„Ég var edrú inni í fangelsinu“

Inga Lind er 48 ára og er gestur hlaðvarpsins, Sterk …
Inga Lind er 48 ára og er gestur hlaðvarpsins, Sterk saman.

Inga Lind Gunnarsdóttir er 48 ára orkubolti sem hefur upplifað ýmislegt á ævi sinni. Hún eignaðist barn 15 ára gömul og sat inni um tíma vegna fíkniefnasmygls. Hún er nýjasti gestur hlaðvarpsins, Sterk saman.

Inga Lind ólst upp hjá mjög veikri móður ásamt tveimur bræðrum sínum og einni systur, sjö árum eldri. 

„Mamma eignaðist í heildina tíu börn, hún gaf þrjú og tvö dóu,“ segir hún. 

Barnæska Ingu Lindar var í besta falli hrikaleg. Það var fyllerí á móður hennar og íbúðin full af fólki, slagsmál og yfir höfuð ekki umhverfi sem börn eiga að búa við.

„Ég man að það var ekki til matur, mamma vakti mig stundum á nóttunni til að kenna mér að telja á spænsku eða eitthvað álíka vitlaust,“ segir hún. 

Þegar Inga Lind var fimm ára var hún misnotuð í fyrsta skipti. 

„Ég man eftir skömminni og ég vissi að þetta væri rangt og ég mætti ekki segja frá. Það var frændi minn sem misnotaði mig fyrst,“ segir hún.

Þrátt fyrir allt ókunnuga fólkið sem var alltaf á staðnum var það frændi minn, bætir hún við en á barnsaldri var hún misnotuð af þremur mönnum sem voru úr hennar innsta hring.

„Stjúppabbi minn til nokkurra ára, sem mamma kynntist í meðferð, misnotaði mig og beitti mömmu og bróður minn miklu ofbeldi. Rotaði bróður minn tvisvar meira að segja. Hann var á heimilinu í um það bil þrjú ár, þó ég muni ekki alveg,“ segir hún.

Aðeins 13 ára drakk Inga Lind í fyrsta skipti og það var eitthvað sem hún vildi gera aftur sem fyrst þrátt fyrir að það hafi endað illa. Hún drakk við öll tilefni eða í hvert sinn sem hún komst í áfengi og þá í þeim tilgangi að komast í „blackout“ ástand. 

Aðeins 15 ára varð Inga Lind ólétt en þá bjó hún hjá kærasta sínum og foreldrum hans. Hún eignaðist son sinn og flutti til móður sinnar því barnsfaðir hennar var ekki tilbúinn í þetta hlutverk. Inga Lind gerði sér enga grein fyrir ábyrgðinni sem fylgdi því að eignast barn og eftir að hún flutti með son sinn til móður sinnar hófst hennar neysla fyrir alvöru.

„Ég var allt í einu orðin mamma,“ segir hún og játar að það hafi tekið á. 

Neyslusaga Ingu Lindar er stór og mikil. Ári síðar var hún komin í fangelsi fyrir innflutning vímuefna. 

„Ég var edrú inni í fangelsinu, sótti um að klára í meðferð og fór svo á áfangaheimili en féll eftir viku. Ég gat bara verið edrú ef ég var inni á stofnun,“ segir hún. 

Inga Lind varð edrú 2009 í þrjú ár en tók þá hliðarspor og stóð upp aftur.

„Ég er búin að vera edrú í 9 ár og 7 mánuði en í bata frá 2017,“ segir Inga Lind og útskýrir hvað hún á við með því.

Þessi magnaða kona hefur einnig þurft að horfa á son sinn feta hennar braut en hann hefur einnig náð fimm ára edrúmennsku og stoltið leynir sér ekki.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda