Gleymdi að hún ætti íbúð í Beverly Hills

Kris Jenner er svo rík að hún gleymdi að hún …
Kris Jenner er svo rík að hún gleymdi að hún ætti íbúð í Beverly Hills. AFP

Auðævi raunveruleikastjörnunnar og umboðsmömmunnar Kris Jenner eru svo mikil að hún gleymdi því á dögunum að hún ætti íbúð í Beverly Hills í Bandaríkjunum. Jenner sýndi íbúðina í nýjasta þætti Kardashians í vikunni, en fór þó ekki með áhorfendum um alla íbúð því hún var búin að gleyma að hún ætti hana. 

„Þetta er voða sæt og lítil íbúð verð ég að segja,“ sagði hin 66 ára gamla Jenner við dóttur sína Khloé Kardashian sem bætti við að mamma hennar hefði gleymt að hún ætti þessa íbúð. Kardashian spurði hana svo hvenær hún eyddi einhverjum tíma síðast í íbúðinni. 

Þá sagðist Jenner síðast hafa notað íbúðina til að pakka inn jólagjafir og sem „verkstæði jólasveinsins“. 

„Ég get ekki beðið eftir því að verða svo rík að ég gleymi að ég á eignir hér og þar,“ sagði Kardashian og sagði svo með breskum hreim: „Ó, ég á íbúð í Beverly Hills! Ég var búin að gleyma því!“

Jenner útskýrði svo seinna að hún hefði ákveðið að kaupa íbúðina til að geta verið nær móður sinni, Mary Jo, og frænku sinni Cici Bussey, sem búa báðar í grenndinni. „Ég bara gleymdi að hún væri þarna. Ég veit það hljómar fárlánlega, er það ekki?“ sagði Jenner.

Íbúðin í Beverly Hills.
Íbúðin í Beverly Hills. Skjáskot/Kardashians
mbl.is