Áfall fyrir Svein þegar bróðir hans var myrtur á varðskipinu Tý

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er gestur Sölva Tryggvasonar í þessari viku.
Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er gestur Sölva Tryggvasonar í þessari viku. Ljósmynd/YouTube.com

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson hefur öðlast nýtt líf og lést um nærri hundrað kíló eftir að hafa verið nánast hættur að geta gengið. Sveinn, sem segir sögu sína í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir að verkefnið hafi verið stórt og að hann hafi þurft að kortleggja málin vel. 

„Ég er markþjálfi og erfiðasta verkefnið var að markþjálfa sjálfan mig. Ég var mest orðinn um 200 kílógrömm og það er mjög skrýtið fyrir mig að sjá myndir af mér frá þeim tíma. En það þýðir ekkert að dæma sjálfan sig. Ég hafði áður gert tilraunir til að létta mig og stundum náði ég að léttast mikið, en svo kom það alltaf aftur. Ég hef prófað allar leiðir, hvort sem það eru megrunarkúrar eða ofurduft, en það er ekki til nein töfralausn. Það sem ég áttaði mig kannski ekki á er að það eru líka tilfinningalegar ástæður fyrir því þegar maður fer í svona mikla ofþyngd og gömul áföll spila líka hlutverk, þannig að maður verður að vinna í hugarfarinu og tilfinningunum líka. Fyrst af öllu verður maður að tala fallega til sjálfs sín þegar maður byrjar svona ferli og ná að elska sjálfan sig þar sem maður er og þannig byrja að gera hugarfarsbreytingu. Aðgerðin sem ég fór í hefði ekki skilað neinu ef ég hefði ekki tekið hugarfarið með inn í myndina líka. Heilsan mín í dag er allt önnur. Ekki bara vegna þess að ég er léttari. Ég fer reglulega í blóðprufur og það mælist allt betra. Hvort sem það eru vítamín, kólesteról, starfsemi lifrarinnar eða annað.”

Sveinn segist hafa öðlast algjörlega nýtt líf eftir að hafa tekið sjálfan sig í gegn þegar hann áttaði sig á því að hann var að stimpla sig út. 

„Ég fór í markvissa vinnu fyrir um þremur árum þar sem ég ákvað að taka bæði hugarfarið, heilsuna og líkamann alveg í endurskoðun. Þetta byrjaði á ferli þar sem ég tók eitt skref í einu í að breyta öllu í lífsstílnum og síðan fór ég í hjáveituaðgerð, eftir að hafa undirbúið mig vel undir hana bæði andlega og líkamlega. Ég var kominn á mjög vondan stað líkamlega. Ég var farinn að lamast út af verkjum í baki og fóturinn öðrum megin var farinn að gefa sig algjörlega. Ég datt mjög reglulega og var kominn með mikil einkenni út um allan líkama, meðal annars þrengingu í mænugöngum. Ég var í raun kominn með rauða spjaldið og það var annað hvort að gera eitthvað í þessu eða að það væri bara búið að dæma mig alveg úr leik,” segir Sveinn Hjörtur, sem segir að það hafi hjálpað að hafa heiðarlegt og gott fólk í kringum sig. 

„Það þýðir ekkert að vaða að manneskju í ofþyngd og segja henni að hún verði að léttast og fólk getur verið mjög ónærgætið og í raun fordómafullt. Það var ekkert gaman að vera stöðugt kallaður hlunkur, bangsi eða annað þvíumlíkt. En að sama skapi er gott að hafa fólk í kringum sig sem gerir manni grein fyrir að maður verði að fara að huga að heilsunni. Ef fólk kemur frá stað væntumþykju og segir manni satt þá getur það hjálpað mikið.“

Bróðir Sveins var myrtur um borð í varðskipinu Tý í janúar árið 1980. Sá atburður hafði gríðarleg áhrif á alla fjölskyldu Sveins. Sveinn var aðeins 10 ára gamall þegar atburðurinn átti sér stað og segist strax hafa viljað skilja dauðann. 

„Ég hét því þarna að ég ætlaði að verða prestur af því að ég taldi að það myndi hjálpa mér að skilja dauðann betur og líka gæti ég þá aðstoðað fólk sem myndi missa nákomna. Skrápurinn þykknar svo auðvitað með árunum, en þetta er eitthvað sem hefur setið með mér og allri fjölskyldunni alveg síðan. Ekki bara var það missirinn og sorgin, heldur líka það hvernig þetta gerðist. Hann var myrtur um borð í skipi. Ég man eftir því að öll umræða um málið var eitthvað sem fjölskyldan og sérstaklega mamma var ekki hrifin af. Það var auðvitað engin áfallahjálp á þessum tíma og fólk átti bara að halda áfram. Pabbi vann í lögreglunni og hann byrjaði bara strax að vinna. Auðvitað byrja örin smám saman að gróa, en það verður aldrei neitt eins eftir svona atburð.”

Sveinn segir að það sé í raun ekki fyrr en hann fór að skoða rótina að sínum áföllum og hlutum sem hann hafði ekki mætt sem allt fór að breytast þegar kom að hans eigin heilsu. 

„Fyrir utan stóra áfallið þegar bróðir minn fór, kem ég líka úr heimilislífi alkahólisma og varð fyrir kynferðisbroti sem unglingur og það er með ólíkindum hvað líkaminn og sálin ná að loka þessa hluti inni. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum síðan að ég hætti að blokkera á kynferðisbrot sem ég varð fyrir þegar ég var 12 ára. Þegar ég áttaði mig á því hve mikil áhrif það hafði haft á mig leitaði ég til Stígamóta og ég er enn í strákahópnum þar sem er alveg meiriháttar. Þau hafa hjálpað mér alveg gríðarlega vel. Það er ljósið sem hjálpar manni að ná að þrífa til. Það er ekki hægt að þrífa neitt í myrkrinu og á meðan maður varpar ekki ljósi á hlutina er ekki hægt að laga þá.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál