Oft skömmuð fyrir skoðanir sínar

Eva Hauksdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson voru gestir í nýjasta …
Eva Hauksdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson voru gestir í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar. Samsett mynd

Lögfræðingarnir Eva Hauksdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson eru nýjustu gestirnir í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Eva segist orðin vön því að fólk fari í fýlu út í hana fyrir skoðanir sínar.

„Ég hef oft verið skömmuð fyrir að vera sammála Jóni Steinari og öðrum, en fólk veit ekki alveg af hverju og hefur í raun engin rök. Ég á alltaf jafn erfitt með að botna í þessari hugmynd um að við eigum að vera í einhverju liði. Þetta er einhvers konar hjarðhegðun, þar sem fólk virðist almennt hrætt við að lenda í átökum við vini eða þá sem eru sammála þeim.

Þetta er svolítið eins og þegar við vorum börn í skólastofu og vorum spurð að einhverju og allir líta í kringum sig til að skoða hvað hinir eru að hugsa. En við erum ekki lengur átta ára og eigum sem fullorðið fólk að vera fær um að lenda í hugmyndafræðilegum ágreiningi við þá sem við erum alla jafna sammála. Ég skora á fólk að prófa að þora að vera ósammála,” segir Eva.

Fólk of smeykt við að hafa sjálfstæðar skoðanir

Eva og Jón hafa bæði vakið athygli fyrir að segja skoðanir sínar umbúðalaust opinberlega í gegnum tíðina. Jón Steinar segir fólk upp til hópa of smeykt við að hafa sjálfstæðar skoðanir og þora að segja þær upphátt.

„Fólk segir gjarnan um mig að það sé margt ágætt sem ég segi, en það sé nú oft ekki sammála mér, en þegar ég geng á eftir fólki og spyr hvað það er sem það er svona mikið ósammála í því sem ég segi verður yfirleitt fátt um svör. Ég er settur á einhvern stað í samfélagsumræðunni í stað þess að ég sé bara alfarið metinn eftir því sem ég raunverulega segi. Ég skora bara á almenning að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og hætta að vera í liði eða óttast að segja það sem því raunverulega finnst,” segir Jón Steinar.

Eva bendir á að það skili engu að ganga lengra og lengra í ritskoðun og boðum og bönnum.

„Uppgangur nýnasisma í Evrópu er mestur þar sem hann er bannaður. Það hlýtur að segja okkur eitthvað. Leiðin til að eiga við slæmar skoðanir er ekki að ýta þeim undir yfirborðið og banna þær, heldur þvert á móti að draga þær upp á yfirborðið og rökræða þær og ræða. Mér finnst fjölmiðlaumræða um viðkvæm mál oft á tíðum orðin allt of einsleit. Það er oft nefnt að helförin hafi byrjað á því að einn stjórnmálaflokkur hafi náð völdum á umræðunni í gegnum fjölmiðla, sem er alveg rétt. En núna er það ekki einn flokkur sem er með völdin, heldur einhvers konar hreyfing sem vill stjórna allri umræðu. Ég er félagshyggjusinnuð, en á alltaf minna og minna sameiginlegt með svokölluðum vinstri hugmyndum. Það er ekki af því að mínar skoðanir hafa breyst, heldur af því að vinstrið er alltaf að færa sig meira og meira í öfgafyllri átt,” segir Eva. Jón bætir við og ber saman við stríðið við fíkniefni.

„Þetta er á vissan hátt sambærilegt eins og með fíkniefnin, þar sem bölið virðist vera mest þar sem mest er verið að banna hlutina. Ég er búinn að halda því fram í áratugi að það sé langfarsælast að lögleiða fíkniefni og það er fyrst núna sem ég finn að mjög margir eru sammála mér. En þessi tilhneiging að ætla að laga alla hluti með bönnum er ekki farsæl lausn í mínum huga. Við verðum að hugsa hvert við erum að fara og það að ætla að taka upp lögregluríki þar sem er stanslaust verið að vernda fólk fyrir hinu og þessu er ekki lausn. Einhvers staðar liggur auðvitað línan, en við verðum alltaf að verja hið frjálsa samfélag og frelsi borgara til orða og athafna.”

Fólk grípi full auðveldlega í hugtakið hatursorðræðu

Eva segir að ef fólk missi vini út af því að það megi ekki hafa aðrar skoðanir verði það að skoða hvort slíkur vinskapur sé þess virði yfir höfuð. Í þættinum ræða þau einnig um hatursorðræðu sem hefur verið mikið rædd í samfélaginu. Eva segist þeirrar skoðunar að fólk sé farið að grípa full auðveldlega í þetta hugtak.

„Það er ákvæði í hegningarlögum að það geti verið refsivert að tala þannig um ákveðna hópa að það geti leitt til ofbeldis. Upphaflega hugmyndin er að það megi ekki tala þannig að það sé verið að hvetja til ofbeldis, en nú er þetta farið að ganga mjög langt. Í raun er þetta farið að ná yfir minniháttar móðganir núna og því búið að gengisfella hugtakið talsvert, alveg eins og að fólk notar núna orð eins og ofbeldi og fasisma til að afgreiða umræður á einfaldan hátt,” segir Eva. „Það er athyglisvert að á sama tíma og það er mikill þrýstingur á að ganga lengra og lengra í að það megi ekki tala um ákveðna hópa, virðist vera í lagi að sverta einstaklinga, sérstaklega ef um er að ræða miðaldra hvíta karla,” segir Eva. 

„Þegar farið er að ganga langt í að setja reglur um að það megi ekki tala um ákveðna hópa er það að mínu mati bara óheimil skerðing á tjáningarfrelsi. Fólk verður að bera ábyrgð á því sem það segir, en fólk verður að mega tjá sig svo framarlega sem það er innan ramma laganna og er ekki beinlínis að meiða aðra. Ég er auðvitað hlynntur því að verja æru manna, en það sem núna er kallað hatursorðræða um hópa, sem er alltaf að ganga lengra og lengra er mjög undarleg þróun.

Til dæmis ef einhver segist efast um réttmæti þess að gera skurðaðgerð á barni sem er ekki komið til vits og ára, þá getur það ekki verið hatursorðræða. Í mínum huga hlýtur einstaklingur að þurfa að fá að ákveða slíkt sjálfur eftir að hann er orðinn fullorðinn. Ef þú talar almennt um mál án þess að meiða einstaklinga hljótum við að geta verið sammála um að það eigi að vera í lagi að rökræða. Og ef fólk talar almennt á lítilsvirðandi hátt um hópa held ég að þjóðfélagið sé komið á það þroskastig að slíkt fordæmi sig að sjálfu sér.”

Þátt­inn með Evu og Jón Steinar og alla aðra þætti Sölva Tryggva­son­ar má nálg­ast inni á vef þátt­anna.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda