Missti fjögur börn og lenti svo í slysi sjálfur

Hafsteinn Númason er gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi hans.
Hafsteinn Númason er gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi hans. Skjáskot/YouTube

Hafsteinn Númason er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hafsteinn hefur gengið í gegnum nokkuð sem er nánast óhugsandi; að missa fjögur börn, þar af þrjú í snjóflóðunum á Súðavík. Í þættinum segir hann meðal annars frá deginum örlagaríka fyrir vestan. 

„Það gerði bandvitlaust veður þennan dag. Maður var ýmsu vanur, en þetta var algjört aftakaveður. Við stoppuðum um nóttina undir Grænuhlíð, af því að skipstjórinn lagði ekki í að fara inn í land í þessu veðri. Svo daginn eftir var aftur gerð tilraun til að fara inn í land, en veðrið hreinlega leyfði það ekki. Svo man ég að stýrimaðurinn kemur inn til okkar og segir að það hafi fallið snjóflóð við frystihúsið. Ég man að það fyrsta sem ég sagði var: „Þá hefur það fallið á húsið mitt.“ Strákarnir reyndu að segja mér að það væri bara þvæla, en þá sýndi ég þeim mynd af Súðavík og hvar húsið mitt væri staðsett. Mig grunaði samt ekki að neitt svona hræðilegt gæti hafa gerst. En svo fékk ég að hringja í land og þá er mér sagt að húsið mitt sé horfið og konan mín sé á lífi, en börnin séu týnd.“

Samhugur þjóðarinnar ómetanlegur

Hafsteinn segir erfitt að lýsa því hvernig honum var innanbrjósts eftir þetta símtal. 

„Það helltist yfir mig svartnætti og ég var bara í losti. Tíminn þangað til við komumst í land var hræðilegur. Ég man að ég hugsaði meira að segja með mér að fara í flotgalla og reyna að synda í land. Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef ég hefði gert það, en ég náði að hafa stjórn á mér. Þegar við komumst svo loksins í land fór ég strax inn í frystihúsið þar sem allir höfðu komið saman. Þar blasir við mér yngsti sonur minn á borði, þar sem var verið að reyna lífgunartilraunir á honum. Hann lést svo á borðinu. Lá þarna á bleyjunni alveg hvítur og höndin á honum var ísköld þegar ég tók í hana. Það er engin leið að reyna að lýsa því hvernig tilfinningin var. Ég reyndi að hugga konuna mína og við vorum bara í algjöru losti.“

Hafsteinn segir að næstu dagana hafi samhugur þjóðarinnar verið ómetanlegur.

„Það var verið að reyna áfallahjálp, en verkefnið var svo stórt að það var erfitt að halda utan um hana. En við sem höfðum misst fólkið okkar vorum öll saman næstu dagana og það var algjör lífsbjörg. Samhugurinn í öllum skilaði sér til okkar og hélt í okkur lífinu. En það var svo mjög skrýtið þegar við komum suður til Reykjavíkur. Við vorum með eina tösku og vorum eins og flóttafólk og smám saman byrjaði þjóðin að hugsa um aðra hluti og þá helltist yfir okkur svakalegur einmanaleiki. Við vorum algjörlega umkomulaus,“ segir hann.

Líf eftir dauðann

Hafsteinn missti svo fjórða barnið nokkru síðar og lenti auk þess í alvarlegu slysi. Það hefur verið meira á hann lagt en flestir munu nokkurn tíma skilja. Hann segir tilgang með öllu og er viss um að það sé einhver ástæða fyrir því sem á hann hefur verið lagt.

„Ég fékk einu sinni að sjá dóttur mína löngu eftir að hún dó og það gaf mér gríðarlega mikið. Ég er ekkert sérlega trúaður, en ég trúi á líf eftir dauðann. Það var í 20 ára minningarathöfn um snjóflóðin. Athöfnin var að byrja og Fjallabræður voru að syngja gríðarlega fallegt lag og ég var við það að brotna saman. En allt í einu skynja ég eitthvað og lít upp og svo allt í einu birtist dóttir mín og hún var orðin fullorðin, nema með sömu hárgreiðslu og þegar hún var ung. Það var grallarasvipur á henni. Ég var í losti allt kvöldið og þetta gaf mér ofsalega mikið og ég gleymi þessu ekki á meðan ég lifi.“

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda