„Það eru margir hneykslaðir á því sem ég segi stundum“

Erna Ýr Öldudóttir.
Erna Ýr Öldudóttir.

Erna Ýr Öldudóttir er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Erna, sem hefur oft vakið athygli fyrir að halda á lofti skoðunum sem eru umdeildar, segist í þættinum mjög meðvituð um að hún sé ekki allra og að það sé í góðu lagi. 

„Ég er bara svo mikill einstaklingur að mér finnst ég eiga að tjá skoðanir mínar alveg óháð einhverjum hópum. Mér finnst ekkert fengið með því að gefa einhvern afslátt af sjálfri mér með því að þóknast öðrum. Ég veit sjálf að ég er góð manneskja þó að auðvitað sé ég ekki fullkomin. Ég hef gert fullt af mistökum og oft haft rangt fyrir mér, en mér finnst ég á einhvern hátt hætta að vera til ef ég fer að elta annað fólk í skoðunum til þess að því líki við mig. Ég er með það sjónarmið að vera ég sjálf alltaf og svo er það undir öðrum komið hvað þeim finnst um mig. Ég stýri því ekki. En við lifum á tímum þar sem fólk upp til hópa er orðið mjög hrætt við að tjá sig," segir hún og heldur áfram:

„Það eru margir hneykslaðir á því sem ég segi stundum, en það er allt í lagi. Ég átta mig á því að ég er oft að halda úti skoðunum sem eru ekki endilega vinsælar og fólk má alveg hafa skoðanir á mér. Ég ætla ekki að gera öðrum upp annarlegar hvatir, enda vil ég ekki að aðrir geri það við mig. En við mættum stundum öll hugsa að það er mjög gott að eiga í rökræðum við þá sem eru ósammála manni. Annars lærir maður ekki neitt. Við erum komin á skrýtinn stað ef allir eiga að hafa sömu skoðun.”

Erna Ýr segir dyggðaskreytingar orðnar mjög algengar á Íslandi og að við lifum á tímum þar sem ásýnd sé oft miklu ofar á lista en raunverulegar aðgerðir. 

„Við lifum á tímum ódýrra dyggða. Þú þarf ekki að vera góð manneskja, þú þarft bara að líta út fyrir að vera góð eða góður. Með því að hafa réttu skoðanirnar, kaupa réttu vörurnar eða segir það sem hljómar vel. En þú þarft ekki að leggja neitt á þig eða framkvæma neitt, bara láta stöðugt vita að þú sért í rétta liðinu. Það er miklu erfiðara að vera góður en að líta út fyrir að vera góður. Það er hægt að nota mjög ódýrar leiðir með samfélagsmiðlum til að leggja allt í að líta vel út.“

Hún er einnig á því að við lifum á tímum of mikillar fórnarlambavæðingar. 

„Fólk getur fengið mikla athygli og samúð og lamið á öðrum með því að auglýsa sig sem fórnarlömb. Til þess að vera fórnarlamb á samfélagsmiðlum þarf maður ekki að hafa lagt neitt á sig eða gert neitt, heldur þarf maður bara að lenda í einhverju. Lífið er bara þannig að við lendum öll í einhverju. Lífið er oft erfitt fyrir okkur öll og það er ekkert endilega neitt merkilegt að hafa lent í einhverju. Það er hluti af lífinu. Það fólk sem við lítum upp til er oft á tíðum fólk sem tekst á við erfiðleikana af reisn og þarf ekki að auglýsa sig sem fórnarlamb. Með þessu er ég alls ekki að segja að fullt af hlutum þarfnist ekki umræðu. Auðvitað þarf að laga margt og við eigum að ræða hluti. En við erum komin býsna langt í því að fólk sé að sækja sér athygli út á það að vera fórnarlömb.“

Hægt er að hlusta á þætti Sölva á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál