Kynntust á Tinder og eru nú gift

Marta Magnúsdóttir og Jan van Haas búa á Grundarfirði.
Marta Magnúsdóttir og Jan van Haas búa á Grundarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Jan van Haas og Marta Magnúsdóttir búa í Grundarfirði þar sem jólahefðirnar eru töluvert frábrugðnar þeim sem Jan er vanur í heimalandi sínu, Kólumbíu. Fyrstu jólin þeirra voru nokkuð óhefðbundin. Parið ætlaði að hittast í London en Jan fékk ekki vegabréfsáritun fyrr en á aðfangadag og komst því ekki til London fyrr en annan í jólum.

Jan og Marta kynntust á stefnumótaforritinu Tinder og var það „ást við fyrsta spjall“ eins og Marta lýsir því.
„Innan skamms var ég svo búin að kaupa flugmiða til að heimsækja hann. Jan var að vinna á Sardiníu og við vorum bara búin að plana að verða hjón áður en ég fór aftur heim. Jan flutti svo til Íslands tæpu ári síðar í miðjum heimsfaraldri,“ segir Marta.
Ljósmynd/Aðsend

„Ég vann á stórri seglskútu í einkaeigu eftir að ég flutti frá Kólumbíu. Á hverju ári sigldum við frá Miðjarðarhafinu til Karíbahafsins og við tókum þátt í mörgum regatta-keppnum sem eru keppnir og viðburðir fyrir seglskútur. Ekki löngu áður en við Marta kynntumst höfðum við tekið þátt í Rolex regatta í Porto Chevo á Sardiníu. Eftir að því lauk var minna að gera og ég fór að hugsa um mótorhjólaferðalög og sá mynd af Íslandi og vissi að mig langaði að koma hingað, ég stillti því Tinder-staðsetninguna mína á Ísland. Eftir marga klukkutíma af símtölum ákváðum við að hittast og „rest is history“,“ segir Jan um hvernig ástin kviknaði á milli landa.

Ljósmynd/Aðsend

Elskar jólaljós

Jólaljósin eru einna helst það sem kemur Jan í jólaskap. „Mér finnst nauðsynlegt að það séu jólaljós! Mér finnst líka mjög skemmtilegt að hengja þau upp. Mér finnst reyndar ekki gaman að taka þau niður,“ segir Jan.

„Er ég í alvöru gift manni sem vill skreyta helling fyrir jólin?“ segist Marta hafa hugsað með sér fyrstu jólin sem þau Jan vörðu saman í Grundarfirði en þá kom Jan henni á óvart þegar hann kom heim með fullt af jólaseríum í byrjun desember.

Jólasnjórinn kemur Mörtu í jólaskap, meira þarf hún ekki. Þrátt fyrir nægjusemina segist hún hafa fengið sterka löngun til að baka sörur ein jólin þegar hún var stödd í Ekvador. „Ég hef verið erlendis sjö sinnum yfir jólin og ekki saknað neins þannig séð. Þegar ég bjó á bóndabæ í Ekvador fékk ég þó af einhverjum ástæðum sterka löngun til að baka sörur. Það er ekki frásögur færandi en eldhúsið var mjög frumstætt og engin áhöld önnur en rifjárn, pískur og gaseldavél. Það tók mig sjö klukkutíma að rífa möndlurnar og þeyta allt og baka sörurnar. Jólaandinn helltist sannarlega ekki yfir mig við þennan verknað því eftir allt erfiðið tímdi ég varla að deila þeim með öðru fólki. Ég notaði þær frekar sem gjaldmiðil og fékk eitthvað matarkyns í staðinn fyrir eina, sannarlega handgerða söru. En nei, ætli mér þyki nokkuð ómissandi um jólin,“ segir Marta.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvernig voru fyrstu jólin ykkar saman?

„Það var í London, ljósin voru stórkostleg og ég naut þess svo að ganga um borgina í jólaskrúðanum,“ segir Jan.

Marta man sérstaklega eftir því að þurfa að bíða eftir sínum heittelskaða. „Við kynntumst í september og jólin það ár ætluðum við foreldrar mínir og frænka sem býr í Danmörku að vera í London yfir jólin og Jan var auðvitað boðið með. Hann er með kólumbískt vegabréf og þarf vegabréfsáritun til að mega fara til Bretlands. Það var svolítið vesen og svo tafðist umsóknin eitthvað eins og oft í þessum málum og Jan fékk áritunina loksins 24. desember, sem er ekki rauður dagur á Spáni en hann sótti um áritunina þar. Hann mætti svo til London 26. desember eins og sannur jólapakki. Jan gaf mér bókina 100 ára einsemd eftir kólumbíska Nóbelsskáldið Gabriel García Márquez, hann var greinilega mjög hrifinn af mér og hélt ég gæti allt því hann gaf mér hana á spænsku.“

Ljósmynd/Aðsend

Dans og partí á jólunum

Hvernig eru jólin í Kólumbíu?

„Níu dögum fyrir aðfangadagskvöld hittast fjölskyldur og vinir að kvöldi til og smíða lítið jólaþorp fyrir Jesúbarnið og Maríu mey fyrir heimilið. Allir vilja hafa slíkt á sínu heimili og þetta er því endurtekið á nýjum stað á hverju kvöldi næstu níu daga. Það er einnig farið með bænir, sungið saman og borðað natilla og bunuelos. Bunuelos eru einskonar djúpsteiktar brauðkúlur með osti í miðjunni og natilla er sætur búðingur, og nei, ég hef aldrei séð neinn borða natilla með rjóma. Í sumum hverfum og götum er rosalega mikið skreytt. Á aðfangadagskvöld er þeim götum lokað og það er stórt hlaðborð sem allir mæta með eitthvað á, yfirleitt eitthvað sem hefur verið í undirbúningi allan daginn, og það er mikið dansað og spiluð tónlist. Börnin eru með til um níu á kvöldin og svo á miðnætti eru þau vakin til að opna jólagjafir. En hjá þeim sem búa ekki nálægt slíkri götu þá er yfirleitt matarboð í heimahúsi og eftir það er farið á milli húsa í stærra partí,“ segir Jan.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólin á Íslandi eru ansi frábrugðin þeim sem Jan ólst upp við. „Í fyrsta lagi þá sést ekki til sólar í Grundarfirði í desember, fjöllin eru fyrir. Það er mér mjög framandi. Hér er engin partístemning heldur er lögð áhersla á að hafa það huggulegt og aðeins nánasta fjölskylda. En hvor tveggja jólin mín hér voru reyndar einhverjar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins. Mér finnst hefðin að gefa bækur í jólagjöf mjög áhugaverð og flott. Svo er mikið myrkur og mikið skammdegi sem ég er ekki vanur. Mér finnst jólin á Íslandi mjög fín, mér líkar þau. Í ár verð ég í Kólumbíu um jólin og ætla að bjóða foreldrum og ættingjum upp á möndlugraut með rjóma og gefa nokkrar bækur.“

Ljósmynd/Aðsend

Upplifði öðruvísi jól í Ekvador

Marta er nokkuð afslöppuð þegar kemur að jólahefðum og þrátt fyrir að eiga góðar æskuminningar frá jólunum hefur hún ekki reynt að endurskapa þær á fullorðinsárum.

„Undanfarið hafa jólin verið bara allskonar. Á síðustu níu árum hef ég þrisvar verið í Ekvador yfir jólin og einu sinni í London. Ég var einu sinni ein heima í Grundarfirði. Þá átti ferðaskrifstofa sem hafði verið fastakúnni á gistiheimili foreldra minna í nokkur ár bókað öll herbergin á aðfangadag og næstu nætur. Foreldrar mínir og amma fóru til útlanda yfir jólin, á þeim tíma bjó ég í Reykjavík og deildi íbúð með þremur öðrum og fannst tilhugsunin um að fá húsið þeirra út af fyrir mig í jólafríinu og passa gistihúsið bara ljómandi góð. Ég var ekkert að auglýsa það enda vissi ég að fólk myndi bara fara að hafa einhverjar óþarfa áhyggjur af mér, verandi ein um jólin, en svo allt í einu spurðist það út og ég fékk í allskonar heimboð frá Grundfirðingum, sem var mjög sætt. Þannig að ég fór í mörg matarboð hjá góðu fólki og fékk mikinn yl í hjartað, góðan mat og skemmtilega samveru. En látum það fylgja sögunni að téð ferðaskrifstofa hafði verið í sambandi við mig dagana áður en mætti svo bara ekki neitt á aðfangadag og vildi ekki borga neitt og hefur ekki haft samband við okkur síðan.“

Smáforritið Tinder leiddi Mörtu og Jan saman.
Smáforritið Tinder leiddi Mörtu og Jan saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur þú prófað að fara til Kólumbíu í desember?

„Ég hef enn ekki farið til Kólumbíu með Jan. En ég hef verið þrisvar í næsta landi, Ekvador. Það var alveg frábært. Eitt skipti bjó ég á bóndabæ með lífrænni grænmetisræktun og það var mikið umstang í kringum jólin og mikið um að vera. Naggrísum og svínum, sem við höfðum fóðrað með grænmetisafskurðum allt haustið, var slátrað fyrir jólamáltíðina og svo var eiginlega bara partí sem byrjaði á hádegi. Fyrir áramótin var svo keppni í þorpinu um hver bjó til magnaðasta flugeldaskúlptúrinn. Þá var allskonar Parísarhjól og hvaðeina smíðað saman og svo var flugeldum hlaðið á það og það varð svona eins og dómínókubba-keðjuverkun þegar kveikt var á fyrsta flugeldinum. Þetta var vægast sagt hættulegt og sumir skúlptúrarnir fóru á hreyfingu og flugeldarnir skutust að okkur áhorfendunum.

Næst var ég í Ekvador með Guðbjörgu systur minni og á aðfangadag fórum við í fjallahjólaferð á eldfjallið Cotopaxi sem var alveg ótrúlega gaman. Við fórum svo á einhvern veitingastað og fengum þríréttaða máltíð og í eftirrétt var boðið upp á skúffuköku sem var skreytt með bleikri jógúrt. Um áramótin vorum við svo sjálfboðaliðar á skátamóti sem var haldið í Ekvador fyrir öll lönd í Suður-Ameríku og það var smá flugeldasýning og svo ball.

Þriðja skiptið var ég ein og hitti nokkra vini í Ekvador í kringum jólahátíðirnar og mætti í fjölskyldujólaboðin þeirra og það voða notalegt. En á áramótum var ég stödd á leiðtoganámskeiði fyrir 20 til 25 ára skáta frá öllum löndum í Norður- og Suður-Ameríku. Það voru tvö ungmenni frá hverju einasta landi og sjálfstjórnarhéraði, til dæmis öllum eyjunum í Karíbahafinu, á námskeiðinu og það var alveg stórkostleg upplifun og mikið fjör. Ég hef aldrei orðið vitni að öðrum eins tilþrifum í dansinum og þegar allt þetta fólk kom saman til að fagna áramótum.“

Ætlar að selja kaffi á jólunum

Eigið þið skemmtilegar minningar um jólagjafir?

„Í fyrra var ég með foreldrum mínum, ömmu og Jan á aðfangadagskvöld og til að það yrði nú eitthvað að gera hjá okkur eftir kvöldmatinn fór ég á bókasafnið á Þorláksmessu og tók út fjórar bækur við hæfi hvers og eins og pakkaði inn. Jan fékk svo gjöf til viðbótar og það var mjög auðvelt val, ég hafði nefnilega gefið honum pakka um jólin árið áður sem hann var ekki enn búinn að taka úr plastinu, svo ég pakkaði henni bara aftur inn og skellti undir tréð. Því miður get ég ekki notað hana í þriðja sinn þar sem hún var notuð um daginn,“ segir Marta.

„Einu sinni vaknaði ég um miðja nótt og allir gluggarnir heima voru lokaðir svo ég vakti pabba minn og sagði að hann þyrfti að opna glugga svo jólasveinninn kæmist inn. Næsta morgun vaknaði ég svo og undir trénu beið mín gjöf frá jólasveininum, það var rafmagnslest og ég var alsæll,“ segir Jan og segir mikla nostalgíu fylgja þessari minningu.

Í ár ætla hjónin að verja jólunum sitt í hvorri heimsálfunni. Þau stofnuðu kaffibrennsluna Valeria í Grundarfirði fyrr á þessu ári og ætlar Marta að standa vaktina á kaffihúsinu í ár. „Það verður náttúrulega bara mjög skemmtilegt að koma kaffihúsinu í jólagírinn, breyta umbúðunum fyrir kaffibaunirnar og gera þær jólalegar og taka á móti fólki í jólaskapi,“ segir Marta. Jan ætlar hins vegar til Kólumbíu þegar hann verður búinn að rista nóg af kaffi á kaffihúsinu, en hjónin flytja inn kaffi frá heimalandi Jans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál