Nýhætt að smygla rjúpum til útlanda

Gyða Dan Johansen er komin í jólaskap.
Gyða Dan Johansen er komin í jólaskap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gyða Dan Johnsen, starfsmaður hjá Hreppamjólk og jógakennari, elskar jólin og aðventuna. Á æskuheimili hennar var alltaf skreytt í lok nóvember og hefur Gyða haldið í þá hefð eftir að hún fór að búa. 

Hvernig skipuleggur þú desember?

„Ég skipulegg mig með því að skipuleggja ekki. Það er alltaf svo mikið að gera í desember, hvort sem litið er til þess félagslega eða vinnulega. Það er best að skipuleggja sem minnst og taka einn dag í einu en reyna að taka þátt í öllu,“ segir Gyða sem segist vera lífsglöð einhleyp kona.

Er dásamlegt að eiga mörg börn um jólin?

„Sko, já, ég „á“ náttúrlega einn tug af börnum, ef allt er talið, og fjögur barnabörn. Ég er svo lukkuleg að hafa þau forréttindi að vera í góðum samskiptum við þau öll. Í dag býr ein dóttir í Barcelona, tvær í Danmörku og ég var að endurheimta einn „son“ þaðan. Í gegnum tíðina höfum við náð að hittast öll saman sem er náttúrlega líka afar mikilvægt fyrir þá yngstu þar sem hún er sú sem á níu systkini.“

Jólatréð fer snemma upp og það er einstaklega skemmtilega skreytt.
Jólatréð fer snemma upp og það er einstaklega skemmtilega skreytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gyða Dan skreytir alltaf í nóvember.
Gyða Dan skreytir alltaf í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa jólin breyst eftir að börnin urðu eldri?

„Þau hafa þróast eftir því sem börnin stækkuðu og urðu eldri. Núna koma þau með mér á Jómfrúna í stað þess að vera í pössun. En ég er með eina tíu ára – þó svo hún haldi stundum að hún sé 16 – þá reyni ég að halda í það sem ég gerði áður með þeim eldri. Ég er ekki mikill bakari, meiri kokkur, en ég hendi í smákökur. Ég skelli ekki í uppskrift, þarna koma Eva Laufey og fleiri við sögu, aðalmálið er að eiga þessa stund saman. Svo verð ég nú að viðurkenna að ég á svo frábæra vinkonu sem er núverandi eiginkona barnsföður míns. Hún Sara María, sem er snillingur í að baka, sér um að hóa okkur saman í sörubakstur eða laufabrauðsútskurð. Svona eins og var gert einu sinni.“

Hvaða hefðir hefur þú haldið í úr þinni æsku?

„Kannski það helsta sem kemur upp í hugann er að ég skreyti alltaf fyrir 30. nóvember. Mamma á afmæli þann dag og er hann oftast nálægt fyrsta í aðventu og þá er ég búin að skreyta eins og ég er alin upp við.“

Hefur þú búið til nýjar hefðir með þinni fjölskyldu?

„Ég veit ekki alveg hvort eigi að tala um nýjar hefðir en ég ég fer alltaf á Jómfrúna í desember. Og svo var það alltaf hefð hjá okkur systkinum að fara til Köben með mömmu fyrstu helgina í desember, en það hefur eiginlega dottið niður eftir covid þannig að ég doblaði annan hóp með mér í ár. Það má eiginlega segja ég hafi skapað hefð fyrir mig. Ég er í Köben fyrstu helgina í desember.“

Hreppahátíð í skál í staðinn fyrir möndlugraut.
Hreppahátíð í skál í staðinn fyrir möndlugraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eru einhver jól eftirminnilegri en önnur?

„Ójá! Flest jól ef ekki öll eru eftirminnileg en ein jól eru greypt í huga minn. Það eru jólin sem tvíburarnir Marta og Mía voru 14 mánaða og Rósa Dan fjögurra ára og þáverandi maður minn vildi alltaf hafa lifandi jólatré. Keypt hafði verið eitt stærsta jólatré sem ég hafði séð til að nota í heimahúsi, búið að skreyta og alles. Þegar ég kom fram á aðfangadagsmorgun, sem betur fer fyrst og snemma, þá var jólatréð gjörsamlega á iði, einhvers konar lús út um allt. Sem betur fer voru stelpurnar ekki vaknaðar, því þótt Marta og Mía væru farnar að ganga á þessum tíma, þá voru þær mest sitjandi á gólfinu. Ég náði að drösla trénu með „húð og hári“ og öllu skrauti út í garð. Ég óskaði eftir að það yrði hreinlega brennt. Ég brunaði svo upp í Græna skáta til að fá gervijólatré. Það eina sem var til var eitt af þeim hæstu. Ég keypti það og brunaði með það heim með skottið opið. Eftir að ég var búin að sótthreinsa húsið var trénu skellt upp, sett á það afgangsskraut sem hafði ekki fengið tilverurétt á lifandi trénu og jólin haldin hátíðleg. Eftir þessa upplifun hefur tré frá Grænum skátum ávallt prýtt stofuna.“

Hvað borðar þú á aðfangadag?

„Rjúpur og aftur rjúpur. Það eru varla jól nema ég fái rjúpu. Ég er nýhætt að smygla þeim með mér til útlanda ef mér dettur í hug að vera erlendis um jól. Ég ber þær fram á gamla mátann, það er á beinum. Meðlætið er ávallt það sama; eplasalat, heimalagað rauðkál, gular og grænar baunir og brúnaðar kartöflur ásamt gómsætri rjúpnasósu sem er bökuð upp. Svo er alltaf laufabrauð á boðstólum. Það má kannski segja að það sé líka hefð sem ég hef haldið í, þ.e. að elda alltaf rjúpu upp á gamla mátann.“

Hvernig verða jólin hjá þér í ár?

„Úff, stórt er spurt. Fyrsta svar er að við verðum hér heima með rjúpur en ég er hreinlega ekki alveg viss. Eins og ég sagði áður þá á ég eina dóttur í Barcelona og tvær í Kaupmannahöfn. Ég er að reyna að fá yngra hollið með mér til Kaupmannahafnar. En sjáum hvað verður. Þau verða í það minnsta afar gleðileg.“

Uppskriftirnar hennar Gyðu!

Hreppahátíð – staðgengill möndlugrautar fyrir fjóra

 

3 krukkur, 190 g, bökuð Hreppajógúrt – cappuccino

120 g haframjöl,

1½ flaska (255 ml) ískaffi frá Hreppamjólk

3 tsk. chiafræ

Til þess að skreyta með: Jarðarber, bláber, kókosflögur eða súkkulaðispænir.

Þeyttur rjómi. Helst 42% rjómi frá Hreppamjólk.

Aðferð

„Allt hrært saman og geymt í kæli yfir nótt. Toppað með því sem hugurinn girnist, jarðarberjum, bláberjum, kókosflögum, súkkulaðispæni. Og svona til að setja toppinn yfir i-ið má setja smá þeyttan rjóma, helst 42%, sem í dag er reyndar eingöngu árstíðabundin vara hjá Hreppamjólk. Ég ætla að nota þennan sem möndlugraut í ár og setja kaffibaun í stað möndlu.“

Hreppapúns (með og án áfengis)

Hreppapúns fyrir 20 ára og yngri:

4 eggjarauður

2 flöskur Hreppó-biscotti

1 bolli rjómi

Hreppapúns fyrir 20 ára og eldri:

2 bollar Tia Maria

Aðferð

„Eggjarauður þeyttar vel. Hreppó-biscotti og rjóma bætt rólega út í. Það er líka gott að bæta smá sykri við þegar verið er að þeyta eggjarauður. Ég set yfirleitt eina teskeið af sykri þegar ég er að gera Hreppapúns fyrir 20 ára og yngri, annars ekki. Annars bæti ég rólega Tia Maria við. Borið fram ískalt með klökum.“

Hreppapúns er góður drykkur í enn skemmtilegri bolla.
Hreppapúns er góður drykkur í enn skemmtilegri bolla. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál