„Hélt að ég væri að deyja“

Ásdís Olsen.
Ásdís Olsen. mbl.is/Árni Sæberg

Ásdís Ólsen segir að ofsakvíðakast hafi gjörbreytt lífi sínu. Ásdís, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, hefur um árabil kennt núvitundarhugleiðslu og jákvæða sálfræði. Hún segir að það ferðalag hafi byrjað á því að hún klessti sjálf á vegg. 

„Þetta ferðalag byrjaði eiginlega með því að ég fékk ofsakvíðakast og þurfti að fara upp á bráðamóttöku og hélt að ég væri að deyja. Þegar það kom svo í ljós að það var ekkert líkamlegt að mér, neyddist ég til að skoða hvað það væri í hugsunum mínum sem væri að valda því að taugakerfið færi í svona rosalega flækju. Á endanum varð það eiginlega stærsta opinberun lífs míns að sjá fyrir alvöru þessi varnarkerfi, þar sem hausinn á manni er að segja manni að maður sé í lífshættu í tíma og ótíma. Þegar ég fór svo á fullt í að læra um núvitund og hugleiðslu áttaði ég mig á því að ég var búinn að læra endalaust af hlutum í öllu mínu námi, en ekki um minn eigin huga og hvernig hann starfar. Ég man að þegar ég byrjaði að læra þessa hluti hugsaði ég með mér að þetta ætti að vera kennt í grunnskólum og að það væri galið að við færum í gegnum allt þetta nám án þess að læra um okkar eigin huga og hugsanakerfi.”

Ásdís hefur vakið athygli með þáttum sínum Undir Yfirborðið þar sem oft er fjallað um óhefðbundna hluti. Hún segist ekki kunna að ritskoða sig og breyta sjálfri sér eftir áliti annarra. 

„Ég er frekar opinská og hef tilhneigingu til að segja bara það sem ég er að hugsa og stundum finnst sumum það of mikið. Ég er kannski í grunninn stundum „naive“ og það kemur fyrir að fólk í kringum mig segir að ég ætti að plotta meira og hugsa um það sem ég segi, en það er bara ekki ég. Ég verð alltaf sáttari og sáttari við að þora bara að vera alltaf ég sjálf og vera sama um hvað öðrum finnst. Ég hef ekkert að skammast mín fyrir og átta mig stundum ekki á því af hverju við getum ekki bara tjáð okkur meira og þorað að vera skrýtin í augum einhverra. Líklega kemur þetta líka auðveldar þegar maður er búinn að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum og losa sig við skömm. Ef að það sem að maður segir truflar aðra mjög mikið hefur það yfirleitt ekkert með mann sjálfan að gera.“

Ásdís segist mikið hafa velt því fyrir sér hvernig væri hægt að breyta því kerfi sem við höfum komið okkur upp og segist sannfærð um að það væri hægt að haga hlutunum öðruvísi, okkur öllum til hagsbóta. 

„Ég held að þetta ætti að vera einhvern vegin allt öðruvísi og við höfum villst af leið. Mér finnst ákveðin úrkynjun vera í gangi af því að við erum komin svo langt frá því sem er eðlilegt. Það er einhver vinnumarkaður og vinnutími sem stjórnar lífum okkar. Dagvistun snýst um hvað hentar vinnumarkaðnum, skólakerfið er hannað eftir því hvenær foreldrarnir eru í vinnu og svo framvegis. Ég er menntunarfræðingur og hef í mörg ár verið mjög upptekin af uppeldis- og fjölskyldumálum. Það er augljóst að við höfum upp til hópa of lítinn tíma til að vera frjáls og vera saman. Ég held að það sé á margan hátt stærsta verkefnið okkar að skoða þetta og gera breytingar. Meira að segja þegar við horfum á öll heilsufarsvandamálin og sálræn vandamál, þá er það beintengt því að við höfum ekki náð að sinna uppeldismálunum nógu vel. Það er mín skoðun að ef við myndum hlúa betur að barnafjölskyldum og gefa meiri tíma til að sinna börnum betur og gefa þeim meiri tíma, þá værum við að leysa mikið af öðrum vandamálum. En það er ekki hægt að vera einn eða ein í þessu og þess vegna þyrftum við að taka okkur saman um að gera breytingar.“

 Hægt er að hlusta á brot úr hlaðvarpsþætti Sölva á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál