Steingerði var sagt upp en nú nýr ritstjóri Samhjálparblaðsins

Steingerður Steinarsdóttir.
Steingerður Steinarsdóttir. Ljósmynd/Facebook

Steingerði Steinarsdóttur ritstjóra Vikunnar var sagt upp í lok júní en hún var ekki lengi án atvinnu. Fljótlega eftir uppsögnina hafði Edda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar, samband við Steingerði og bauð henni að ritstýra Samhjálparblaðinu. Steingerður hóf störf sem blaðamaður á Þjóðviljanum 1989 og var búin að vera ritstjóri Vikunnar í áratug þegar uppsögnin kom henni að óvörum. 

„Ég var svo heppin að Eddu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Samhjálpar vantaði manneskju til að taka við blaðinu. Ég hafði tekið viðtal við Eddu fyrir margt löngu og þegar hún frétti að ég væri að hætta á Vikunni hringdi hún og bauð mér í viðtal. Ég varð strax áhugasöm vegna þess þess mannúðarstarfs sem fram fer hjá Samhjálp. Hér er verið að svara brýnni þörf og veita von sem skilar sér. Mér finnst mjög ánægjulegt að vera hluti af slíku,“ segir Steingerður. 

Samhjálparblaðið kemur út fjórum sinnum á ári en Samhjálp stendur fyrir margvíslegum uppákomum þess á milli í fjáröflunarskyni fyrir samtökin. 

„Ég má til að nefna að framundan er Kótelettukvöld Samhjálpar í Valsheimilinu þann 18. október. Matreiðslusnillingar úr Klúbbi matreiðslumeistara munu elda fyrir gesti og tónlistarmenn og skemmtikraftar koma fram og gefa vinnuna sína. Margt fleira spennandi er í boði meðal annars happdrætti og þögult uppboð. Ég kem til með að aðstoða við kynningar á svona viðburðum líka,“ segir hún. 

Aðspurð um áherslurnar í Samhjálparblaðinu segir Steingerður að blaðið sé gefið út til þess að opna huga fólks og til þess að almenningur fái innsýn inn í heim fíknar og heimilisleysis. 

„Við munum leggja áherslu á að fjalla um margvíslegar hliðar heimilisleysis, tala um fíknisjúkdóma og nýjar leiðir í meðferð og viðbrögðum við afleiðingum þeirra. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum lúta meðal annars að útrýmingu heimilisleysis og nýrri nálgun í meðferð fíknisjúkdóma. Við viljum opna huga fólks og fræða um leið og við tökum þátt í umræðunni um að hvað má betur fara. Það er hægt að gera betur og ríkur vilji til þess í samfélaginu, vilji til samhjálpar. Að auki skipta miklu máli hugtök á borð við von, vináttu og þakklæti. Það vita ekki allir hversu umfangsmikið starf fer fram innan þessara samtaka. Ég varð til dæmis afar snortin þegar ég komst að því að árlega gefur Samhjálp öllum föngum á Íslandi jólagjöf og einnig fá allir gjöf sem koma á Kaffistofu Samhjálpar og borða. Samtökin eiga einnig langa og mjög merka sögu. Það er svo gott að muna að við getum öll gert eitthvað og það að vera tilbúin að rétta fram hjálparhönd getur munað öll fyrir þann einstakling sem finnur fyrir umhyggju, kannski í fyrsta sinn í langan tíma,“ segir hún. 

Steingerður hefur starfað við blaðamennsku í 33 ár. Þegar hún er spurð að því hvað hafi breyst á þeim árum segir hún að hlutverk þeirra sé mun skýrara í dag en það var áður.  

„Ótalmargt hefur breyst bæði hvað varðar fagið og hvernig fjölmiðlar eru metnir í samfélaginu. Hlutverk þeirra hefur skýrst og orðið mikilvægara. Við vitum öll að prentmiðlar eru á undanhaldi og internetið að miklu leyti tekið yfir. Samfélagsmiðlar eru hins vegar ekki áreiðanlegir upplýsingagjafar og nauðsyn ritstýrðra og vandaðra miðla verður því enn brýnni. Við erum líka opnari sem þjóð og algengara að fólk sé tilbúið að koma fram og deila reynslu sinni. Að mínu mati er það mjög gott. Ég blæs á að það að ekki sé hægt að læra af reynslu annarra. Ég tel þvert á móti að við lærum ótrúlega margt af því að fá að setja okkur í spor annarra, máta eigin reynslu og líf við þeirra og skynja og skilja að okkar tilfinningar eru ekki einstakar. Enginn stendur einn eða er svo einstakur að ekki sé að finna samsvörun í hans líðan og viðbrögðum. Góð blaðamennska snýst um að gefa áreiðanlegar upplýsingar, veita aðhald en einnig að eiga þátt í skapa gott samfélag þar sem samlíðan og samstaða skiptir máli,“ segir Steingerður. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda