Sólrún Diego tekur við nýju starfi

Sólrún Diego hefur verið ráðin til Vonar og Bíum Bíum.
Sólrún Diego hefur verið ráðin til Vonar og Bíum Bíum.

Samfélagsmiðlastjarnan og metsölubókahöfundurinn Sólrún Diego hefur verið ráðin markaðsstjóri barnavöruverslananna Vonar verslunar og Bíum Bíum. Viðskiptablaðið greinir frá. 

„Ég er mjög spennt að spreyta mig á þessu sviði og að vinna með þeim Eyrúnu og Olgu. Ég er búin að vera með minn miðil í sjö ár og finnst vera kominn tími á að nýta menntun mína í eitthvað almennilegt,“ segir Sólrún en hún útskrifast um jólin úr viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti og samfélagsmiðla frá Háskólanum í Bifröst.

Sólrún er einn vinsælasti áhrifavaldur á Íslandi í dag með yfir 45 þúsund fylgjendur á Instagram. Hún hefur á síðustu árum meðal annars gefið út skipulagsbók og bók um heimilishald. Hún heldur einnig út hlaðvarpsþáttunum Spjallið, með Línu Birgittu Sigurðardóttur og Guðríði Jónsdóttir. Var Sólrún í Tekjublaði Frjálsrar verslunar, sem gefið var út í ágúst á þessu ári, með tekjur skráðar upp á 534 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári.

Þær Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir, eigendur Vonar verslunar, gengu nú á dögunum frá kaupum á Bíum Bíum.

Mikil tækifæri í netverslun og samfélagsmiðlum

Von verslun hefur boðið upp á leikföng, húsgögn, föt og aðrar barnavörur en Bíum bíum hefur sérhæft sig í fjölbreyttu úrvali af barnafötum fyrir breiðari aldurshóp. Þannig er verslunin með einkadreifingarsamning við vörumerki frá Danmörku sem hafa notið vinsælda hér á landi.

„Ég er búin að vera mikill viðskiptavinur Bíum Bíum síðan ég eignaðist börn, og hefur hún verið mín uppáhaldsbarnavöruverslun hér á landi. Ég hef auk þess brennandi áhuga á markaðssetningu og barnavörum. Þá hef ég átt í góðum samskiptum við þær Eyrúnu og Olgu, en eftir að þær keyptu Bíum Bíum fengum við þessa hugmynd að ég myndi sjá um markaðssetningu verslunarinnar,“ sagði Sólrún í viðtali við Viðskiptablaðið.

Eyrún og Olga hyggjast reka verslanirnar áfram, hvora undir sínu nafni. Markmiðið sé þó að verða sér úti um stærra húsnæði sem rúmar báðar verslanir undir sama þaki. Auk þess leggja þær áherslu á að styrkja netverslunina og hafa verslanirnar sýnilegar á samfélagsmiðlum. Sólrún segir alls konar tækifæri liggja í netverslun og samfélagsmiðlum.

„Ég ætla að leggja áherslu á að aðgengi að netversluninni sé gott og að fólk úr öllum landshlutum geti skoðað og pantað sér vörur, að þú þurfir ekki að koma í búðina. Það eru því mörg tækifæri fram undan að gera alls konar nýtt og ég er spennt að fá að koma öllum mínum hugmyndum á framfæri,“ sagði Sólrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál