Jólin eiga ekki að vera gjaldþrot og stress

Bryndís Hera Gíslasdóttir og Ásgeir Kolbeinsson.
Bryndís Hera Gíslasdóttir og Ásgeir Kolbeinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson og heilsumarkþjálfinn Bryndís Hera Gísladóttir, kölluð Hera, halda nú upp á sín níundu jól saman en á næsta ári hafa þau verið saman í tíu ár. 

Þau sáust fyrst þegar utanbæjarstelpan Hera kom til Reykjavíkur frá Þorlákshöfn til þess að taka afleysingavakt fyrir frænku sína sem vann á skemmtistaðnum Austur en þann stað rak Ásgeir um árabil. Hann féll strax fyrir þessari fegurðardís sem er sautján árum yngri en hann sjálfur og fór einbeittur í að reyna að heilla hana því fyrir honum var þetta ást við fyrstu sýn.

„Það fara oft svo góðar sögur af utanbæjarfólki. Það þykir gott til vinnu og hefur alls konar kosti virðist vera,“ segir hann og bætir við að þótt hann hafi ekki blásið í öll seglin við fyrstu kynni hafi hann lagt sig mikið fram um að fá að kynnast henni betur. Nú tæpum áratug síðar búa þau í nýlegu þriggja hæða parhúsi í Kópavoginum ásamt sonunum Alexander Loga og Ívari Degi sem Ásgeir átti fyrir. Þau skrifa velgengni í sambandinu á hversu góð þau séu í að leysa öll mál með uppbyggilegum samtölum og vera meðvituð um hversu ólík þau eru án þess að annað reyni eitthvað sérstaklega að breyta hinu í háttum og hegðun.

„Ef það er eitthvað sem ég er ekki sáttur við eða hún ekki sátt við þá förum við ekki í pirring með það heldur er málið bara rætt og þannig leysum við það. Svona lærum við líka betur inn á hvort annað. Hún veit hvernig ég er og öfugt.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólíkar týpur sem ná vel saman

Hera segir að mikilvægt sé að reyna ekki að breyta fólki og að Ásgeir sé stundum galinn og kassalagaður.

„Ég er svona týpan sem finnst allt skemmtilegt og er mjög spontant. Mér finnst til dæmis gaman að það sé ekki bara ein leið heim til mín. Ég get alveg valið um fjórar leiðir en hann velur alltaf þá sömu. Ásgeir er svona reglupési, ef hlutirnir virka þá er hann ekkert að breyta þeim, en þá elska ég að ögra honum að keyra aðra leið heim, sem hann á erfitt með en síðan hlær hann bara að því. Þannig erum við farin að þekkja hvort annað svo vel,“ segir Hera. Ásgeir segir skýringuna á muninum á þeim liggja að mörgu leyti í stjörnuspekinni. „Ég er bara þessi venjulega vanafasta steingeit en mér finnst gaman að þessum spontant hlutum hjá Heru. Það er oft þannig að þegar maður venur sig á eitthvað þá er mikilvægt að vera líka til í að breyta því. Steingeitin er frekar formföst en maður má ekki festast alveg. Oft þegar Hera stingur upp á einhverju þá eru mín fyrstu viðbrögð að segja nei. Það er bara af því í mínum huga var kannski búið að ákveða að fara að gera eitthvað annað og breyting því óþörf við fyrstu hugsun. Þá horfir hún á mig og svo förum við að hlæja af því höfum lært að hafa húmor fyrir þessu og höfum slípast vel saman með árunum,“ segir Ásgeir. Hann bætir því við að Hera sé í hrútsmerkinu og flest merkin í kortinu hennar séu eldmerki en hann sé þessi jarðbundni.

Er skreytióð og mun aldrei verða bara eitthvað eitt

Hera er týpan sem hefur ekki áhuga á því að vinna bara í einu starfi. Hún er menntaður heilsumarkþjálfi og hefur mikinn áhuga á stjörnumerkjum.

Þá vinna þau Ásgeir saman að verkefnum sem eiga enn eftir að líta dagsins ljós og svo tekur hún að sér að skreyta sali fyrir veislur. „Ég er alveg skreytióð og fæ meðal annars útrás fyrir þá þörf með því að taka að mér verkefni fyrir aðra. Manni er kennt í grunnskóla að maður eigi að verða bara eitthvað eitt en nú hef ég loksins látið þann böggul til hliðar og sætt mig við að ég mun aldrei verða bara eitthvað eitt. Heilsumarkþjálfinn á þannig mjög vel við mig því ég hef mikinn áhuga á heilsu og heilbrigði fólks og fólk er svo margs konar,“ segir hún.

Ég leiði talið að jólunum og spyr hana ráða um hvernig huga megi að heilsunni yfir hátíðarnar.

„Mér finnst mjög mikilvægt að maður missi sig ekki í sukki út desember og hugsi að maður ætli bara að byrja að hugsa um heilsuna í janúar. Með því er maður farinn að skadda andlegu heilsuna. Ég vil frekar hugsa að þetta sé fallegt tímabil og ég borða bara heilsusamlega eins og ég er vön, en fer samt og fæ mér kakó við hátíðarvagninn niðri í bæ þótt ég fái mér ekki kakó svona vanalega. Svo þarf maður að passa að borða ekki yfir sig bara af því það eru jól og nóg af mat til heldur njóta augnabliksins. Það má líka borða óhollt í janúar. Það þarf ekkert að troða öllu ofan í sig í desember. Í raun snýst þetta um jafnvægi eins og allt annað í lífinu,“ segir hún.

Fer rólega í jólabjórinn og hefur hemil á neyslunni

Ásgeir er á sömu bylgjulengd hvað þetta varðar. Honum finnst betra að halda takti í heilsusamlegu mataræði en neitar sér þó ekki um að gera sér dagamun í desember. Í þessu samhengi nefnir hann bjórdagatölin sem eru alltaf gefin út í byrjun mánaðarins.

„Þetta er einn bjór á dag í tuttugu og fjóra daga! Fyrir mörgum árum fannst mér þetta rosalega sniðugt en það passar kannski ekki fyrir alla. Ég vil frekar gera mér dagamun og fá mér jólabjór með vinum og fjölskyldu í aðdraganda jólanna. Oft er verið að þvinga eitthvað inn hjá okkur sem er ekkert gott fyrir mann um jólin og þarf því að hafa jafnvægi á því eins og öllu öðru,“ segir Ásgeir. Hera segist sammála því að það sé ekki gott að vera í yfirdrifinni neyslu þótt það sé hátíð og nefnir í því samhengi að það sé alls ekki hollt fyrir krakka að byrja hvern morgun á því að fá sér súkkulaði úr dagatali, sérstaklega ekki þegar mikið ofát er í gangi. Hún segir að þessi litli súkkulaðimoli kalli á meiri sætindi. Sjálf kaupir hún litla poka og setur smágjafir í fyrir son sinn en sá litli hefur botnlausan áhuga á líkamshlutum og líffærum. Að sögn móðurinnar kæmi það henni ekki á óvart ef hann yrði læknir eða einhvers konar

vísindamaður einn daginn.

„Ég finn gjafirnar til dæmis í Tiger og kaupi þetta læknadót og fleira sem hann hefur gaman af. Svo útbúum við samverudagatal sem er mjög sniðugt, sérstaklega fyrir upptekna foreldra því þessar gæðastundir eru svo dýrmætar. Hugmyndir að samverudagatali eru til dæmis föndur, tilraunir í eldhúsinu, fjöruferð eða útivist og í raun bara hvað sem okkur Alexander dettur í hug.“

Jólablað Bryndís Hera Gísladóttir og Ásgeir Kolbeinsson kynntust á skemmtistaðnum …
Jólablað Bryndís Hera Gísladóttir og Ásgeir Kolbeinsson kynntust á skemmtistaðnum Austur, sem hann rak á þeim tíma. Kristinn Magnússon

Taka lítil skref í einu og spara stressið

Spurður hvaða hefðir hin vanafasta steingeit haldi fast í svarar Ásgeir glettinn að það séu í raun allar vondu hefðirnar. „Vera á síðustu stundu. Skreyta seint, kaupa gjafirnar seint en vera bara slakur fram að því,“ segir hann en dregur grínið strax til baka og segist hafa breyst eftir að hann kynntist Heru.

„Það er fólk sem notar allan nóvember og desember í jólaundirbúning. Það er komið skraut í IKEA í byrjun nóvember og þetta er allt byrjað. Sumum finnst það pirrandi. Ég spáði aldrei í jólin fyrr en 20. desember en í dag er ég orðinn þetta fólk sem notar nóvember í undirbúning. Ég upplifi hvað ég er glaður þegar desember kemur, að vera búinn að öllu. Það er til dæmis komið jólaþorp í Hafnarfirði og af hverju ekki að klára að ganga frá öllu sem veldur stressi og nota svo laugardaga og sunnudaga fram að jólum í afslöppun og skemmtilegheit,“ spyr Ásgeir.

Hera er sammála og telur fram fleiri kosti við að fara snemma af stað með undirbúninginn. Til dæmis sé hægt að dreifa kostnaðinum við hátíðarhöldin yfir fleiri mánuði og njóta fleiri daga.

„Það sem ég væri til í að innleiða meira hjá okkur elsku Íslendingum er að nota þennan fallega tíma til að heimsækja hvert annað og vera saman. Ekki henda pakkanum inn á Þorláksmessu og hlaupa svo á næsta stað. Fólk er nógu stressað í daglegu lífi, svo koma jólin ofan á það og þá verður það enn stressaðra. Þetta þarf ekkert að vera svona mikið stress ef maður tekur lítil skref og minnir sig á að þetta sé fallegur samverutími, ekki gjaldþrot og stress.“

Óþarfi að liggja afvelta uppi í sófa

Hera segir að bætt skipulag við jólaundirbúninginn hafi gefið þeim aukadag til að njóta. Nú sé Þorláksmessan líka heilög hjá þeim enda hafi reynslan kennt þeim hvað stressið sé leiðinlegt þann dag. „Þá látum við vini og ættingja vita að við séum á leiðinni niður í bæ og svo koma þau sem geta að hitta okkur og úr verður hátíðleg samverustund.“

Parið er ekki stíft á hefðunum með jólamatinn enda hafa allar matarhefðir breyst síðustu árin. Nú er til dæmis hægt að fá hamborgarhrygg árið um kring en þegar Ásgeir var krakki voru þær kræsingar aðeins í boði á jólunum. Þau kjósa heldur að velja eitthvað sem fer betur í líkamann og nefna þá sem dæmi kalkúnaskip sem þau hafa haft á boðstólum þrenn síðustu jól.

„Það tók okkur alveg tíma að læra þetta. Við vorum þannig að við lágum bara afvelta uppi í sófa eftir matinn og leið illa yfir ofátinu. Í dag fáum við okkur allt sem við viljum en vitum vel að það kemur dagur eftir þennan dag,“ segir hún.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Elskar stórar kúlur og amerískt skraut

Eins og áður var komið inn á hefur Hera sérstaka ánægju af því að skreyta í kringum sig og nýtur þess sérstaklega um jólin. Hún segist vera skreytingaóð og í raun séu skreytingar einhvers konar hugleiðsla fyrir sér. Hún segir þau heppin að hafa gott geymslupláss því að á hverju ári bætist við nýtt jólaskraut; helst vildi hún hafa það aðeins stærra því amerískt jólaskraut er hennar uppáhald en henni finnst leiðinlegt hvað það er dýrt hér á Íslandi. „Jólatréð okkar er mjög amerískt. Ég elska stórar kúlur og svo er lest í kringum tréð og svona. Því meira því betra. Ég var flugfreyja áður og fór oft til Bandaríkjanna. Mér finnst skreytingahefðin þar rosalega heillandi og mér finnst svo gaman að skreyta að ég hef í raun hugsað hvort ég ætti að taka það að mér að mæta heim til fólks að gera þetta. Reyndar var ég síðast beðin um það núna í morgun en það er svolítið erfitt í framkvæmd því það er svo misjafnt hvað fólk á af skrauti og hversu miklum peningum það er til í að eyða í það.“

Mættur út að þrífa rúður á aðfangadag

Ásgeir er síst þekktur fyrir að sitja auðum höndum og þá gildir einu hvort það er venjulegur mánudagur eða aðfangadagur. Hera lítur hins vegar á aðfangadag sem algerlega heilagan afslöppunardag og þá megi flest verkefni bíða betri tíma „Það á allt að vera klárt á aðfangadag svo ég má ekki einu sinni fara út í búð að kaupa einn rjómapela,“ segir hann, fær sér kaffisopa og lítur sposkur á Heru. „Síðustu jól var hann alltaf bara aðeins að fara að gera eitthvað en mundi svo að það var aðfangadagur og settist niður. Hann mundi það samt ekki lengi í einu því áður en ég vissi af þá heyrðist eitthvert hljóð fyrir utan og þegar ég leit út var kominn svampur og sápufroða á rúðuna því hann var farinn út að þrífa gluggana.“ „Maður er kannski bara vanur því að vera að vinna svona mikið en samt finnst mér ekkert betra en jóladagur og nýársdagur þegar allt er lokað,“ segir hann. „Það er eitthvert frelsi í því að geta ekki farið neitt. Mér finnst mjög skrítið þegar maður fer að versla núna á Þorláksmessu. Það er eins og það sé heimsendir í nánd og fólk sé að reyna að tæma búðirnar. Samt er alveg opið núna til fjögur á aðfangadag ef eitthvað klikkar. Svo er aftur opið annan í jólum þannig að þetta er bara einn dagur,“ segir hann og hristir höfuðið.

Myndu ekki fara til Tene um jólin

Spurð hvort þau gætu hugsað sér að fara út að borða á aðfangadag segist Hera ekki geta hugsað sér það þar sem hún upplifir sérstaka tegund samveru við matargerðina á aðfangadag. „Ég er ekki týpan sem fer til Tenerife um jól og áramót því fyrir mér snýst jólahátíðin um þessar fjölskylduhefðir,“ segir hann og hún bætir við: „Við prófuðum samt í fyrra að fara til Tene yfir áramótin sem var yndislegt, en snjórinn og það að vera með allri stórfjölskyldunni á þessum tíma hér á Íslandi á betur við mig.“

Ásgeir segist ekki myndu fara út að borða á aðfangadag ef hann væri staddur hér á Íslandi um jólin en hann fagnar því samt hversu margir veitingastaðir eru farnir að hafa opið og bjóða jafnvel upp á margrétta jólaseðla. Veitingastaðurinn PÜNK, sem hann rekur einmitt á Hverfisgötunni, er kominn í jólagírinn og er nú með jólamatseðil sem hannaður er af yfirkokki staðarins, Bjarti Elí Friðþjófssyni. Hann samanstendur af óhefðbundnu hangikjötssalati á „krakk-kökum“, humarsúpu, hreindýrasteik, eða bleikju fyrir þá sem vilja síður kjöt. „Bjartur okkar er alveg frábær og hefur einstaklega hæfileikaríka kokka með sér í eldhúsinu sem hönnuðu þennan seðil með honum. Bjartur var áður á Grillmarkaðnum og hefur meðal annars unnið á Michelin-stöðum í Danmörku. Hann veit alveg hvað hann er að gera,“ segir Ásgeir.

Gefa sér tíma til að finna réttu gjöfina

Hjá mörgum pörum eiga jólagjafirnar til að breytast í takt við hversu lengi fólk hefur verið saman. Til að byrja með eru þær oft afar rómantískar og rausnarlegar en með tímanum fer fólk að kaupa eitthvað skemmtilegt sem bæði hafa not af og jafnvel þróast þetta þannig að fólk hættir að kaupa fyrir makann. Hera tengir við sumt þarna. Segir að í byrjun sambandsins hafi þau lagt mikið upp úr að kaupa stórar gjafir en síðar hafi þau farið saman í að kaupa sér flotta kaffivél og annað í slíkum dúr sem hentaði báðum en síðustu ár hafa þau lagt áherslu á að gjafirnar sem þau gefa hvort öðru séu persónulegar og að baki þeim búi einlæg hugsun. „Þegar við erum að leita að gjöfinni þá spyrjum við okkur nokkurra spurninga. Til dæmis: Hvað minnir þig á mig? Hvað finnst mér gaman? Hvað vantar mig? Svo kaupum við gjafirnar út frá þessu. Í fyrra gáfum við hvort öðru sex gjafir,“ segir Hera. Ásgeir segir að fyrir sér snúist gjafirnar ekki um kostnað eða flottheit heldur finnst honum skemmtilegast þegar þær koma á óvart og hitta í mark en slíkar gjafir geti skotið upp kollinum hvenær og hvar sem er. Rétta gjöfin gæti þannig þess vegna verið keypt í útlöndum í maí og falin einhvers staðar fram að jólum.

„Fólk kaupir sér yfirleitt bara síma og þess háttar sjálft en það er þetta með tímann sem mér finnst dýrmætt. Að gefa sér tíma til að finna eitthvað fullkomið og að það búi persónuleg hugsun að baki,“ segir hann og um leið kemur Hera með skemmtilegt dæmi um gjöf sem hún valdi fyrir pabba sinn. „Fyrirtækið Kölski býður upp á þannig þjónustu að það er hægt að láta sérsauma myndir inn í fóður á jökkum. Þegar hundurinn hans pabba dó pantaði ég jakka með mynd af hundinum inni í fóðrinu og gaf pabba í jólagjöf. Það hitti sko alveg í mark,“ segir hún glöð og hvetur að lokum áhugasama til að fylgja sér á instagram en þar birtir hún daglegar uppfærslur undir nafni sínu, Hera Gísla. „Ég mun reyndar ekki setja neitt inn á aðfangadag og jóladag því þá erum við fjölskyldan ekkert í símunum okkar, en alveg fram að Þorláksmessu ætla ég að vera dugleg að deila því með fylgjendum hvernig ég undirbý þessa yndislegu hátíð með öllu sem henni tilheyrir og vonandi get ég gefið góðar hugmyndir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda