Sá lík í fyrsta skipti þegar hann var fimm ára

Sergio Moreno er gestur Sölva Tryggvasonar.
Sergio Moreno er gestur Sölva Tryggvasonar. Ljósmynd/YouTube.com

Í nýjasta Podcastþætti Sölva Tryggvasonar birtir hann viðtal við Sergio Moreno, sem er ungur maður sem fæddist í versta fátækrahverfinu í Medellin í Kólumbíu. Sölvi tók viðtalið þegar hann var sjálfur á ferðalagi í Suður-Ameríku. Í viðtalinu lýsir Sergio uppvaxtarárunum Í Kólumbíu. 

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég myndi eiga lífið sem ég á í dag, þar sem ég rek ferðaþjónustu, á heimili, konu og barn. Ég ólst upp í hverfi þar sem ég sá menn labba um með byssur alla daga og skotárásir voru daglegt brauð. Ég var ekki nema 5 ára gamall þegar ég sá í fyrsta skipti lík á götunni. 

Ég man hvað það var skrýtið. Að sjá líkama liggjandi í götunni og þegar það var ýtt í hann hreyfðist hann ekki. Ég átti eftir að sjá mun fleiri lík á næstu árunum. Fólk sem hefur ekki heyrt skotið úr alvöru vélbyssum gerir sér kannski ekki grein fyrir því hve hávaðinn er mikill. Ég man að sem barn var ég oft að spila tölvuleiki eða horfa á sjónvarpið þegar hávaðinn varð mjög mikill og við urðum að stoppa þar til skothríðirnar voru afstaðnar. En ég og vinir mínir vorum orðnir svo vanir því að heyra skotárásir að við kipptum okkur ekkert upp við það lengur. Það dóu margir vinir mínir þegar ég var bara krakki og unglingur og eina leiðin út virtist vera að fara í glæpi og eiturlyf.“

Sergio hefur sjálfur náð að koma sér upp mjög góðu lífi með mikilli vinnusemi og góðu hugarfari, en margir vina hans völdu aðra leið. 

„Ég á mikið af vinum sem hafa eignast fullt af peningum, en af því að þeir hafa verið í glæpum og eiturlyfjasölu síðan þeir voru börn geta þeir ekki notið þess. Þeir þurfa stanslaust að vera með augu í hnakkanum og lifa í mjög hættulegu umhverfi. Þeir geta ekki gegnið öruggir um göturnar frá degi til dags og hafa auk þess mjög slæma hluti á samviskunni. Margir æskuvinir mínir og kunningjar hafa farið hátt upp í eiturlyfjahringjum Kólumbíu.

Sumir þeirra létu lífið mjög ungir. Þegar þú ert kominn djúpt inn í slæmar glæpaklíkur í Kólumbíu er ekki auðvelt að komast út og það endar nánast alltaf illa. Möguleikarnir á að eignast gott og fallegt líf þegar þú elst upp við aðstæðurnar sem ég ólst upp við eru ekki miklar. En það er allt hægt með réttu hugarfari og ég þakka alla daga fyrir að hafa valið rétta leið og lagt mikið á mig til að forðast að fara leiðina sem því miður allt of margir fara. Markmið mitt í lífinu núna er að hvetja börn og unglinga í Kólumbíu til dáða og sýna þeim að það sé allt hægt með réttu hugarfari. Það er ekki auðvelt, en flest allt gott í lífinu kallar á það að maður sé duglegur.“

Hverfið sem Sergio ólst upp í er nú orðið að fyrirmynd fyrir önnur fátækrahverfi í Suður-Ameríku og víðar í heiminum, eftir mörg ár af uppbyggingu sem hefur heppnast vel. 

„Hverfi 13 er núna orðið gríðarlega líflegur staður og í stað glæpa eru það núna fyrst og fremst listir sem einkenna hverfið. Um allt hverfið eru nú götulistamenn, íþróttamenn og dansarar og ferðamenn úr öllum heimshornum koma nú til að heimsækja hverfið. Stjórnvöld hafa ákveðið að gera börnum og unglingum sem alast upp í hverfinu kleyft að læra listir og íþróttir af færu fólki án þess að þurfa að borga neitt. Í stað þess að sjá glæpi sem einu leiðina úr fátækt eins og staðan var þegar ég var krakki, eru núna miklir möguleikar. Ég elska að sýna ferðamönnum hverfið mitt og er stoltur af því hvað er búið að gera. Eins og ég sagði í byrjun viðtalsins þakka ég fyrir lífið sem ég á alla daga. Mig dreymir um að gera einn daginn heimildarmynd um hverfið mitt, sem vonandi gæti orðið til þess að hvetja stjórnvöld annars staðar í heiminum til að gera svipaða hluti.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál