Var algjörlega rúmliggjandi af alkóhólisma

Lögfræðingurinn og dáleiðarinn Sara Pálsdóttir segist hafa verið komin á botninn í sjálfshatri, fíknum og kvíða þegar hún fann frelsið. Í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar segir Sara sögu sína, allt frá botninum yfir í það hvernig batinn kom.

,,Ég var með góða menntun og út á við átti allt að virka. Við hengjum sjálfsmyndina mjög oft á það sem við gerum og þannig var það hjá mér. Á meðan ég náði prófunum, náði í menntun og leit vel út á pappírunum gat ég verið full alla daga í algjörri afneitun. Svo rúllaði maður bara þessum risastóra snjóbolta áfram. Ég gat alveg lært þó að ég væri alveg sósuð, þannig að ég gat látið þetta virka mjög lengi áður en ég þurfti að gefast upp. Ég var með svo mikla skömm og stolt að ég hefði nánast frekar dáið en að byrja að segja nokkrum manni frá því hvernig mér raunverulega leið. Á endanum var þetta orðið þannig að ég drakk bara uppi í rúmi þangað til ég missti meðvitund. Ég drakk bara „dry“ áfengi, var bara heima og fór ekki neitt. Ég var í raun orðin algjörlega rúmliggjandi af alkóhólisma þegar ég loksins gerði eitthvað í því. Svo var ég líka langt leidd af átröskun og var orðin alveg gríðarlega veik. Ég man svo eftir einum morgni þar sem ég vaknaði og fann hjartsláttinn orðinn mjög hraðan og fannst ég bara vera að deyja og þá áttaði ég mig á því að ég var í alvöru á leiðinni að deyja ef ég gerði ekki eitthvað í málunum. Þarna kom fyrsta ljósið og ég ákvað að berjast fyrir sjálfri mér og velja lífið.“

Þegar þarna var komið var samt löng vegferð fyrir höndum og þó að Sara ákvæði að gera eitthvað í sínum málum voru forritin í hausnum enn mjög sterk.

,,Ég man að þegar ég kom fyrst inn á Vog skildi ég töskuna eftir úti í bíl þannig að ég gæti bara hlaupið til baka og ég var gríðarlega hrædd um að sjá einhvern sem ég þekkti. Svo kom ég inn á Vog og þá var ég bara að hugsa um hvað ég væri í asnalegum inniskóm. Þannig að meira að segja þarna var ég ekki hrædd um að ég væri að deyja úr alkóhólisma, heldur var ég enn bara að hugsa um álit annarra. Þessi forrit voru gríðarlega sterk hjá mér. Það tók mig talsvert langan tíma að verða edrú og svo eftir það þurfti ég að taka á átröskuninni og fór í meðferð á Hvíta bandinu. Ég sé núna að þarna var líf mitt byrjað að snúast við, en samt var eftir mikil vinna í að laga það sem hafði í raun valdið því að ég var með fíkn í áfengi og sjálfshatrið sem olli átröskuninni.“

Sara segir að í sínu tilviki hafi raunverulegur bati byrjað að koma þegar hún fór í dáleiðslu og byrjaði að hugleiða. Þar hafi hún raunverulega byrjað að losa rætur gamalla áfalla, sjálfshaturs og neikvæðra forrita úr undirmeðvitundinni:

,,Ég byrjaði að hugleiða fimm mínútur á dag og setja fókusinn á að ná bata.

Fyrst þurfti ég að pína mig til þess að hugleiða, þó að það væri svona stutt og ég fann að hugurinn var alveg stjórnlaus. En smám saman hófst þetta stórkostlega bataferðalag og með hjálp hugleiðslunnar og dáleiðslu fór alvöru frelsi að koma smátt og smátt. Ég áttaði mig á því að ég hefði verið uppfull af neikvæðri orku og á meðan ég losaði hana ekki væri ég í raun bara að fara áfram á hnefanum. Ég fór að lesa allar bækur sem ég komst í um undirmeðvitundina og fór bara „all in“ og fór svo í kjölfarið í nám í dáleiðslu og lærði heilun. Þegar maður talar um orku fara margir í vörn og eru ekki tilbúnir að hlusta, en ef ég tæki míkrófóninn sem við erum að tala í og myndi smækka hann niður í sínar allra smæstu einingar væru það orkueiningar. Vísindi hafa verið að sýna fram á það að allt er orka. Líkaminn okkar er gerður úr orkueiningum, hugsanir eru orka og tilfinningar eru orka. Við verðum að fara að nálgast þessa hluti úr þeirri átt líka. Þegar ég var að leita allra þessara hefðbundnu lausna sem virkuðu mjög takmarkað fyrir mig var enginn sem gat útskýrt þessa hluti fyrir mér.“

Með bæði náminu og vinnunni sem Sara fór í með sjálfa sig segist hún hafa farið að sjá mjög skýrt ræturnar sem lágu að baki þeim hlutum sem höfðu verið að þjaka hana allan þennan tíma:

„Smátt og smátt fór ég að gera mér grein fyrir rótunum sem höfðu valdið vandamálunum mínum. Ein rótin er sambandið sem við eigum við okkur sjálf. Í mínu tilviki hafði ég glímt við sjálfshatur sem birtist í sjálfsásökunum, sjálfsniðurrifi og kvíða. Þegar við eigum í mjög óheilbrigðu sambandi við okkur sjálf verður til sársauki og aftenging. Önnur rótin er svo þessi uppsafnaða neikvæða orka sem ég hafði safnað inn í líkamann yfir langan tíma með áföllum, neikvæðum hugsunum og tilfinningum. Svo er þriðja rótin óheilbrigt hugarfar og ef maður glímir við síþreytu til dæmis er það gjarnan vegna þess að hugarfarið er stjórnlaust og hugurinn fær aldrei hvíld. Þessi neikvæðu hugarfarsforrit hafa áhrif á líkamann og þreyta kerfið.“

Sara lýsir því í þættinum hvernig hún fékk frelsi og bata frá verkjunum, kvíðanum og sjálfshatrinu og hún segist sannfærð um að allir geti fundið þetta frelsi. Eftir að hafa sjálf öðlast þennan bata segist hún hafa fengið skýra sýn og staðfestu um að hennar hlutverk væri að hjálpa öðru fólki:

,,Ég vinn núna við að kenna fólki á tæki og tól til þess að fjarlægja þessar rætur og breyta hugarfari sínu, þannig að fólk fái varanlegt frelsi. Mín skoðun er sú að þetta frelsi sé í boði, sama hvort það er krónísk þreyta, kvíði, þunglyndi eða síþreyta. Vinnan með nánast alla sem leita til mín endar alltaf í þessum þremur rótum og með því að vinna á þeim og breyta þeim byrjar frelsið að koma. Í gegnum mitt eigið bataferðalag fékk ég sýn þar sem ég sá að mér var ætlað að hjálpa öðrum sem væru að glíma við það sama og ég hafði glímt við. Síðan þá hef ég verið að elta þessa sýn, allt síðan 2019. Fyrst hélt ég að ég gæti verið að starfa áfram sem lögmaður, enda var ég að reka mína eigin stofu og gekk vel. Ég gerði það í ákveðinn tíma, en núna er dáleiðslan, námskeiðin og fyrirlestrarnir orðið aðalvinnan mín, enda finn ég að þetta er það sem mér var ætlað að gera. Ég finn að lögmennskan á ekki lengur hjarta mitt og þá er ekki tilgangur með því að vera áfram þar. En auðvitað getur það tekið talsverðan tíma að slíta sig alveg burt, enda geta mál tekið mörg ár ef þú ert búin/n að taka þau að þér. En ef hjarta þitt er ekki lengur í hlutunum ertu ekki að gera neinum gagn með því að halda þeim áfram. Það er meira en nóg af góðum lögmönnum. Ef maður finnur tilganginn svona sterkt á maður að elta það, enda er enginn betri en þú í nákvæmlega því sem þér er ætlað að gera. En ef þú ert að keppa við fólk í einhverju þar sem hjarta þitt fylgir ekki, þá er mjög líklegt að aðrir séu miklu betri en þú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál