Ekkert áfengi og reykingar bannaðar

Freyr Eyjólfsson fermdist í Árbæjarkirkju.
Freyr Eyjólfsson fermdist í Árbæjarkirkju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarhagkerfis hjá SORPU, fermdist fyrir 36 árum. Hann fékk gjafir sem nýttust mjög vel og hann notar enn. Í ár fermist sonur Freys og ætlar fjölskyldan að reyna að hafa fermingarveisluna eins umhverfisvæna og hægt er.

„Ég fermdist 26. apríl 1987 í Árbæjarkirkju, nýfluttur úr Breiðholtinu yfir í Grafarvoginn, ásamt Gunnari frænda mínum. Við vorum ekki sérlega duglegir að lesa kverið og skrópuðum í öllum messunum sem við áttum að mæta í, en fyrir náð og miskunn séra Guðmundar fengum við að fermast. Ætli móðir mín hafi ekki bjargað okkur úr snörunni þar sem hún söng í kirkjukórnum. Það sem mér er minnisstæðast er að Gunnar lenti í hörkuslag við einhvern Árbæjarvilling rétt áður en við röltum fram á kirkjugólfið, í fermingarkyrtlunum, alveg eins og hvítþvegnir englar,“ segir Freyr um ferminguna sína.

„Fermingarveislan okkar var haldin í matsal Rafteikningar, vinnustaðar föður míns, í Borgartúninu, við hliðina á Höfða, þar sem leiðtogafundurinn fór fram árið áður. Þetta var ein fyrsta fermingarveislan í stórfjölskyldunni sem var án áfengis og reykingar bannaðar. Áður höfðu þetta verið svaka partí og börn ekki velkomin, en hér var dregin lína. Flestir voru nú bara sáttir, en kannski voru aðalpartípinnarnir eitthvað fúlir. Þetta var bara fínasta veisla, ég man eftir köldum kjúklingaleggjum, ritzkexi og rækjusalati, miklum herðapúðum; mikil átta í gangi.“

Manstu hvað þú fékkst í fermingargjöf?

„Ég var mikið í hestamennsku á þessum tíma og fékk hnakk í fermingargjöf sem nýttist afskaplega vel, orðabók, myndavél og svefnpoka sem ég nota ennþá.“

Halda veisluna heima

Freyr segist hlakka mikið til þess að fylgjast með syni sínum fermast í vor. „Tíminn æðir áfram og það sést bersýnilega á börnunum, sem vaxa alltof hratt,“ segir Freyr.

„Eins og með aðrar veislur í fjölskyldunni vona ég að fermingarveislan verði skemmtileg og eftirminnileg. Þetta snýst um að skapa rétta stemningu og það er hægt að gera með ýmsu móti og maður þarf ekkert endilega að panta heimsfræga skemmtikrafta eða rándýrar veitingar. Við ætlum að halda veisluna heima, malla eitthvað skemmtilegt og sniðugt. Fermingarbarnið verður vonandi með eitthvert atriði, ég held væmna ræðu, afarnir grilla og svo grillum við eitthvað í gestunum,“ segir Freyr um veisluna.

Er unglingurinn ykkar meðvitaður um umhverfið?

„Mér finnst unglingar miklu meðvitaðri um umhverfismál en við sem eldri erum. Við ræðum þessi mál þegar við erum að flokka og reynum að lágmarka kolefnissporið eftir bestu getu. Sonur minn fermist hjá Siðmennt og ætli þau séu ekki að ræða þessi mál þar í þaula?“

Freyr er fermingarpabbi í ár.
Freyr er fermingarpabbi í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bagalegt að nota fermingarfötin einu sinni

Er hægt að hafa fermingarveisluna umhverfisvæna?

„Eins og allt sem við gerum þá eiga fermingarveislur að vera umhverfisvænar. Það er hægt að takmarka matarsóun, henda ekki mat, nota umhverfisvænar skreytingar, kaupa ekki eitthvert drasl sem enginn notar. Bruðl, óskipulag og hugsunarleysi er óumhverfisvænt,“ segir Freyr.

Freyr nefnir að það sé einfalt að skreyta fyrir ferminguna á umhverfisvænan og ódýran hátt. „Þegar byrjar að vora er nú bara mjög einfalt að rölta út í garð og klippa greinar og föndra skreytingarnar sjálfur með fermingarbarninu – allt sem maður gerir sjálfur skapar aukna stemningu í veislunni. Keypt gerir ekki neitt! Gerum það sjálf – og allt verður brjál!“

Hvað með föt á fermingardaginn?

„Þetta er svolítið bagalegt með fermingarfötin – ég held að ég hafi bara notað mín einu sinni. Kannski eins og flestir. Fötin orðin alltof lítil og púkó eftir smá tíma. Þetta er bæði rándýrt og ekki umhverfisvænt. Það væri bara mjög sniðugt að geta leigt sér töff fermingarföt – er það ekki? Sonur minn er reyndar alveg jafn stór og ég þessa dagana og smellpassar í mín jakkaföt,“ segir Freyr.

„Hringrásarhagkerfið snýst um að nota auðlindir jarðarinnar betur og lengur. Fara ekki illa með verðmætin okkar. Vera ekki fáviti, bruðla og eyðileggja jörðina. Það helst í hendur að vera umhverfisvænn og hagsýnn. Það er tilvalið tækifæri að ramma þetta allt saman inn í fermingarveisluna og kenna komandi kynslóð góða siði,“ segir Freyr að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál