Landsmenn voru afar hressir á árinu sem er að líða. Fólk fagnaði frelsinu eftir kórónuveirufaraldurinn og naut þess í botn að hittast. Þegar öllu er á botninn hvolt þá er maður alltaf manns gaman sama hvað gengur á.
Það var fjör í Hvammsvík í Hvalfirðinum þegar Gríma Thorarensen innanhússarkitekt og Skúli Mogensen athafnamaður héldu teiti til þess að fagna opnun sjóbaðanna. Það var fullt út úr dyrum en þar sem teitið var í sveitinni var enginn berleggjaður og enginn í pallíettum.
Einar Bárðarson fagnaði 50 ára afmæli sínu á árinu sem er að líða og bauð vinum sínum í afmælisveislu á Sjálandi. Þangað mætti Stefán Hilmarsson og eiginkona hans, Anna Björk Birgisdóttir, Birgitta Haukdal, Bjarni Ármannsson og Helga Sverrisdóttir fjárfestar svo einhverjir séu nefndir.
Sólveig Pétursdóttir fyrrverandi dóms-og kirkjumálaráðherra fagnaði 70 ára afmæli sínu í Gamla bíói. Svanhildur Hólm Valsdóttir og Sólveig Hannesdóttir voru veislustjórar í afmælinu og varð ekki þverfótað fyrir fólki úr stjórnsýslunni í veislunni.
Lárus Welding fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Glitnis gaf út bókina Uppgjör bankamanns á dögunum. Vorið 2007 fékk hann starfið, þá þrítugur að aldri, og gegndi stöðunni í 17 mánuði eða þangað til bankarnir féllu í byrjun október 2008.
Gleðin var allsráðandi þegar íþróttafélagið Grótta á Seltjarnarnesi hélt glæsilegt kvennakvöld í hátíðasal félagsins.
Baltasar Kormákur og Sunneva Ása Weisshappel voru upp á sitt besta þegar þau mættu saman í Laugarásbíó þegar kvikmynd hans, Beast, var frumsýnd hérlendis. Á frumsýninguna mættu líka Guðrún Dís Emilsdóttir og Kristján Þór Magnússon, Ágústa Johnson og Guðlaugur Þór, Ólafur Ragnar og Dorrit Mousaieff.