„Var búinn að ákveða hvar og hvernig ég ætlaði að drepa mig“

Kristinn Sigmarsson er gestur Sölva Tryggvasonar þessa vikuna.
Kristinn Sigmarsson er gestur Sölva Tryggvasonar þessa vikuna. Ljósmynd/YouTube

Kristinn Sigmarsson er ungur maður sem hefur snúið lífi sínu gjörsamlega við eftir að hafa ætlað að fyrirfara sér. Í dag rekur hann heilsufyrirtæki og hjálpar fólki. Kristinn er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar og segir í þættinum sögu sína. 

„Sagan byrjar eiginlega árið 2011 þegar ég var 15 ára gamall. Ég var feitur tölvunörd og átti ekki marga vini. Líf mitt snerist algjörlega um tölvuleiki. Ég var bæði óheilbrigður andlega og líkamlega. Andlega flúði ég allt sem heitir ábyrgð og að takast á við hluti. Ég var alltaf að ljúga því að ég væri veikur til þess að þurfa ekki að fara í skólann. Hitti aftur og aftur lækna og reyndi að fá þá til að skrifa upp á vottorð fyrir mig svo að ég gæti bara verið enn meira í tölvunni. Að endingu var ég kominn á þann stað að ég hafði ekkert að lifa fyrir lengur. Fyrir mér var ég bara feitur aumingi með félagskvíða og mikið sjálfsniðurrif. Ég hataði sjálfan mig og langaði ekki að lifa lengur, þannig að það væri bara best að enda þetta. Ég valdi daginn sem ég ætlaði að drepa mig. En þegar ég var á leiðinni heim úr skólanum þennan dag var eins og ég fengi þrumu í líkama minn af ljósi og ég fann að það var eitthvað meira við lífið og ákvað strax að gefa mér annað tækifæri.“

Eftir þetta augnablik breyttist allt. 

„Þarna kviknaði von um að ég gæti öðlast betra líf og ég fór í ham. Brunaði heim og eyddi öllum tölvuleikjunum mínum og ákvað að gefa sjálfum mér einn séns. Ég ákvað að gefa mér eitt ár í viðbót og byrjaði að „gúggla“ leiðir til að læra að tala við fólk, grennast og verða betri. Allt þetta sumar var ég eins og óður maður að kynna mér allt sem sneri að „personal developement“. Svo byrjaði ég að fá jákvæð viðbrögð frá fólki og setti sjálfum mér fleiri og fleiri áskoranir til að bæta mig. Á 6 mánuðum sneri ég lífi mínu gjörsamlega við og var orðinn hamingjusamur haustið eftir að ég hafði ætlað að drepa mig.“ 

Kristinn, sem er enn mjög ungur að árum, er með skilaboð til þeirra sem eru á svipuðum stað og hann var á þegar dalurinn var dýpstur. 

„Ef ég væri að tala við einhvern núna sem er í svipuðum sporum og ég var í, þegar mér leið sem verst, myndi ég segja viðkomandi að lífið er leikur alveg eins og í tölvuleikjum eða því sem fer fram í gegnum skjáinn. Það er hægt að færa athyglina yfir á að bæta sig stöðugt í alvöruleiknum sem er lífið og þá fær maður miklu stærri verðlaun en með því að bæta sig í tölvuleikjum. Ég veit að það getur verið erfitt að hætta einhverju sem maður er fíkinn í, en það er hægt að byrja á að taka eitt skref í einu og vinna sig hægt og rólega inn í betri líðan.“

Spurður um hvaða skilaboð hann myndi vilja senda til fólks ef eyru allra væru opin svarar hann. 

„Vertu þú sjálfur! Við stjórnumst svo mikið af áliti annarra, en hvað myndi gerast ef þú myndir vakna á morgun og þér væri alveg sama hvað öðrum fyndist og þú myndir bara hlusta á þína eigin rödd. Hvernig myndir þú klæða þig? Hvað myndir þú vinna við? Hvað myndir þú vilja gera við líf þitt? Ef þú færir út úr þægindarammanum og myndir mæta ótta þínum, gæti verið að stórkostlegir hlutir myndu gerast? Ég trúi því að við komum öll hingað sem sálir í mannslíkama  og við erum með hjarta. Ef við náum að hlusta á hjartað okkar nógu vel finnum við hlutina sem okkur er ætlað að gera. Við komum ekki hingað til að passa inn í einhvern ramma. Við erum öll með gjafir innra með okkur, en því miður taka flestir þessari gjafir með sér í gröfina, án þess að ná að deila þeim. Allt af ótta við að vera hafnað.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.  


 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda