„Það kom tímabil þar sem ég fékk mikla neikvæða athygli“

Nökkvi Fjalar er gestur Sölva Tryggvasonar.
Nökkvi Fjalar er gestur Sölva Tryggvasonar. Ljósmynd/Aðsend

Nökkvi Fjalar Orrason er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann hefur verið í sviðsljósinu síðan hann var unglingur og blómstraði þegar hann var í Versló. 

„Það var frábært tímabil að fá að byrja að gleðja fólk þegar ég var í Versló og fá að læra allt það sem ég lærði svona ungur. Í Versló byrjaði ég líka að fá utanaðkomandi athygli í gegnum tólf núll núll, sem varð síðan að Áttunni. Við fengum tilboð frá mörgum fjölmiðlum eftir Versló og enduðum á að semja við sjónvarpsstöðina Bravó. Þetta var frábært tímabil, en ég var fyrst um sinn dálítið mikið í því að vilja láta mína stjörnu skína, í stað þess að leyfa öllum að vera með. Það var orðið smá „blindspot“ hjá mér að vilja skína of mikið sjálfur. Það virkar alltaf best þegar allir fá að blómstra saman. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa gott fólk í kringum sig og maður nær takmörkuðum árangri bara einn síns liðs.”

Nökkvi hefur oft verið á milli tannanna á fólki og segir það stundum hafa tekið á, en núna sé hann orðinn þaulvanur því og hættur að taka því persónulega ef einhver hefur neikvæðar skoðanir á honum eða verkum hans. 

„Það kom tímabil þar sem ég fékk mikla neikvæða athygli og ég ætla ekki að neita því að það var stundum erfitt. Ég fékk líka mikla jákvæða athygli, en það tók svolítið á að fá mikla athygli svona ungur. Ég byrjaði fljótlega að temja mér að lesa ekki það sem var skrifað og sagt um mig sem var mjög neikvætt. En svo gerist það oft að fólkið í kringum mann fer að segja manni frá þessum hlutum. Þó að því gangi gott til, þá er það oft eina ástæðan fyrir því að maður sér að einhver sé að segja eitthvað neikvætt um mann. En ég valdi mér þetta hlutskipti og smám saman venst það að fólk sé með skoðanir á þér og maður hættir að taka það of persónulega. Ef að maður er með skýr gildi og markmið og veit hvert maður er að fara, hættir maður að vera eins og lauf í vindi út af umtali annars fólks. Ég er sjálfur orðinn mjög góður í að kippa mér lítið upp við alls kyns umtal, en ég hef á mínum ferli séð marga brotna undan neikvæðu umtali og fá það gjörsamlega á heilann.“

Nökkvi býr nú í London og rekur þar fyrirtæki sitt, eftir að hafa skipt um takt og hætt í Áttunni.

„London hefur verið draumaborgin mín alveg síðan ég var barn, þannig að það er frábært að fá að láta æskudrauminn rætast á þennan hátt. Mér líður mjög vel í London og finnst ég strax vera á heimavelli þar, en það er auðvitað miklu flóknara að ná hlutum í gegn á svona stóru markaðssvæði. Það sem tekur einn dag á Íslandi tekur kannski viku í London. Það tekur langan tíma að láta það verða að veruleika að færa sig svona um set og skipta um takt á ferlinum. Ég hef alveg frá árinu 2016 fundið það að ég vildi ekki vera bara skemmtikraftur á Íslandi. Alveg síðan þá hef ég verið að vinna að því sem nú er að gerast. Að reka mitt eigið fyrirtæki í London ásamt samstarfsfélögum mínum.”

Nökkvi hefur vakið athygli fyrir mjög agaða daglega rútínu, þar sem hann meðal annars fastar, vaknar eldsnemma og borðar hollt. 

„Aginn kemur beinlínis frá ástríðunni. Ég á auðvelt með að aga mig af því að ég elska það sem ég er að gera og veit hvert ég er að fara. Ég skil það mjög vel að fólk eigi erfitt með að vera agað ef því leiðist það sem það er að gera eða það vantar alla ástríðu. Aginn er þannig ekki persónueinkenni. Ef þú myndir til dæmis tala við kennarana mína úr skóla myndu þeir ekki segja að ég hafi verið agaður, af því að mér leiddist margt í skóla. Fyrsta skrefið í að bæta venjurnar sínar er að mínu mati að byrja á að horfa mjög heiðarlega á stöðuna og  gera sér fulla grein fyrir því hvar maður er staddur. Fyrsta skrefið er að sjá það og ákveða svo hvaða skref maður vill taka fyrst. Svo er lykilatriði að vita hvert maður er að fara. Það verður til mikil gjá hjá mörgum á milli raunveruleikans og þess sem það vill vera. Ef gjáin er orðin of stór vex það fólki í augum að byrja að gera breytingar.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál