Krakkarnir kölluðu hann homma áður en hann vissi hvað það var

Hafsteinn Þór Guðjónsson eða Haffi Haff líkt og hann er …
Hafsteinn Þór Guðjónsson eða Haffi Haff líkt og hann er oftast kallaður. Ljósmynd/RÚV

Hafsteinn Þór Guðjónsson, betur þekktur sem Haffi Haff, er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann talar í þættinum um æskuna:

„Ég tjáði mig öðruvísi en flestir hinir krakkarnir, bæði var ég mjög „expressívur“ í tjáningu og vildi klæða mig á sérstakan hátt. Svo byrjuðu einhverjir af krökkunum í skólanum að kalla mig homma áður en ég einu sinni vissi hvað það var. Ég vissi mjög snemma að ég væri aðeins öðruvísi en flestir strákarnir, en ég viðurkenndi það ekki fyrir sjálfum mér að ég væri samkynhneigður fyrr en á unglingsárum. Fyrst vildi ég skilgreina mig sem tvíkynhneigðan, en svo áttaði ég mig á því að það væri bara af því að ég þyrði ekki að vera samkynhneigður. En í dag er ég kominn á þann stað að ég nenni eiginlega ekki einu sinni að skilgreina mig út frá kynhneigð lengur. Við þurfum ekki að vera að setja hvort annað í box og hópa stanslaust. Það er bara til þess fallið að búa til meiri ágreining á milli okkar. Og hópurinn sem talar oftast um að við eigum öll að vera eins er síðan mjög fljótur að vilja skilgreina sig öðruvísi en hina og aðskilja sig frá öðru fólki. Auðvitað þarf að laga fullt af hlutum, en almennt finnst mér að við eigum að einblína meira á það sem við eigum sameiginlegt heldur en það sem aðgreinir okkur.“

Haffi byrjaði mjög ungur að vinna á skipinu hjá pabba sínum, sem er skipstjóri og á skip á vesturströnd Bandaríkjanna. Hann segir það hafa gert sér mjög gott að byrja ungur að vinna.

„Ég var bara krakki þegar ég fékk að fara fyrsta túrinn á skipinu. Auðvitað vann ég ekki eins og fullorðinn á þeim aldri, en það gerði mér mjög gott að byrja snemma að vinna. Það er frábært að þurfa að læra að vinna með fólki svona ungur og að þurfa að læra að taka ábyrgð. Á sjónum þurfti ég að hugsa fram í tímann, vinna með öðrum, taka réttar ákvarðanir og í raun bara að læra að fullorðnast.“

í þættinum segir hann söguna á bakvið nafnið Haffi Haff. 

„Þegar ég var kominn aftur til Íslands sem fullorðinn maður hefði ég getað notað alls konar nöfn. Hafsteinn, Þór, Steini, Haffi Þór eða annað. En ég vildi að fólk gæti kallað mig einhverju nafni sem væri þannig að mér yrði ekki ruglað saman við aðra. Fyrst ákvað ég að vilja vera kallaður Haffi og kunni nokkuð vel við það. En síðan fór það að gerast að fólk var að kalla á annan Haffa og ég sneri mér við og einhvern vegin ákvað ég þá að ég vildi vera með einstakt nafn. Á leiðinni heim af djamminu þar sem ég hafði heyrt kallað Haffi á aðra ákvað ég bara að þaðan í frá skyldi ég vera Haffi Haff. Svo hefur það bara haldist. Ég hef líklega alveg frá því ég var lítill ákveðið innra með mér að ég vilji vera einstakur og nafnið var líklega hluti af því.“

Haffi segist vera mínimalisti og er ekki hrifinn af því að lifa lífinu á of miklum hraða eða festast í efnishyggju. 

„Ef ég finn einhverja flík sem mér líkar vel við er líklegt að ég eigi hana í mörg ár. Ég vil reyna að vera nýtinn og eiga færri hluti, en kunna virkilega að meta þá hluti sem ég á. Mér finnst það gefa mér meira rými og tíma að vera ekki alltaf á harðahlaupum að reyna að þéna til að geta keypt meira og meira. Eitt af því sem er að fara verst með okkur er of mikil streita og ég er ekki undantekning. Þess vegna hef ég markvisst unnið í því að hægja á mér, gefa mér meiri tíma í hluti og einfalda líf mitt sem mest.“

Hægt er að hlusta á þætti Sölva Tryggvasonar á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál