„Við vorum lúbarðar eins og karlarnir“

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu er gestur Sölva Tryggvasonar.
Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/RAX

Arnþrúður Karlsdóttir er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Arnþrúður, sem var ein fyrsta lögreglukona Íslands og á 40 ára feril í fjölmiðlum, rifjar upp gamla tíma í þættinum. 

„Ég byrjaði á gömlu gufunni fyrir 40 árum síðan, þannig að þetta er orðinn býsna langur ferill í fjölmiðlum. Þá byrjaði ég á Rás 1 og það voru engar frjálsar stöðvar til. En svo var ákveðið á Alþingi að útvíkka það, sem varð síðan óskabarn þjóðarinnar, Rás 2, sem átti að taka inn meiri tónlist og ég var fenginn í þann hóp sem átti að koma Rás 2 af stað á sínum tíma. Þar áttaði ég mig enn betur á því hve skilvirkur og skemmtilegur miðill útvarpið er. En tímarnir voru aðrir og það var ekki allt leyft. Fram að þessum tíma hafði ekki mátt spila dægurlög og það þótti á mjög gráu svæði. Það var alveg á mörkunum að spila Ragga Bjarna eða sumargleðina til dæmis. Fólki þætti það fáránleg hugmynd í dag að banna dægurlög, en svona var þetta.”

Arnþrúður var ein fyrsta konan í lögreglunni á Íslandi. Hún segir það hafa byrjað sem veðmál milli hennar og kvennanna sem kepptu með henni í gullaldarliði Fram í handbolta. 

„Þetta var ákveðin ævintýramennska og mér fannst spennandi að prófa. Við stelpurnar í handboltanum höfðum látið að okkur kveða og ákváðum að veðja um hver af okkur þyrði að fara í lögguna. Ég er ein af fyrstu konunum sem útskrifaðist úr lögregluskóla ríkisins. Við vorum nokkrar konur sem vorum fullgildir lögreglumenn á þessum tíma og gengum í öll störf til jafns við hina. Þetta var pínulítið sérkennilegt fyrst um sinn, þar sem karlarnir voru aðeins óttaslegnir fyrir okkar hönd, sem ég held að hafi reyndar aðallega verið föðurleg umhyggja. Þetta hafði verið karlastétt og þeir voru kannski hræddir um að við myndum ekki ráða við átök eða slasast í starfinu og það gerðist síðan stundum. Við vorum lúbarðar eins og karlarnir og lentum í slysum. Á þeim tíma var afbrotaheimurinn öðruvísi og það var miklu meira um slagsmálahópa fyrir utan skemmtistaði og verið að skilja á milli í líkamlegum átökum. Þannig að stundum reyndi meira á aflið en hugsunina. En í dag eru brotaflokkarnir þyngri og meira um skipulögð afbrot.“

Arnþrúður stofnaði á sínum tíma Útvarp Sögu, sem hefur nú verið í loftinu samfellt í nærri 20 ár. 

„Þetta var eins og margar góðar hugmyndir eitthvað sem gerðist mjög hratt. Við ákváðum frá fyrsta degi að vera fyrst og fremst talmálsrás og það fylgir því mikil vinna. Síðan stöðin fór í loftið hef ég eiginlega alla tíð verið útvarpsstjóri sem er líka starfsmaður á plani og það er í mörg horn að líta og mikið álag. Bæði að skipuleggja alla dagskrá, reka stöðina og svo er ég líka sjálf með þætti. Þetta er orðinn langur tími sem við höfum verið í loftinu og rekstarumhverfið hefur alltaf verið erfitt. Þannig að það er í raun ákveðið afrek að hafa verið í loftinu samfellt í 20 ár.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.  

mbl.is