„Strákurinn minn hefur ekki talað við mig í fjögur ár“

Ellý Ármannsdóttir er gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar.
Ellý Ármannsdóttir er gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ellý Ármanns er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Í þættinum talar Ellý um gjaldþrotið og erfiðustu tímabilin, sem hún segist í dag þakka guði innlega fyrir, því að það hafi styrkt hana og gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag.

„Ég hef þurft að fara í gegnum erfiða tíma og þau tímabil hafa kennt mér að standa með sjálfri mér á hverjum degi. Það gerist ennþá mjög reglulega að það komi upp að mér fólk sem man eftir gömlu Ellý og vill gömlu Ellý og getur ekki sætt sig við að ég er breytt. Fólk sem segir að ég eigi ekki að mála og að ég eigi að gera eitthvað annað en það sem ég elska. Það er búið að ákveða að ég eigi að vera í ákveðnu boxi og verður að láta það í ljós. Ég er orðin mjög góð í að láta svona fara inn um annað eyrað og út um hitt. Ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend og á hvaða vegferð ég er,” segir Ellý, sem notar ákveðnar æfingar til að hjálpa sér við að minna sig á þetta.

„Ég horfi í spegilinn á hverjum morgni og segi: ,,Ellý, ég elska þig og stend með þér eins og þú ert. Ég er besta vinkona þín sama hvað aðrir segja. Í dag stend ég með þér.” Svo fer ég fram og fæ mér kaffi og fer inn í daginn minn og því oftar sem ég geri þetta því betur finn ég að þetta virkar.” 

Ellý segist hafa farið í gegnum eins konar þjálfunarbúðir í áliti annarra oftar en einu sinni á ævinni.

„Einu sinni var ég til dæmis að skrifa slúður fyrir Vísi og yfirmenn mínir sögðu mér að ég ætti að taka það upp á næsta „level” og gera það eins og breska pressan gerir það. Ég hlýddi því bara og vann vinnuna eins og mér var sagt, en ég byrjaði að fá frunsur og mér leið mjög illa. Á þessum tíma var Facebook frekar nýtt fyrirbæri og það var stofnuð Facebook-síða með titlinum „Rekið Ellý Ármanns,” og ég man ekki hve mörg þúsund manns settu like á síðuna. Auðvitað var það ekki gaman, en ég man að ég stóð með sjálfri mér og ákvað að klára þetta verkefni með hausinn uppréttan. Ég sé núna að þetta tímabil kenndi mér að taka gagnrýni og var í raun eins konar þjálfunarbúðir í áliti annarra.”

Ellý segir að þegar maður komist á góðan stað læri maður að kunna að meta alla erfiðleikana sem maður hefur farið í gegnum, af því að þeir styrki mann og geri mann á endanum að betri manneskju.

„Í dag segi ég bara takk innilega fyrir gjaldþrotið, takk fyrir alla erfiðleikana, takk fyrir þetta glataða samband sem ég var í, það var hræðilegt, en það kom mér á staðinn sem ég er á í dag. Ef þessir hlutir hefðu ekki gerst, væri ég ekki að mála, spá fyrir fólki og gera það sem ég elska. Mér finnst eins og ég sé 10 ára alla daga og ég er með manni sem elskar að ég sé öðruvísi en aðrir og allt þetta glataða var í raun dúlbúin blessun, sem ég er svo þakklát fyrir. Þetta er allt saman frábært, þó að ég óski engum þess að fara í gegnum svona erfiða hluti. En það er í raun ekkert á milli þess að vera fórnarlamb eða sterkur. Maður verður að velja. Ég vel að vera ljón og vera sterk. Alla daga. Stundum er ég alveg að byrja að detta í fórnarlambið, en sem betur fer er ég fljót að stoppa mig af og halda alltaf áfram.”

Þegar talið berst að yngri kynslóðinni segist Ellý vera gríðarlega bjartsýn. Hún segir börn og unglinga á Íslandi upp til hópa vera miklu tilfinningalega opnari en fyrri kynslóðir voru á sama aldri og telur framtíðina bjarta. En það heyrist að hún verður örlítið þögul og hugsi þegar talið berst að syni hennar sem hún er ekki í sambandi við.

„Nú fer ég að hugsa um hin son minn sem talar ekki við mig. Hann lokaði á mig og ég er ekki búin að heyra í honum í fjögur ár. Ég rak hann að heiman. Ég var ekki góðu jafnvægi sjálf á þessum tíma og hann fór út af réttri braut og ég rak barnið mitt í burtu að heiman af því að hann var að gera hluti sem hann átti ekki að gera. Mig langar mjög mikið að heyra í honum og ég reyni reglulega að senda honum skilaboð eða ná til hans, en hann vill ekki tala við mig. En þarna verð ég að vera í trausti. Ég get farið undir sæng og grátið, en hann býr hjá pabba sínum og ég verð bara að treysta því að allt sé eins og það á að vera. Ég sé auðvitað eftir þessu og ég elska barnið mitt af öllu hjarta. Ég veit að hann er að læra, en hann er reiður. Ég verð að líta á þetta sem lærdóm og treysti því að við munum ná saman. En ég stýri því ekki hvort það gerist eftir viku eða 10 ár. En ég vona að hann viti af mér og að ég vilji ekkert meira en að við munum aftur eiga heilbrigð og góð samskipti.”

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál