íslandi í ágúst á 50 ára afmælisdegi hans. „Hann var mjög spenntur fryri þessum degi og hlakkaði mikið til að halda upp á fimmtugsafmælið sitt,“ skrifar Drífa að lokum. 

Síðustu vikur hefur Drífa eytt á Spáni en kom til Tenerife og segir enn fremur á Instagram að það hafi verið mjög erfitt að koma aftur til eyjunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál