LXS þáttunum mest lítið leikstýrt

Ingileif Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Ketchup Productions.
Ingileif Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Ketchup Productions.

Ingileif Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Ketchup Productions er leikstjóri LXS þáttanna sem sýndir eru á Stöð 2. Þættirnir fjalla um fimm vinkonur sem lifa hinu ljúfa lífi og leyfa áhorfendum að skyggnast á bak við tjöldin. Ingileif segir að stelpurnar í LXS hópnum séu misskildar og fullyrðir að þær séu mjög klárar og með allt sitt á hreinu. 

„Ég er framkvæmdastjóri Ketchup Productions sem hefur síðastliðið ár framleitt fjölda sjónvarpsþáttasería, þar sem ég hef bæði komið að framleiðslu, þáttastjórn og leikstjórn. Hugmyndin að LXS þáttunum kviknaði fyrr á árinu og samstarf hófst á milli okkar, Stöðvar 2 og LXS hópsins. Ég og Arnar Már samstarfsfélagi minn tókum verkefnið áfram, hann sem framleiðslustjóri og ég sem leikstjóri. Við vorum ótrúlega heppin að fá að vinna með LXS hópnum og það var virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni með þeim,“ segir Ingileif aðspurð að því hvernig það hafi komið til að hún tók að sér að leikstýra þáttunum. 

Hvernig hefur þér fundist gagnrýnin á þættina?

„Við bjuggumst alveg við gagnrýni, enda hefur LXS hópurinn yfirleitt vakið mikla athygli fyrir sín störf. Á meðan gagnrýnin er þannig að það sé farið í boltann en ekki manninn finnst mér hún í lagi og eðlilegt þar sem fólk er sem betur fer ekki alltaf sammála,“ segir hún. 

Á hvaða hátt er þáttunum leikstýrt og hvað er lagt upp með í handritinu fyrir hvern þátt?

„Við vorum í raun og veru eins og flugur á vegg. Þáttunum er mest lítið leikstýrt svo mitt hlutverk var aðallega að halda dampi á tökudögum og passa að allt gengi smurt fyrir sig. Stelpurnar lögðu upp með það frá upphafi að þær fengju að vera þær sjálfar og myndu ekki leika neitt svo þannig unnum við þættina. Þær vöndust því fljótt að vera fyrir framan myndavélarnar og þetta var allt mjög náttúrulegt. Það var ekkert handrit fyrir þættina og allt sem þær sögðu var beint frá þeim komið. Það eina sem var sett niður á blað var umgjörðin og það sem við gerðum í hverjum þætti, svo hægt væri að skipuleggja tökur. Við unnum þættina út frá þeirra dagskrá,“ segir hún. 

Hvernig var vinnsluferlið? 

„Tökumenn okkar fylgdu þeim eftir og þeirra dagskrá. Þær stýrðu ferðinni en við sáum um að klippa og koma þessu í þann farveg að úr varð sjónvarpsefni. Við hefðum getað elt þær allan daginn en þurftum að leggjast yfir þeirra dagskrá og sjá hvað hentaði þættinum best. Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst með framleiðslu þáttanna.“

Er það rétt að um eina stóra auglýsingu sé að ræða? 

„Nei, bara alls ekki. Sú umræða er algjörlega á villigötum og ég veit ekki hverjar hvatir þeirra sem settu hana af stað eru. Við unnum seríuna fyrir Stöð 2 og tekjurnar koma þaðan fyrir framleiðslu þáttanna. Þetta er vissulega raunveruleikaþáttur um konur sem vinna margar hverjar sem áhrifavaldar og fyrir vikið starfa þær með hinum ýmsu fyrirtækjum. Til að mynda þegar Birgitta sést í vinnunni sinni hjá World Class er það einungis vegna þess að við erum að fylgja henni eftir í hennar daglega lífi, en ekki vegna þess að um kostaða auglýsingu sé að ræða. Ketchup er fjölbreytt fyrirtæki og hefur framleitt auglýsingar, markaðs- og afþreyingarefni síðastliðin fimm ár. Sjónvarpsþáttaframleiðsluna höfum við byggt upp síðasta árið og erum gríðarlega stolt af þeim verkefnum sem við höfum skilað af okkur. Hvort sem er í formi sjónvarpsframleiðslu eða auglýsingagerðar.“

Þegar Ingileif er spurð að því hvort hún sé komin í LXS hópinn hlær hún. 

„Nei, ég held að ég sé best geymd á bak við myndavélina í þeim skilningi. En mér þykir auðvitað mjög vænt um þær og hef haft gaman af því að starfa með þeim við gerð þáttanna.“

Þú ert sem sagt ekki farin að drekka með þeim búbblur?

„Við skáluðum að sjálfsögðu þegar fyrsti þátturinn fór í loftið, enda langtímaverkefni loksins að verða að veruleika. Ég drekk nú reyndar ekki áfengi sjálf en naut þess að fagna þáttunum með þeim og samstarfsfólki mínu.“

Stelpurnar í LXS hópnum hafa verið gagnrýndar töluvert. Þegar Ingilef er spurð að því hvort henni finnist meðlimir hópsins vera misskildir játar hún því.  

„Já, að mörgu leyti. Ég held að þær séu oft vanmetnar. Þær eru ótrúlega klárar og með allt sitt á hreinu. Þetta eru harðduglegar og flottar stelpur sem vilja vel. Þær hafa mikinn húmor fyrir sjálfum sér og það skín í gegn í þáttunum,“ segir Ingileif. 

Talið berst að næstu þáttaröð LXS hópsins. Á að framleiða aðra þáttaröð? 

„Aðeins tíminn mun leiða það í ljós! Það er að minnsta kosti af nógu að taka,“ segir hún. 

mbl.is