„Hef skitið upp á bak þúsund sinnum“

Sigga Kling er gestur í Sölva Tryggvasonar þessa vikuna.
Sigga Kling er gestur í Sölva Tryggvasonar þessa vikuna. mbl.is/Árni Sæberg

Sigga Kling er gesturinn í nýjasta Podcastþætti Sölva Tryggvasonar. Í þættinum segir Sigga meðal annars frá uppvextinum og byrjuninni að ferlinum sem hún á í dag. 

„Þegar ég var lítil þá var ég ofviti. Fólk kom í heimsókn til að skoða mig þegar ég var tveggja ára gömul að lesa bækur. Ég reyndar held að ég hafi frekar munað þær utan að frekar en að ég hafi beinlínis verið að lesa. Ég kem úr mikilli fátækt, þar sem amma reykti mikinn fisk fyrir Thorsarana til þess að geta borgað leigu. Það voru engir styrkir í þá daga og ekkert annað í boði en að vinna mikið. Maður lærði að bjarga sér á rosalega litlu og gat ekki mikið verið að hugsa um sjálfa sig eða skapa sig í einhvern farveg af því að lífið gekk út á að lifa af. Það var svo eiginlega algjör tilviljun að ég byrjaði að skemmta. Ég stofnaði kvennaklúbb Íslands með nokkrum konum og það vildi enginn fara á svið og ekki ég heldur, en ég neyddist til að taka það á mig. Þá byrjaði þorið að koma og þó að ég hafi skitið upp á bak þúsund sinnum hafa mistökin kennt mér svo mikið. Ég hef aftur og aftur bara hent mér í djúpu laugina og gert alls konar hluti sem ég hefði ekkert átt að gera.“

Hún segist sjálf oft þurfa að ýta sér af stað í að gera hluti, en lífið hafi kennt henni að æfa sig í að fara út fyrir þægindarammann. 

„Ég þarf oft að rífa í hnakkadrambið á sjálfri mér til að hafa mig í að gera hluti, af því að þægindaramminn getur togað svo sterkt. En ég hef tamið mér að banna mér að segja „ég nenni ekki“ eða annað í þeim dúr. Maður þarf að halda sér uppteknum og gera nýja hluti til að kveikja á heilanum. Það er gott að hvíla stundum hugann með því að horfa á sjónvarpið eða vera í símanum, en ef maður festist í því verður vaninn svo sterkur að hann byrjar að drepa sköpunargáfuna. Allt er vani og þess vegna verðum við líka að venja okkur á að gera hluti sem eru fyrir utan þægindarammann. Það er ekki gott ef líf okkar endar á að verða eins og endursýnd bíómynd. Þá horfum við til baka með eftirsjá og það vill enginn.“

Sigga segir ákveðinn skort á hugrekki á Íslandi og fólk láti hræðslu of mikið stýra hegðun sinni. 

„Það er eins og þessir víkingar sem voru hérna einu sinni séu útdauðir. Það er eins og enginn þori að breyta neinu lengur og fólk er orðið skíthrætt við að tjá sig. Okkur vantar leiðtoga og stjórnmálamenn sem þora að segja eitthvað. Við lifum á tímum þar sem fólk er hrætt við að vera tekið í gegn fyrir að segja eða gera eitthvað vitlaust. En staðreyndin er bara sú að ef þú gerir ekkert, þá ertu ekkert og verður ekkert, það er kannski góð saga, en það nennir enginn að lesa hana. Ef við skoðum fólkið sem er að ráðast á aðra á netinu eru þetta yfirleitt sömu týpurnar. Annað hvort eru þetta falskir aðgangar sem reitt fólk býr til, eða fólk sem er sjálft í tómu rugli með líf sitt og kemur ekki vel fram við fólkið í kringum sig.“

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef mbl.is.  



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál