Gerast ótrúlegir hlutir þegar maður sleppir örygginu

Arnar Þór Jónsson lögmaður.
Arnar Þór Jónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður, er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Arnar hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir að viðra skoðanir sem ganga gegn meirihlutaskoðunum. Hann segir það mikið frelsi að vera samkvæmur sjálfum sér og segja það sem maður er að hugsa. 

„Það gerast einhverjir töfrar þegar maður fer í þá vegferð að feta sína eigin braut og þora að vera trúr sjálfum sér. Það gerast ótrúlegir hlutir þegar maður sleppir örygginu og fer út í óvissuna og eltir það sem maður telur vera sitt hlutverk. Það býr líka til annars konar tengingu við annað fólk, af því að maður er sannur sjálfum sér og hættur að vera bara gangandi gríma. Svo er með ólíkindum hvað maður fær mikið af þöglum stuðningi þegar maður þorir að tjá skoðanir sem fæstir þora að tjá opinberlega. Ég hef ekki tölu á stuðningsskilaboðum frá fólki sem er sammála mér, en vill ekki tjá það opinberlega.”

Arnar segist verða hálfmyrkfælinn og dapur þegar hann áttar sig á því hve margir eru fastir í hlutverki og á bakvið grímu.

„Ég hef mikið verið að velta fyrir mér orðinu „persona“. Grikkirnir notuðu þetta orð í leikhúsunum, þar sem það merkti í raun gríma. Við erum oft að tala við hvort annað út frá hlutverkum og grímu. Á bak við hlutverkin okkar og grímuna er hinn raunverulegi „ég“, einhvers konar kjarni sem við felum oft bara af ótta við að vera berskjölduð. Við erum öll með þennan ótta og það er held ég ein af skýringum þess að fólk á erfitt með að standa með sjálfu sér og vera með skoðanir sem eru ekki meirihlutaskoðanir. Það er þægilegra að fela sig bara á bakvið grímuna og halda sig við einhvers konar handrit. Ég er stundum að tala við fólk og í miðju samtalinu átta mig á því að ég er ekki að tala við þann sem ég held að ég sé að tala við. Ég er bara að tala við grímu og mér er svarað samkvæmt handriti. Ég verð myrkfælinn þegar ég fatta þetta og það slær mig óhug.“

Hann segir að rétttrúnaðurinn sem ráði ríkjum á Vesturlöndum í dag sé á ákveðinn hátt algjörlega sambærilegur kirkjunni í gamla daga, nema búið sé að taka út það besta. 

„Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika á Vesturlöndum í dag að vera gegnsýrð af kristnum siðaboðskap, sem væri kannski allt í góðu eitt og sér. En það er bara eitt vandamál. Það er búið að taka guð, fyrirgefninguna og alla mildi og náð út. Í rétttrúnaðarkirkju samtímans erum við með sömu hluti og hafa fylgt kirkjunni í gegnum tíðina. Við erum með kredduna, æðstu prestana, rannsóknarrétt, ákæruvald, dóma og fólk er meira að segja pínt til að setja í skriftarstólinn og iðrast. Semsagt öll stofnanaumgjörðin er til staðar, en sálin er horfin, af því að það vantar guð, mildi og fyrirgefningu. Við verðum að spyrja okkur hvort þetta sé það sem við raunverulega viljum.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Arnar Þór á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál