Hætti að drekka áfengi í hruninu

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra segist hafa þurft að hlúa mjög vel að sér til að halda jafnvægi í gegnum hrunið, enda álagið gríðarlegt. Geir, sem er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar, fer í þættinum yfir hrunið, kynnin af Trump og Pútín og margt fleira. 

„Þetta var auðvitað mjög erfitt tímabil og algjörlega ólíkt öllu sem fólk þekkti. En mér tókst að halda ró minni og halda mér í góðu jafnvægi í gegnum allan þennan tíma. Ég gerði tvennt meðvitað. Ég neitaði mér algjörlega um allt áfengi í nánast heilt ár. Ekki að það hafi verið vandamál, en ég vissi bara að það myndi ekki hjálpa mér. Svo var ég mjög duglegur í ræktinni og mætti alla morgna snemma til að vera kominn sprækur í vinnuna eftir að hafa hreyft mig. Þetta tvennt held ég að hafi hjálpað mér persónulega í þessum aðstæðum og hjálpað mér að takast á við hlutina betur, svo passaði ég mig líka á því að vera ekkert inni á samfélagsmiðlum. Í raun hélt ég mig nánast alveg frá þeim fram til 2015. Það er mikilvægt fyrir fólk sem er í opinberum störfum að eyða ekki of miklum tíma á samfélagsmiðlum og ég hugsa að það geti auðveldlega brenglað dómgreindina ef maður fer að liggja yfir því sem fólk skrifar þar,“ segir Geir, sem hefur ekki fundið mikla löngun til að fara í viðtöl eða hafa miklar skoðanir opinberlega á undanförnum árum. 

„Ég er hættur í opinberum störfum og þá ber mér engin skylda til að vera að tjá mig opinberlega eða gefa kost á mér í viðtöl. Ég veit að margir fyrrverandi stjórnmálamenn hafa mikla löngun til að hafa sjónarmið og skoðanir á því sem er að gerast í samfélaginu. Auðvitað kemur það fyrir að mig langar að leggja orð í belg, en það er ekki þannig að ég geti ekki látið það eftir mér.“

Geir hefur undanfarin ár búið í Bandaríkjunum og bjó þar líka sem ungur maður eftir stúdentspróf. Hann segir ástandið vestra hafa breyst mikið. 

„Pólariseringin er orðin alveg hrikaleg í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru auðvitað risastórt samfélag og ólíkt innbyrðis og fólk mun alltaf takast á, en þetta er orðið harðara og miklu verra en áður. Ég hef alltaf verið svona frekar repúblikanamegin í stjórnmálunum, en ég neyddist til að hætta því þegar Trump náði völdum og undirtökum í flokknum. Það hefur farið í taugarnar á mér að sjá hvernig góðir menn og konur hafa beygt sig undir hans ægivald. Reyndar hitti ég Trump einu sinni þegar ég var sendiherrra rétt áður en hann varð forseti. Hann hafði svo sem mjög fallega hluti að segja um Ísland, en ég held að hann sé mikill ruddi og mjög ófyrirleitinn maður. Sama hvort það eru viðskipti eða samskipti við fólk, þá held ég að hann sé mjög sjálfhverfur. En aðallega fannst mér hann ömurlegur sem forseti af því að hann vissi ekkert hvað hann var að gera.“

Annar mjög umdeildur maður sem Trump hitti oftar en einu sinni er Vladimír Pútín. Geir segir að sér hafi aldrei litist á þann mann. 

„Ég vil nú ekki fara að spá neinu slæmu um hverju honum dettur næst í hug, en mér líkaði ekki við mín litlu kynni af honum. Hann er varhugaverður maður. Ég hitti hann nokkrum sinnum þegar ég var forsætisráðherra og ég man að mér fannst augun í honum alltaf stingandi köld. Ég man líka að hann lét alltaf bíða eftir sér á leiðtogafundum NATO, þar sem allir helstu leiðtogar heims voru samankomnir. Í Búkarest lét hann George Bush, Angelu Merkel og fleiri bíða eftir sér í meira en korter og í veislunni um kvöldið lét hann bíða eftir sér í hálftíma. Forseti Rúmeníu var að fara yfir um af því að hann hélt að fólk myndi byrja að labba út úr veislunni, en menn létu sig hafa þetta. Pútín er undarleg týpa og framkoma hans í Úkraínu er ófyrirgefanleg.“

Þegar Geir lítur yfir farinn veg sem forsætisráðherra segist hann stoltastur yfir vinnu sinni við að breyta mannréttindahluta stjórnarskrárinnar og breytingum á lögum um fæðingarorlof. 

„Ég var formaður nefndar sem leiddi breytingarnar á stjórnarskránni frá 1995 um mannréttindakaflann. Þó að það hafi verið hart deilt á þeim tíma held ég að flestir sjái það núna að niðurstaðan var mjög mikilvæg og góð. Ég stýrði því verki og verð alltaf ánægður með það. Annað mál sem ég hafði mikinn atbeina að var fæðingarorlofsmálið árið 2000. Þau mál voru í raun bara í klessu, það var svo mikið misræmi í réttindum og það tókst að koma því í þann farveg sem allir þekkja núna. En þegar maður hefur starfað svona lengi sem ráðherra situr líka eftir allt það frábæra fólk sem maður hefur kynnst á þessarri vegferð.“


Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál