Helgi og Pétur kynntust fyrst á Myspace en svo bankaði ástin upp á

Helgi Ómarsson og Pétur Björgvin Sveinsson svífa um á bleiku skýi þessa dagana eftir að Pétur fór á skeljarnar. Helgi og Pétur voru hvorugir að leita að ástinni í fyrra en örlagadísirnar voru með allt annað í huga.  

Helgi og Pétur kynntust fyrst á Myspace og bjuggu á sama tíma í Danmörku. Þegar þeir bjuggu þar skrifuðust þeir oft á og telur Pétur að mögulega hafi ástarfræinu verið stráð þar.

„Svo var það fyrir svona rúmu ári að við einhvern veginn tengdumst aftur, vináttan kviknaði fyrst og svo var það fljótt ljóst að það væri eitthvað meira. Ætli ég sé ekki búinn að vera hrifinn af honum í 15 ár og nú vorum við og alheimurinn tilbúinn fyrir okkur,“ segir Pétur. Helgi hefur sömu sögu að segja og segir að þegar hann átti síst von á hafi eitthvað svakalegt blossað upp á milli þeirra. Hann segir gaman að hugsa til þess í dag að þeir hafi verið skotnir í hvor öðrum í mörg ár. 

Erfitt að leyna hamingjunni

Helgi er vinsæll á samfélagsmiðlum og vekur gjarnan athygli þar sem hann fer. Hann segir þá hafa farið varlega þegar þeir voru að byrja hittast.

„Við vorum auðvitað báðir á mjög skrýtnum stöðum í lífinu svo við vildum ekki fara hratt í hlutina. Sem okkur tókst mjög vel, við lögðum mjög skýran grunn um hvað við vildum út úr lífinu og hvort við vorum hreinlega tilbúnir að hoppa aftur í sambandslaugina. Svo ég er mjög þakklátur fyrir hvað við fengum mikinn tíma fyrir bara okkur tvo. Það er stór partur af því sem sambandið okkar er í dag. En svo þegar kötturinn var úr pokanum, var mjög erfitt að leyna hvað ég var hamingjusamur með honum,“ segir Helgi. 

Hvernig var fyrir þig Pétur að byrja með manni sem er þekktur og allt í einu vita allir hver þú ert?

„Ég er lítið að kippa mér upp við þetta. Mér finnst þetta bara lúmskt gaman, vissi að þetta myndi fylgja og Helgi hefur verið ótrúlega skilningsríkur og tillitssamur. Æðislegt hvað viðbrögðin alls staðar hafa verið frábær. Ég bíð þó enn eftir að maður verður stoppaður í Hagkaup.“

Auðveld spurning – auðvelt svar

Pétur var tiltölulega nýkominn úr öðru sambandi þegar hann hitti Helga aftur og segist ekki hafa verið að leitast eftir nýju sambandi, hvað þá trúlofun og hjónabandi. „Helgi hafði hjálpað mér mikið í því að vinna úr því sem fylgir sambandsslitum og þá fékk ég í fyrsta sinn að kynnast því vel hversu ótrúlega falleg sál hann er. Trúlofunin þá var það bara svo náttúrulegt, ég veit að mig langar að eiga Helga að þangað til að jarðarvistinni líkur og þá var bara eitt í stöðunni. Þegar maður veit, þá veit maður.“

Helgi var heldur ekki að leita sér að framtíðareiginmanni. „Þegar ég hitti Pétur upp á nýtt þá var planið mitt persónulega að fara aldrei aftur í samband, og helst bara aldrei þurfa að málamiðla með karlmanni á nokkurn hátt aftur. En ég var svo sannarlega til í að styðja hann í gegnum skrýtna tíma í hans lífi með sambandsslit og var það ásetningurinn. En alheimurinn hafði önnur plön og núna gæti ég ekki hugsað mér lífið án hans.“

Pétur ákvað bera upp bónorðið í byrjun mars og dagsetningin var ekki tilviljun. 

„Helgi var búinn að grínast og ekki grínast með það að honum langaði flotta tölu tengda brúðkaupinu og nú væru nokkrar flottar framundan. Hann vildi skjótast til sýslumannsins 22.12..22 eða 22.11.22. Í febrúar í ár var ég orðinn alveg viss um að ég vildi giftast Helga og ég vissi að það var mikið um töluna 3 í fjölskyldunni hans. Þannig að þá datt ég á 03.03.23 og ákvað að það yrði dagurinn sem ég myndi biðja hans,“ segir Pétur um ákvörðunina. 

Þennan dag í byrjun mars stakk Pétur upp á því að þeir færu með hundinn Noel upp í Paradísardal eins og þeir gera oft en Pétur segir að staðurinn skipti Helga miklu máli. 

„Þegar við byrjuðum að stinga nefjum saman þá fórum við nokkrum sinnum þangað til að geta verið bara við. Það var ótrúlega mikið af fólki þarna þennan dag þannig að ég stakk upp á að við færum aðeins út af slóðanum. Ég fann fallegan stað, umkringdan skógi með útsýni yfir borgina og Faxaflóa. Svo sagði ég við Helga hvort þetta væri ekki dagurinn sem við ætluðum að gifta okkur á og við hlógum aðeins að því. Sagðist svo kannski ekki geta gift okkur í dag en fór þá á skeljarnar og bað hann um að giftast mér. Auðveldasta spurning sem ég hef spurt,“ segir Pétur. 

„Það sem ég er þakklátastur fyrir er í raun staðurinn sem hann valdi. Paradísardalurinn var minn heilunarstaður þegar ég var á erfiðum stað í lífinu og hann skiptir mig miklu máli. Og ég tek undir það sem Pétur sagði, auðveldasta spurning sem ég hef svarað,“ segir Helgi. 

Bæta hvor annan 

Hvað er það sem heillar helst í fari hvors annars?

„Vá, hvar á ég að byrja. Það sem allir sjá er náttúrulega hversu stór glæsilegur hann er. Hann er með mjög háa tilfinningagreind og góður í samskiptum sem skiptir öllu máli og það hefur tekið samband okkar í nýjar víddir. Helgi er hreinlega fallegasta mannvera sem ég veit um, trúi því hreinlega ekki hversu ótrúlega heppinn ég var að leiðir okkar skyldu loksins liggja saman. Hann er svo réttsýnn, traustur, fyndinn, duglegur og umhyggjusamur,“ segir Pétur. 

„Ég gaf aumingja manninum ekkert of mikið kredit þessa áralöngu vináttu okkar áður en við fórum að hefja kossalætin, ég var ekki tilbúinn að trúa að hann væri eins fallegur að utan og innan. Ég segi stundum að ég sá hann svolítið sem svona tóman prótínsjeik. Enda vaxinn eins og hann hafi verið skúlptúreraður af grískum myndhöggvara á dögum Herkúlesar, en ótrúlegt nokk er þetta hjartahlýjasti, skilningsríkasti og stuðningsríkasti maður sem ég hef hitt. Ég er enn að venjast hvað hann er góður, sem er rosalega mikið lúxusvandamál ef svo má kalla,“ segir Helgi um unnustann. 

Pétur og Helgi segjast vera algjört Ying og Yang og hefur það gengið ótrúlega vel að sameina þeirra ólíku hliðar og þeir hafa lært mikið af hvor öðrum. Helgi segir að sambönd með ólíku fólki séu langskemmtilegust. 

„Það getur alveg verið áskorun og það er eitthvað sem ég fagna. Það sem sameinar okkur þessi ævintýraþrá og að gera spennandi hluti, ekki bara að ferðast. Heldur að okkar daglega líf sé spennandi og skemmtilegt,“ segir Pétur. 

„Það er ekkert skemmtileg tilhugsun að eiga maka sem er alveg eins og maður sjálfur, ég mundi aldrei nenna að vera með manni eins og mér. Lætin í mér eru alveg fjandi nóg. Hann dregur mig á jörðina og kennir mér endalaust. Við bætum hvern annan á rosalega mörgum stöðum, það er bara algjör lífsgæði,“ segir Helgi. 

Aðspurðir hvað þarf að hafa í huga í góðum samböndum segja þeir mikilvægt að hlusta á makann en á sama tíma þarf að hugsa um sjálfan sig í sambandinu. Helgi leggur áherslu á nota ekki orðin „þú“, „alltaf“ og „aldrei“.

„Svo finnst mér líka langstærsti parturinn af sambandi að vera með makanum þínum í liði, og hvetja hann endalaust. Skil ekki þegar fólk notar makann sinn eins og einhvern boxpúða eða einhvern til að blasta innri gremju á. Það er glórulaust fyrir mér. Og annað gott atriði, aldrei vera með þær væntingar að makinn þinn lesi hugsanir þínar, tjáðu þarfir og spurðu. Jú og svo aðal og besta sambandsráðið. Ef makinn þinn er ekki nógu tilfinningagreindur til að hlusta, bæta, taka ábyrgð, gera betur, eða er einfaldlega að taka meira af þér en bæta lífið þitt. Skilaðu honum og „live your best fokking life“,“ segir Helgi. 

Elska að vera trúlofaðir

Helgi og Pétur eru ánægðir með lífið eins og er og segjast vera hamingjusamastir í hversdeginum eða upp í bústað með hundinum. Eins og er njóta þeir þess að vera trúlofaðir en eru þó aðeins byrjaðir að hugsa um næsta skref, giftinguna sjálfa. 

„Mér finnst þetta æði! Ég einhvern veginn vissi ekki hvernig og hvort tilfinningin myndi breytast eitthvað. Ég elska að vera trúlofaður Helga, elska að ég muni giftast honum og fagna ástinni með okkar besta fólki,“ segir Pétur. 

„Mér finnst þetta ógeðslega gaman. Smá súrrealískt líka. Ætli ég sé ekki enn að trúa að honum langi í alvöru að vera með þessari ADHD túttu að eilífu. Með eindæmum þolinmóður maður. Ég væri samt að ljúga ef ég er ekki búinn að spá í næsta skrefi. Þau sem þekkja mig vita að allt þarf að vera mjög sjónrænt og flott. Það finnst mér eiginlega mest spennandi parturinn. En gæti í raun farið til sýslumanns á morgun þannig séð,“ segir Helgi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál